Að leggja sitt af mörkum

Að leggja sitt af mörkum

Sjálfboðastarf hvers konar verður gjarnan meira áberandi á þessum árstíma en öðrum. Jólin og hátíðarundirbúningurinn vekja marga, vonandi sem flesta, til umhugsunar um hag þeirra sem eiga við einhvers konar erfiðleika etja. Þeir sem eru veikir, fátækir, einmana eða fá af einhverjum sökum ekki notið þess sem jólahátíðin hefur upp á að bjóða, eiga samúð okkar sem erum betur á okkur komin. Þessari samúð er gjarnan komið á framfæri með milligöngu fólks sem gefur tíma sinn og vinnu í þágu bágstaddra.Sjálfboðastarf fárra?Skipulögð sjálfboðavinna hefur verið viðtekin hér á landi lengi. Rauði krossinn, Thorvaldsensfélagið, sem fagnaði 130 ára afmæli á síðasta ári og Hringskonur eru félög sem allir þekkja en trúlega flestir þó aðeins af afspurn. Jafnvel er ekki víst að allir utanaðkomandi átti sig á því í fljótu bragði á hvaða vettvangi þessi líknar- og mannúðarfélög starfa. Það efast hins vegar enginn um að sjálfboðastarf félagsmanna þeirra eru unnin af góðum hug og hefur skilað mörgum miklu.Þrátt fyrir langa tilvist góðgerðarfélaga og nokkuð áberandi afrakstur starfa þeirra má fara nærri því að fullyrða að sjálfboðavinna sé ekki samofin menningu Íslendinga almennt. Án þess að hafa tölfræði yfir ársverk unnin í sjálfboðavinnu, sem líklega er ekki til, er hæpið að fullyrða nokkuð. Mér segir þó svo hugur að þátttaka í sjálfboðastarfi sé ekki almenn á Íslandi. Að minnsta kosti ekki eins almenn og maður hefur á tilfinningunni að sé í, til dæmis, Bandaríkjunum.Í þágu barnaÍ fréttum fyrir nokkru var sagt frá ungum, nýgiftum hjónum sem létu Barnaspítala Hringsins njóta brúðkaupsgjafanna. Þau fjárfestu í hönnun og gerð búnings fyrir nokkurs konar lukkutröll spítalans sem fer um ganganna og gleður börnin sem þar dvelja. Fígúran var ísbjörn, Hringur að nafni. Sannarlega er þetta framtak sem mætti verða okkur hinum til eftirbreytni. Í fréttum kom svo fram að enn væri nokkuð fé eftir í sjóðnum sem þau stofnuðu í þessum tilgangi og yrði því varið til þess að fjármagna rekstur fígúrunnar. Til dæmis þyrfti að borga leikurum sem myndu klæðast búningnum.Barnaspítalar eru gjarnan áberandi vettvangur sjálfboðastarfs. Okkar íslenski barnaspítali var jú reistur að tilstuðlan áratuga sjálfboðavinnu. Á erlendum barnaspítölum eru sjálfboðaliðar hins vegar oft ómissandi þáttur í daglegum rekstri. Alþekkt er að sjálfboðaliðar starfi sem trúðar og aðstoði foreldra við umönnun barnanna. Hér á landi er þetta lítið þekkt. Samt er trúlega ekki erfitt að manna gott og umfangsmikið sjálfboðastarf í þágu veikra barna. Eða hvað? Þarf virkilega að borga mönnum fyrir að taka að sér að leika ísbjörninn Hring og skemmta veikum börnum?RíkisfaðmurinnGetur verið að hinn allt um lykjandi faðmur ríkisins hafi svipt Íslendinga allri trú á að einstaklingurinn geti skipt sköpum í velferðar- og mannúðarmálum? Að minnsta kosti virðist það vera að í þeim ríkjum þar sem menn hafa ekki alltaf getað gert ráð fyrir aðkomu ríkisvaldsins að öllum málum hefur skapast meiri hefð fyrir almennu, reglubundnu sjálfboðastarfi borgaranna. Við getum lært mikið af þessum þjóðum í þessum efnum.Birt í Blaðinu milli jóla og nýárs 2006.

Previous
Previous

Viðhald í Vesturbænum

Next
Next

Vín og mat ríkisins