Hagsæld hefur alla tíð grundvallast á frelsi einstaklinganna til þess að láta að sér kveða.
Lágir skattar og ráðdeild
Stöðva þarf áralanga og linnulausa aukningu útgjalda ríkis og sveitarfélaga og skapa þannig raunverulegri verðmæstasköpun svigrúm. Lækka þarf skatta myndarlega svo heimili og fyrirtæki verði við það vör, geti haldið áfram að greiða skuldir sínar og búa í haginn. Lækka þarf framfærslukostnað heimila og fyrirtækja með auknu frelsi í viðskiptum. Afnám almennra vörugjalda var gott skref í þessa átt. Tollar eru eingöngu lagðir á vörur upprunnar utan ESB og þá þarf að afnema með öllu. Auka þarf rými einstaklinga til atvinnurekstrar með því að ríkið dragi sig í hlé á sem flestum sviðum og losi sig úr starfsemi eins og verslun og fjölmiðlun, að ekki sé minnst á fjármálastarfsemina.
Fyrst og fremst þarf að lækka tekjuskatt einstaklinga til að koma í veg fyrir að skattbyrði aukist um leið og menn bæta hag sinn.
Er vinna dýrasta jaðarsportið?
Á undanförnum árum hef ég reynt að vekja menn til umhugsunar um hve letjandi og niðurdrepandi skattkerfið er orðið. Þegar um útselda vinnu er að ræða er til í dæminu að uppskera manna sé aðeins rúmar 2.500 krónur af þeim 10.000 krónum sem hin útselda vinna er. Ég hef fengið mikil viðbrögð við þessum ábendingum. Í kjölfarið setti ég upp reiknivélina Vasareikninn á heimasíðu minni haustið 2012 þar sem menn gátu séð hvað þeir fá í vasann þegar þeir bæta við sig vinnu.
Nýtum og njótum
Við þurfum að virkja aflið í einstaklingum og frjálsum félögum, bæði fyrirtækjum og áhugamannafélögum, til að vernda náttúruna og bæta umhverfið. Það er mikilvægt að ríkið grípi ekki fram fyrir hendurnar á þessum aðilum og það er í raun hlutverk Sjálfstæðisflokksins að koma í veg fyrir að það gerist. Frjálst framtak og skýr eignarréttur hefur skilað okkur miklum árangri á öðrum sviðum og við verðum að nýta það í umhverfismálunum.
Velferð
Við megum ekki missa sjónar á því að velferðarkerfið á að vera fyrir þá sem þurfa á aðstoð að halda en ekki hina sem nóg hafa. Við verðum að sporna gegn þeirri þróun, sem orðið hefur á síðustu árum, að fullfrískir og tekjuháir einstaklingar fái hæstu bæturnar úr sameiginlegum sjóðum okkar.
Jöfn tækifæri
Allir þurfa tækifæri til að láta til sína taka. Við þurfum að halda áfram að ryðja hindrunum úr vegi fyrir einstaklingsframtaki á sem flestum sviðum. Þetta á ekki síst við um mennta- og heilbrigðismál þar sem við getum eflt og bætt þjónustuna með auknu sjálfstæði stofnana og starfsmanna þeirra. Fjölbreytt framtak hraðar þróun á þessum sviðum.
Ríkisfjármálin og gjaldmiðillinn
Hefðbundinn flatur niðurskurður dugar skammt þegar kemur að því að draga úr ríkisútgjöldum. Stjórnmálamenn verða að hafa kjark og þor til þess að skoða hvern einasta útgjaldalið með það fyrir augum að taka afstöðu til þess hvort hann eigi yfirleitt áfram heima á fjárlögum. Við þurfum að sníða okkur stakk eftir vexti.
Það er óhjákvæmilegt að endurskoða peningamálastefnu Seðlabankans og stjórn ríkisfjármála með það að markmiði að þessir tveir þættir vinni saman.
Ég er andvíg því að ganga í Evrópusambandið. Að mínu mati verður evran því ekki tekin upp á þeirri forsendu.
Einkavæðing á eignarhlut ríkisins í bönkunum þarf að ganga snurðulaust fyrir sig og í sátt við almenning. Ég var þeirrar skoðunar, er einkavæðing bankanna hófst um aldamótin, að gera alla landsmenn að hluthöfum að stórum hlut í þeim, t.d. með því að senda hverjum og einum hlutabréf. Ég tel að þessi leið hafi aldrei átt eins vel við og nú. Um leið tel ég að þetta yrði til þess að flýta fyrir endurreisn virks hlutabréfamarkaðar hér á landi. Við einkavæðingu fjármálafyrirtækja þarf svo að tryggja að ábyrgð af rekstri þeirra lendi ekki á ríkinu og skattgreiðendum.
Öryggi og réttarríki
Það er frumskylda ríkisvaldsins að tryggja frelsi og öryggi borgaranna. Það er okkur öllum mikilvægt að búa við öryggi, hvort sem er á heimilum okkar eða á ferð um bæinn og vegi landsins. Mikilvægi góðrar löggæslu helst í hendur við virðingu borgaranna fyrir lögum og reglum. Einfaldar og skýrar reglur styrkja réttarríkið og auðvelda löggæslu.