Einskis máls flokkur?

unsplash-image-MZWBMNP7Nro.jpg

Nú þegar glittir í þinglok hefur Viðreisn lagt fram þingsályktunartillögu um aðildarviðræður við ESB, endurunnið efnið frá árinu 2009. Umræður fóru fram um málið í þingsal strax í kjölfarið. Ræðu mína í málinu má finna hér. Ég ritaði líka grein í Morgunblaðið um þetta mál sem árið 2016 var málið eina í hugum þeirra sem sáu ástæðu til þess að yfirgefa Sjálfstæðisflokkinn og stofna sérstakan stjórnmálaflokk þessu máli til heiðurs stuttu fyrir kosningar það ár. Greinin fer hér á eftir.

Þingflokkur Viðreisnar lagði nýlega til að blásið yrði lífi í þingsályktun vinstri stjórnarinnar frá 2009 um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Fyrir utan það metnaðarleysi þingflokksins að hengja sig á 12 ára gamla þingsályktun vinstri stjórnarinnar vekur helst athygli að þessi tillaga komi ekki fram fyrr en nú við lok kjörtímabilsins. Jafnvel þótt hún yrði samþykkt myndi hún ekki binda hendur nýs þingmeirihluta eða ríkisstjórnar að loknum kosningum sem fara fram eftir nokkra mánuði.

Ekki minnst á auðlindir landsins

Það segir einnig ákveðna sögu um alvöruleysið sem þarna býr að baki að ekki er minnst á auðlindir landsins í greinargerð Viðreisnar með tillögunni. Hver væru samningsmarkmiðin varðandi sjávarútveg, landbúnað og orkuauðlindir landsins? Að því er ekki vikið einu orði. Hins vegar er það tínt til að Icesave deilan hafi verið leyst vegna regluverks Evrópusambandsins! Deilan átti þó upptök sín í óraunhæfu regluverki sambandsins. Stofnanakerfi ESB, aðildarríki sambandsins og sambandið sjálft gerðu óbilgjarnar kröfur á Ísland, sátu um landið efnahagslega árum saman og stefndu Íslandi að lokum fyrir dóm þar sem kröfunum var hafnað. Helstu forsvarsmenn Viðreisnar lögðust á árarnar með ESB og keyptu hákarlaauglýsingar til að hræða Íslendinga til þess að undirgangast hinar löglausu kröfur.

hakarlaauglysing_icesave.jpg

Ónægt tilefni

Landsfundir Sjálfstæðisflokksins hafa hafnað tillögum um að Ísland gangi í Evrópusambandið. Vegna gremju með þessa lýðræðislegu niðurstöðu í stærsta stjórnmálaflokki landsins var Viðreisn að því er virtist stofnuð árið 2016.

Samstarf við Evrópusambandið er að sönnu undarlegt mál til að láta steyta á með þessum hætti því með EES-samningnum er Ísland í mjög nánum tengslum og samskiptum við ESB. Svo nánum að ýmsum þykir nóg um þótt ekki liggi endilega í augum uppi hvað gæti komið í staðinn. Enda segir í greinargerð með tillögu Viðreisnar: „Ísland hefur nú í rúman aldarfjórðung verið aðili að innri markaði Evrópusambandsins með aðildinni að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Innri markaðurinn er kjarninn í starfi Evrópusambandsins. Aðild EFTA-þjóðanna að honum felur því í raun í sér aukaaðild að sambandinu.“ Þegar þetta er haft í huga er skrítið að geta ekki umborið það að mörgum þyki vænt um fullveldi og sjálfstæði landsins og kæri sig ekki um meira en „aukaaðild“ að ESB.

 ESB ekki skilyrði

Eftir þingkosningar haustið 2017 myndaði Viðreisn „þingbandalag“ með Samfylkingu og Pírötum með það að markmiði að mynda vinstri stjórn í landinu. Það var eins konar lokatilraun til að koma í veg fyrir myndun núverandi ríkisstjórnar. Hinn 6. nóvember 2017 birti Ríkisútvarpið fréttina „Viðreisn myndi ekki setja ESB sem skilyrði“ á vef sínum. Þar sagði:

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, metur stöðuna við stjórnarmyndun þannig í dag að flokkarnir verði að koma sér saman um stjórn með breiðri skírskotun. Flokkurinn myndi ekki setja atkvæðagreiðslu um aðild að ESB sem skilyrði fyrir þátttöku í ríkisstjórn.

Þetta voru svo sem engin ný tíðindi því tæpu ári áður hafði Viðreisn sest í ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar án þess að sú stjórn hefði það að markmiði að endurvekja viðræður um aðild. En vissulega var það nokkur nýlunda að farga stefnumálinu án þess að fara í stjórn.

Málefni eða menn?

Það er eitt að stofna sérstakan flokk um eitt tiltekið mál. En þá er ekki mjög sannfærandi að fórna því aftur og aftur og fylgja málinu ekki eftir á þingi fyrr en rétt fyrir kosningar og þá með hangandi hendi. Þessi framganga bendir til að stofnun flokksins hafi fremur snúist um menn og þeirra persónulega metnað en málefnið.

Previous
Previous

Eldgosið tekur fram úr bílnum

Next
Next

Lokað fyrir lýðræðið?