Hæstiréttur skerpir á félagafrelsi

Í síðustu viku felldi Hæstiréttur markverðan dóm varðandi félagafrelsi. Í dóminum fékk félagafrelsið að njóta vafans en um leið var vikið að störfum alþingismanna sem með lagabreytingu voru ekki taldir hafa hugað að félagafrelsisákvæðum stjórnarskrárinnar. Það er reyndar ekki alls kostar rétt því einn þingmaður vék einmitt að þessu álitaefni og greiddi lagabreytingunni ekki atkvæði sitt.

Dómurinn varðaði breytingu á lögum um lax- og silungsveiði sem gerð var árið 2015 að frumkvæði Sigurðar Inga Jóhannsson þáverandi sjávarútvegsráðherra. Breytingin miðaði að því að heimila veiðifélögum, sem allir veiðirétthafar á tilteknu veiðisvæði eru skyldugir til að vera í, að ráðstafa veiðihúsum sínum til almennrar útleigu í ferðaþjónustu utan veiðitímabils án þess að fá samþykki allra félaga. Lagabreytingin 2015 var þannig til þess að heimila verulega útvíkkun á starfsemi félaga sem tilteknir menn eru skikkaðir með lögum að vera að aðilar að.

Í stjórnarskránni eru áréttaðar þær tvær grundvallarreglur að menn hafi rétt á því annars vegar að stofna félög í friði frá stjórnvöldum og hins vegar rétt til þess að standa utan félaga. Báðum reglunum má þó víkja til hliðar vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra. Mat á því hvort slíkar aðstæður séu uppi verður alltaf í höndum löggjafans en ljóst að túlkun á slíku hlýtur alltaf að vera þröng. Markmið löggjafar um lax- og silungsveiði eru þau m.a. að tryggja sjálfbæra og hagkvæma nýtingu fiskistofna í ferskvatni og verndun þeirra. Löggjafinn mat það svo á sínum tíma að hagsmunir rétthafa á veiðisvæði tengdust svo náið að nauðsynlegt væri að leggja þá skyldu á þá að virða hagsmuni hvers annars með því að standa að sameiginlegu félagi í því skyni að tryggja markmið laganna um nýtingu fiskistofnana. Þannig er skylduaðild að veiðifélögum til komin. Um leið er starfsemi veiðifélags takmörkuð við það sem fellur að markmiðum laganna, þ.e. vernd og sjálfbæra nýtingu fiskistofna, og mega ekki ganga lengra en það. Færa má fyrir því rök að rekstur veiðihúsa á veiðitímabili tengist nýtingu fiskistofna.. Ég benti hins vegar á það 2015 að nýting veiðihúsa utan veiðitímabils, eins og um hverja aðra ferðaþjónustu væri að ræða, stæðist trauðla stjórnarskrárákvæði um félagafrelsi. Undir það tók enginn annar þingmaður. Hæstiréttur hefur nú tekið ítrekað það sjónarmið að starfsemi félaga sem rétt þykir að skylda menn til aðildar að verður að vera afar takmörkuð og skýrt skilgreind. Í niðurstöðu dómsins koma fram m.a. eftirfarandi:

…löggjafinn hafi látið hjá líða að meta hvort lagasetningin kynni að hafa áhrif á réttindi manna sem skyldugir væru til aðildar að veiðifélögum og hvort uppfyllt væru þau skilyrði 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar að verkefni sem félagi væru falin væru nauðsynleg til að það gæti rækt lögmælt hlutverk sitt. 

.

Að virtum sjónarmiðum um meðalhóf og kröfum sem gera verður til skýrleika og vandaðs undirbúnings lagaheimilda sem kunna að takmarka stjórnarskrárvarin mannréttindi og því að í e-lið 1. mgr. 37. gr. er mælt fyrir um hlutverk félags með skylduaðild og heimildir þess til ráðstöfunar á eignum ber að skýra ákvæðið og beita því með þeim hætti að með skyldri starfsemi sé vísað til verkefna sem samrýmist þeim markmiðum sem skylduaðild að félaginu er grundvölluð á samkvæmt 1. gr. laganna. Að öðrum kosti fælist í ákvæðinu að veiðifélagi væru fengnar heimildir umfram það sem því eru nauðsynlegar til að ná þeim markmiðum sem skylduaðildinni er ætlað að tryggja þannig að í bága færi við 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar.

 Ekki er loku fyrir það skotið að löggjafinn geti komið til móts við þessi sjónarmið Hæstaréttar með skýrslum, útreikningum og excel skjölum sem Hæstiréttur er nokkuð ginkeyptur fyrir og þannig fært rök fyrir brýnni nauðsyn þess að veiðifélög stundi ferðaþjónustu á veturna. Þá myndi reyna á hvort m.a. þeir frjálslyndu þingmenn sem nýlega lögðu fram fyrirtaks lagafrumvarp um félagafrelsi á vinnumarkaði, láti hafa sig út í slíkar kúnstir að beiðni veiðifélaga eða hvort þeir styðji raunverulegt frelsi til þess að standa utan félaga. Ég myndi hvetja þá til hins síðarnefnda og til þess að afnema hið fyrsta lagabreytinguna frá 2015 úr lögum um lax- og silungsveiði.

Rétt  er að geta þess að auk mín sat einn Pírati hjá við atkvæðagreiðsluna 2015, eins og hann gerði reyndar jafnan.

 

Previous
Previous

Hæstiréttur talinn óþarfur

Next
Next

Ríkisstjórn bannar rannsóknir