Sigríður Á. Andersen

View Original

Engin mismunun

Ég færði fyrir því rök í Morgunblaðinu í dag að íslensk stjórnvöld hafi ekki mismunað innstæðueigendum, ekki frekar en bresk eða hollensk stjórnvöld gerðu.

Í hinu alþjóðlega bankahruni haustið 2008 kom í ljós að innstæðutryggingasjóðir Evrópulanda voru ekki til stórræðanna. Íslenski sjóðurinn sem starfað hafði athugasemdalaust í áratug samkvæmt tilskipun ESB gat engar innstæður bætt, hvorki í útibúi Landsbankans hér á landi né erlendis. Evrópska innstæðutryggingakerfið reyndist öllum viðskiptavinum Landsbankans gagnslaust. Þaðan fékk enginn krónu. Engum var því mismunað á grundvelli tilskipunar ESB um innstæðutryggingar. Bresk stjórnvöld gripu þá einhliða til þess ráðs að bæta allar innstæður á Icesave-reikningum Landsbankans í Bretlandi. Hið sama gerðu stjórnvöld í Hollandi.Stjórnvöld á Íslandi gripu til sömu ráða gagnvart innstæðueigendum í útibúum bankans hér á landi, hvort sem þeir höfðu íslenskt eða erlent ríkisfang. Engin mismunun á grundvelli þjóðernis átti sér stað. Þessar aðgerðir voru utan hins evrópska innstæðutryggingakerfis sem reyndist ónýtt er gaf á bátinn. Ríkisstjórnir allra landanna þriggja gripu til þessara ráða af sjálfsdáðum og á eigin forsendum.

Greinina í heild má lesa hér í greinasafninu.