Tómlæti á landamærum

Tölur fengnar af heimasíðu Útlendingastofnunar, utl.is.

Eng­um dylst að stjórn­völd standa nú á gati þegar kem­ur að mót­töku fólks sem hingað leit­ar í von um alþjóðlega vernd (hæl­is­leit­end­ur). Stefnu um skipu­lega mót­töku flótta­manna í sam­starfi við sveit­ar­fé­lög og alþjóðastofn­an­ir hef­ur verið kastað fyr­ir róða. Eft­ir standa handa­hófs­kennd­ar ákv­arðanir stjórn­valda og skuld­bind­ing­ar sem strax frá upp­hafi ligg­ur fyr­ir að trauðla er hægt að standa við nema með ærn­um kostnaði. Eng­in framtíðar­sýn ligg­ur fyr­ir. Ekk­ert mat á efna­hags­leg­um áhrif­um óhefts aðgeng­is er­lendra rík­is­borg­ara að ís­lenskri fé­lags- og heil­brigðisþjón­ustu. For­ystu­menn rík­is­stjórn­ar­inn­ar vísa sum­ir á Alþingi þegar þetta úrræðal­eysi ber á góma. En er það að öllu leyti sann­gjarnt?

Ábyrgð rík­is­stjórn­ar og ráðherra

Árið 2016 hófst mik­ill skrípaleik­ur hér á kostnað skatt­greiðenda með hæl­is­um­sókn­um Alb­ana og Makedóna. Sem ráðherra þessa mála­flokks 2017-2019 lagði ég fram frum­vörp til breyt­ing­ar á lög­um um út­lend­inga sem öll voru samþykkt á Alþingi. Þess­ar laga­breyt­ing­ar ásamt reglu­gerðum skiptu sköp­um í því að taka fyr­ir það stjórn­leysi sem ein­kenndi þessi mál þá. Um­sókn­um frá Alban­íu og Makedón­íu fækkaði um 90%. Við mátti bú­ast að ekki væru all­ir þing­menn sátt­ir við þess­ar breyt­ing­ar. Þver­póli­tísk sátt hefði hins veg­ar verið, eins og i öðrum mál­um, biðleik­ur sem dregið hefði dilk á eft­ir sér. Þægi­legt fyr­ir ráðherra en full­kom­lega óá­byrgt.

Í þess­um mála­flokki er hins veg­ar ekki nægj­an­legt að lög og regl­ur formi fína ferla þegar í óefni er komið. Vand­inn ligg­ur í þeirri holskeflu fólks sem knýr hér dyra og fær sjálf­krafa aðgang að vel­ferðarþjón­ustu þegar af þeirri einu ástæðu að það bank­ar upp á.

Þegar grannt er skoðað má ráða að árit­un­ar­frelsi sumra ríkja utan EES inn á Schengen svæðið styður við fólks­flutn­inga í gegn­um vernd­ar­kerfið. Þar veld­ur ým­ist mis­skiln­ing­ur ferðamann­anna á eðli árit­un­ar­frels­is eða hreinn ásetn­ing­ur til þess að mis­nota það frelsi. Á slíku þurfa stjórn­völd að taka, með af­námi árit­un­ar­frels­is ef ekki vill bet­ur.

Tím­inn illa nýtt­ur

Árið 2018 komu 14 manns frá Venesúela og veitti Útlend­inga­stofn­un sjö vernd. Þetta var hverf­andi fjöldi í sam­an­b­urði við um­sókn­ir rík­is­borg­ara annarra landa á þeim tíma. Seinni hluta árs­ins 2019 varð veru­leg breyt­ing á þegar 149 um­sókn­ir bár­ust frá júlí til sept­em­ber það ár. Frá 2019 hef­ur þannig legið fyr­ir að í óefni stefndi. Ekk­ert virðist hafa verið aðhafst til að stemma stigu við þró­un­inni. Stuttu síðar var land­inu nán­ast lokað í nafni sótt­varna. Þrátt fyr­ir lít­il um­svif á vett­vangi stjórn­sýslu og stjórn­mála næstu tvö árin á eft­ir var sá tími ekki held­ur notaður til þess að grípa til aðgerða vegna fólks­fjöld­ans frá Venesúela sem hafði ekki al­veg stöðvast á tím­an­um þótt landið væri lokað flest­um öðrum í lög­mætri för.

Það sem af er þessu ári og á síðasta ári eru hæl­is­leit­end­ur frá Venesúela yfir 2.200. Þeir skáka jafn­vel Úkraínu­mönn­um það sem af er þessu ári sem fá þó hér dval­ar- og at­vinnu­leyfi nán­ast skil­yrðis­laust.

Rík­is­borg­ar­ar Venesúela þurfa ekki vega­bréfs­árit­un inn á Schengen svæðið og koma því þangað inn sem ferðamenn í 90 daga, einkum til Spán­ar þar sem þeir sækja um alþjóðlega vernd. Þeim er þar í nær öll­um til­vik­um hafnað en fá í staðinn dval­ar­leyfi til eins árs. Spánn er lang­stærsta mót­töku­ríki Venesúela­búa og tók á móti 15.836 hæl­is­leit­end­um í fyrra. Ítal­ía tók á móti 1.841 flótta­manni. Ísland skip­ar sér í hóp með þess­um stórþjóðum, meðal þeirra þriggja landa sem tóku á móti flest­um frá Venesúela í fyrra.

Á þessu ári hef­ur Svíþjóð látið sig varða árit­un­ar­frelsið sem Venesúela nýt­ur. Sænsk stjórn­völd, sem fóru með for­mennsku í ESB þar til í júní, hafa kallað eft­ir breyt­ing­um þar á vegna þess sem þau kalla „al­var­lega mis­notk­un“ á kerf­inu. Svíþjóð tók á móti 100 um­sókn­um um vernd frá rík­is­borg­ur­um Venesúela árið 2022. Ísland 1483.

Það er vel vitað hvað veld­ur þess­um fjölda frá Venesúela en stjórn­völd skila auðu í umræðunni um þenn­an fá­rán­leika.

Sam­bands­leysi rík­is­stjórn­ar við kjós­end­ur

Fyr­ir utan samn­inga fé­lags­málaráðherra við nán­ast gjaldþrota sveit­ar­fé­lög um þjón­ustu við brot af þeim hæl­is­leit­end­um sem hér eru stadd­ir, hvað ná­kvæm­lega sér rík­is­stjórn­in fyr­ir sér í þess­um efn­um næstu miss­er­in? Fyr­ir­heit um flótta­manna­búðar leysa ekki vand­ann held­ur mögu­lega þvert á móti geta flótta­manna­búðir virkað sem seg­ull á þá sem hafa ein­sett sér að mis­nota alþjóðlega sátt um aðstoð við stríðshrjáða.

Fram­lagn­ing daufra laga­breyt­inga und­an­far­in ár var ekki af hálfu Alþing­is held­ur ráðherra. Andstaðan við jafn­vel útþynnt frum­vörp ráðherra var af hálfu þing­manna rík­is­stjórn­ar­flokk­anna. Andstaða stjórn­ar­and­stæðinga skipt­ir litlu máli. Aðgerðarleysi til þriggja ára í mál­efn­um Venesúela er af hálfu rík­is­stjórn­ar en ekki Alþing­is. Komi hún ekki nauðsyn­leg­um mál­um í gegn­um Alþingi í krafti síns þing­meiri­hluta er við hana sjálfa að sak­ast.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 3. ágúst 2023.

Previous
Previous

Eignarréttur jarðeigenda skertur

Next
Next

Kosningar leiða til kosninga á Spáni