Áratugur án ávinnings
Ríkisrekstur er víða á Íslandi. Hann virðist hins vegar ekki vega þungt í landbúnaði við fyrstu sýn. Einhverjir gætu jafnvel talið búmennsku hið mesta einkaframtak og frelsið óvíða meira en hjá bóndanum í sveitasælunni með sín frjálsu dýr. Staðreyndin er samt sú að ríkið hefur sölsað landbúnaðinn undir sig að verulegu leyti með öllu því helsi, hokri og óhagræði sem slíkum afskiptum fylgir. Á fimm ára fresti hefur þessari staðreynd skotið upp kollinum þannig að blasi við öllum mönnum. Það er við gerð búvörusamninga. Þess á milli er landbúnaður bara ein fjárhæð af mörgum í fjárlögum, 11 til 12 milljarðar á ári. Það er svipað og Háskóli Íslands fær af fjárlögum. Við þennan beina stuðning bætast verndartollar af ýmsu tagi sem erfitt er að meta nákvæmlega til fjár en óumdeilt er að skipti milljörðum.Í lögum er kveðið á um heimild landbúnaðarráðherra til þess að semja við bændur um magn afurða sem bændum verður tryggt „fullt verð“ fyrir. Í búvörusamningi er það kallað „sanngjarnt verð“ fyrir innanlandsmarkað. Sumir tala í þessu sambandi um neytendastyrki. Hér sé verið að tryggja neytendum gott verð á landbúnaðarafurðum. En ef þetta er hugsað sem styrkur til neytenda liggur þá ekki bara beint við að úthluta hverjum þeirra ávísun á íslenskar landbúnaðarafurðir sem nemur um 40 þúsund krónum á ári?Það hefur verið ágætur samhljómur með bændum og stjórnvöldum um að verulegra breytinga sé þörf á kerfinu. Vandinn kann að vera sá að ekki er samstaða um hvert skuli stefna. Ekki er víst að allir bændur vilji draga úr fjárframlögum skattgreiðenda. Ég veit ekki einu sinni hvort núverandi ríkisstjórn hefur hug á því. Sumir innan hennar tala stundum eins og þeir vilji það en fyrirliggjandi búvörusamningar bera þess ekki merki. Þvert á móti er ríkisstuðningurinn aukinn. Nýmæli er stuðningur við svínakjötsframleiðslu og styrkir eru auknir til nautakjötsframleiðslu. Tollverndin er einnig aukin.Stuðningsmenn samninganna benda á gerðar séu miklar breytingar á kerfinu. Samið er um að semja um eftir mörg ár hvort að mjólkurkvóti skuli vera eða fara! Það kann að vera ágætt að fella niður kvótafyrirkomulagið en megin vandinn við kerfið sjálft hverfur ekki. Hér er bara hrært í grautnum. Í nýju búvörusamningunum eru engin fyrirheit um að draga úr ríkisstyrkjum. Sjálfsagt verða bændur ekki sviptir ríkisframlögum sem þeir hafa notið í áratugi „yfir nótt“. En hvað með á 10 árum? Væri það ekki raunhæfur aðlögunartími?
Hafi áður verið stemning fyrir því að framkvæmdavaldið geti ákveðið til 10 ára að færa tiltekinni atvinnugrein tugi milljarða á ári úr vösum skattgreiðenda þá er sá tími liðinn.
Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 28. febrúar 2016.