Falskur tónn
Ríkið og Reykjavíkurborg verða ekki aflögufær næstu árin vegna samdráttar í efnahagslífinu. Tekjutap ríkisins er þegar komið fram að verulegu leyti með miklu falli í neyslusköttum.
Sveitarfélögin munu sömuleiðis finna fyrir lægri útsvarstekjum er fram í sækir. Engu að síður kynntu ríki og borg í síðustu viku samkomulag um að halda áfram byggingu tónlistarhússins við Reykjavíkurhöfn. Talið er að það kosti 13 milljarða að ljúka byggingu hússins en þegar framkvæmdir hófust var sagt að bygging tónlistar- og ráðstefnuhússins myndi kosta 12 milljarða. Nú er búið að reisa húsið en engu að síður mun það kosta 13 milljarða að ljúka því! Hver ætli endanleg tala verði? Þessa 13 milljarða hafa hvorki ríki né borg til reiðu en ætla engu að síður að eyða þeim. Hafa menn ekki fengið nóg af skuldsettum ævintýrum?
Þess má geta að árið 1997 var ætlunin að byggja tónlistarhús í Laugardal fyrir 1.550 milljónir króna, sem er um 5 - 10% af því sem tónlistarhúsið á hafnarbakkanum mun kosta. Það þótti of dýrt og ekkert varð úr framkvæmdum. Síðan hafa bæst við fínir tónleikasalir, t.d. Salurinn og Ýmir og einnig stór samkomuhús eins og Egilshöll sem Domingo gerði sér að góðu árið 2005 og sagði að tónleikum loknum: „Hljómurinn var mjög góður."
Rökin sem ríki og borg leggja helst fram til að réttlæta framhald framkvæmda við tónlistarhúsið er að það skapi störf þar til húsið verður opnað 2011. Fallist menn á þau rök að hið opinbera fari í atvinnuskapandi framkvæmdir eru menn þá alveg vissir um að hús á borð við tónlistarhúsið eigi að njóta þess? Hvað með skóla borgarinnar sem sumir eru enn á framkvæmdastigi? Nú eða þjónustan sem skólarnir veita?
Hvernig má það vera að Reykjavíkurborg og nýr menntamálaráðherra setji tónlistarhúsið í forgang við þær erfiðu aðstæður sem nú blasa við þjóðinni?
Greinin birtist í Fréttablaðinu 26. febrúar 2009.