Ef orkubúskapur annarra þjóða væri eins og okkar Íslendinga væri enginn að tala um loftslagsmál.

Sigríður Ásthildur Andersen er sjálfstætt starfandi lögmaður og veitir almenna lögfræðiþjónustu, ráðgjöf og sinnir málflutningi og almennri hagsmunagæslu auk ritstarfa.

Sigríður var kjörin af Alþingi til setu í bankaráði Seðlabanka Íslands 24. mars 2022.

Auk íslensku starfar Sigríður á ensku, spænsku og dönsku.

Menntun

Embættispóf í lögfræði frá Háskóla Íslands 1999 og hdl. réttindi 2001.

Erasmus styrkþegi við lagadeild Complutense háskólann í Madrid á Spáni 1997 til 1998.

Stúdent af eðlisfræðideild frá Menntaskólanum í Reykjavík 1991.

Sigríður hóf skólagöngu sína í Landakotsskóla og fór að honum loknum í Hagaskóla.

Sigríður lagði stund á BA nám í spænsku og viðskipta/hagfræði við Háskóla Íslands samhliða störfum.

Starfsferill

Sigríður var alþingismaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík frá árinu 2015 til 2021 og var dómsmálaráðherra frá 11. janúar 2017 til 14. mars 2019.

Hún starfaði sem héraðsdómslögmaður hjá LEX lögmannsstofu frá árinu 2007 til 2015 og sem lögfræðingur Verslunarráðs Íslands, síðar Viðskiptaráðs Íslands, frá 1999 til 2005 og fór þar meðal annars með framkvæmdastjórn Sænsk-íslenska og Spánsk-íslenska viðskiptaráðsins.

Starfsnámi lauk hún hjá Lögmönnum Höfðabakka og Málflutningsstofu Sigurðar Georgssonar hrl. og með námi starfaði hún sem blaðamaður á DV hinu gamla.

Með grunn- og menntaskólanámi starfaði Sigríður á auglýsingadeild DV og á Elli- og hjúkrunarheimilinu Grund.

Sigríður hefur verið fastur dálkahöfundur við ýmsa fjölmiðla undanfarin ár. Má þar nefna dálkinn Úr ólíkum áttum í Morgunblaðinu frá 2013, Viðhorf í Blaðinu frá 2005 til 2007, Veröld sem væri… í Viðskiptablaðinu frá 2003 til 2005 og reglubundna Kjallara á DV, hinu gamla, frá 2000 til 2003. Þá flutti hún vikulega pistla í Íslandi í bítið, morgunsjónvarpi Stöðvar 2, árið 2001. Auk þess hafa birst eftir hana fjölmargar greinar í Morgunblaðinu, Fréttablaðinu og ýmsum tímaritum.

Félags- og nefndastarf

Sigríður sat í stjórn RSE, rannsóknarmiðstöðvar um samfélags- og efnahagsmál 2022-2023.

Sigríður var einn stofnenda Advice, félags sem hafði það að markmiði að miðla upplýsingum um mikilvægi þess að hafna Icesave lögunum í þjóðaratkvæðagreiðslu sem fram fór 9. apríl 2011. Sigríður var einn talsmanna hópsins.

Sigríður sat í stjórn Amerísk-íslenska viðskiptaráðsins 2013-2017.

Sigríður var formaður Spánsk-íslenska viðskiptaráðsins á árinum 2007 til 2011. Þá sat hún í siðanefnd Sambands íslenskra auglýsingastofa um sjö ára skeið og í kærunefnd lausafjárkaupalaga árið 2005. Á árunum 1999 – 2002 sat hún í stjórn ICEPRO, samstarfs um rafræn viðskipti og sat í nefnd viðskiptaráðherra um verklag varðandi skilarétt neytenda árið 2000. Þá var hún fulltrúi í ráðgjafanefnd EFTA árið 2005 og átti sæti í Dómstólaráði árin 2004 til 2009.

Sigríður var einn af stofnendum þjóðmálafélagsins Andríkis og sat um árabil í stjórn félagsins.

Fjölskylda

Sigríður Ásthildur Andersen er fædd í Reykjavík 21. nóvember 1971. Eiginmaður hennar er Glúmur Björnsson efnafræðingur. Þau eiga tvær dætur.

Foreldrar Sigríðar eru Brynhildur K. Andersen fyrrverandi skrifstofumaður (látin) og Geir R. Andersen fyrrverandi blaðamaður. Bræður hennar eru Kristinn Andersen prófessor í verkfræði og Ívar Andersen verslunarmaður.