Kosningar leiða til kosninga á Spáni

Puerta del sol - Madrid.

Í gær, 28. maí 2023, fóru fram héraðs- og sveitastjórnarkosningar á Spáni. Úrslitin komu vægast sagt á óvart. Þótt hægri flokkunum hafi verið spáð góðu gengi, og jafnvel sérlega góðu í einstökum héruðum, þá er óhætt að fullyrða að vinstri menn hafi ekki búist við þeirri höfnun sem þeir svo urðu fyrir. Í spænskum fjölmiðlum er talað um fíaskó sósíalista sem misstu stjórnarmeirihluta í sveitastjórnum nokkuð rótgróinna vinstri bæja og héraða (t.d. Valencia, La Rioja og Balerares eyjar (Mallorca).

Íhaldsflokkurinn PP (Partido Popular) vann stórsigur, m.a. í Madrid bæði í héraðsstjórninni þar sem flokkurinn náði hreinum meirihluta og í borgarstjórn. Forseti héraðsstjórnarinnar, Ísabella Ayuso, hefur nú rækilega fest sig í sessi sem leiðtogi PP, hafi einhver verið í vafa um stöðu hennar innan flokksins. Margendurtekin tilvísun hennar til frelsis og ástríða fyrir Madrid féllu greinilega í kramið hjá kjósendum höfuðborgarinnar.

Í aukakosningunum fyrir tveimur árum, undir lok faraldursins, náði Ísabella Ayuso líka frábærum árangri eftir að boðið sósíalistunum í ríkisstjórn birginn þegar þeir vildu svo gott sem loka landinu öllu. Ísabella kom í veg fyrir að Madrid yrði svæfð til tveggja ára. Veitingahús í Madrid voru opin á meðan annars staðar var skellt í lás. Nú hafa kjósendur þakkað henni baráttuna tvívegis.

Fylgisaukningu PP má að einhverju leyti rekja til atkvæða frá klofningsframboði PP, borgaraflokknum (Ciudadanos) sem kalla mætti systurflokk Viðreisnar hér á landi. Segja má að flokkurinn hafi nánast þurrkast út í þessum kosningum. Hins vegar óx þriðja hægri flokknum ásmegin og fékk fleiri sveitastjórnarsæti en áður. VOX veitir PP harðari samkeppni en borgaraflokkurinn nokkurn tímann. Hann er hugmyndafræðilega hægri flokkur en ekki miðjumoð og er hægri kjósendum mjög til umhugsunar. PP þarf að mynda meirihluta með VOX í nokkrum héruðum. Formaður PP bauð hins vegar sósíalistum upp á það í dag að semja um að hvor flokkur fengi að stjórna þeim svæðum þar sem þeir fengu flest atkvæði, með stuðningi hins. Þannig þyrfti PP ekki að semja við VOX.

Að semja við sósíalista fremur en hægri flokkinn væri misráðið en því miður fyrirsjáanleg tilraun af hálfu íhaldsmanna sem vita upp á sig skömmina þegar að kemur að hugmyndafræði.

Þingkosningar á Spáni voru fyrirhugaðar undir lok árs. Sigur hægri manna var hins vegar þvílíkur í gær að Pedro Sánchez forsætisráðherra og formaður sósíalistaflokksins PSOE sá þann kost vænstan að boða til þingkosninga svo fljótt sem verða má. Hann metur það greinilega svo að eftir nokkurra mánaða stjórnartíð hægri manna í sveitarstjórnum yrði einboðið að þeir næðu hreinum meirihluta til þings, í það minnsta PP og VOX saman.

Þingkosningar fara því fram þegar Spánverjar tínast í sumarfrí 23. júní nk.

Previous
Previous

Tómlæti á landamærum

Next
Next

Rafrænar þinglýsingar