Cinco Días - Þurfa Íslendingar að borga?
Í dag birtist eftir mig grein í spænska viðskiptablaðinu Cinco Días. Greinin fjallar um Icesave málið, nema hvað, og ástæður þess að Ísland eigi ekki að bera ábyrgð á skuldbindingum gjaldþrota einkabanka. Greinin birtist einnig í vefútgáfu blaðsins. Íslenska þýðingu má lesa hér.
Ég hef verið formaður Spánsk-íslenska viðskiptaráðsins undanfarin 3 ár. Viðskipti Íslendinga og Spánverja hafa verið mikil í áratugi, að mestu leyti tengd sjávarútvegi, ferðaþjónustu og víni. Mér hefur sýnst þau viðskiptasambönd sem menn hafa byggt upp á löngum tíma í þeim geira vera afar traust. Mikil eftirspurn er jafnan eftir íslenskum sjávarafurðum á Íberíuskaganum og hef ég á tilfinningunni að mikið megi ganga á áður en menn leita hófanna um sambærilegar afurðir annars staðar. Verðið spilar auðvitað stóran þátt í þeim efnum. Traust og heiðarleiki skiptir hins vegar sköpum í öllum viðskiptum milli landa. Það er afar mikilvægt að orðstír Íslands bíði ekki hnekki við það að Íslendingar leiti réttar síns eftir þeim leiðum sem lýðræðisríki viðurkenna sem þær bestu er leysa á deilur. Að mínu mati þurfa allir Íslendingar að standa vörð um þann grundvallarrétt, óháð því hvað mönnum finnst um viðkomandi deilu í hvert skipti.
Við vinnslu blaðsins á greininni misritaðist því miður á einum stað fjárhæðin sem mun falla á hvern Íslending, 11 þúsund evrur urðu að 11 milljónum evra. Aðrar fjárhæðir eru réttar svo lesendur geta ráðið þetta af samhenginu. Já, svo er rétt að taka fram að titillinn þingmaður við nafn mitt er ekki frá mér kominn. Varaþingmannstitilinn, diputada alterna eða vice diputada, eiga Spánverjar erfitt með að skilja því fyrirbærið er ekki til að spænskum lögum.