Fangar
Málefni fanga hafa verið mörgum hugleikin undanfarið. Án efa hefur sjónvarpsþáttaröðin Fangar haft þar áhrif á og fengið menn til velta vöngum yfir lífinu innan veggja fangelsismúranna. Einkum stöðu kvenfanga.Fyrr í vikunni var sérstök umræða á alþingi um stöðu fanga. Sjónarmiðin sem þar voru sett fram báru öll með sér mikinn velvilja í garð fanga og samhug. Að sama skapi örlaði á tortryggni í garð fangelsa sem slíkra þótt einungis einn þingmaður hafi viðrað þá skoðun að fangelsisvist væri beinlínis gamaldags og úrelt fyrirbæri. Þeir þingmenn sem til máls tóku lögðu hins vegar áherslu á að markmiðið með fangelsisvist ætti að vera betrun fremur en eitthvað annað. Frá mínum bæjardyrum séð var það ánægjulegt. Ekki síst vegna þess að undanfarin ár hefur gjarnan gætt undarlegrar refsigleði í almennri umræðu um einstök dómsmál. Jafnvel úr ræðustól alþingis.Á það ber þó að líta að tilgangur refsinga er margþættur. Refsingu er ætlað að vera hegning fyrir brot um leið og henni er ætlað að vera öðrum víti til varnaðar og vera þannig forvörn gegn brotum almennt. Refsingu er líka ætlað að sporna gegn áframhaldandi brotum hins dæmda. Fangar eru auðvitað ekki einsleitur hópur og forsögur fangelsisvistar eru margvíslegar. Þó er það mál manna sem helst þekkja til að meirihluti fanga glími við slíkan vanda, heilsufars- og/eða félagslega, að markmið refsingar um að ná hinum dæmda af refilstigum náist illa nema með því að ráðast að rótum hans. Þar gegnir betrunarþáttur refsingar lykilhlutverki.Ný lög um fullnustu refsinga voru samþykkt á síðasta ári. Í þeim er í fyrsta sinn kveðið með skýrum hætti á um að markmiðið með fullnustu refsing sé öðru fremur að undirbúa dómþola fyrir virka þátttöku í samfélaginu. „Farsæl betrun“ er þannig lögum samkvæmt eitt meginmarkmið fullnustu refsinga. Með það að leiðarljósi voru því jafnframt rýmkaðar reglur um fullnustu refsinga utan fangelsis, svo sem með samfélagsþjónustu eða með rafrænu eftirliti. Því skal þó haldið til haga að frjáls félagasamtök hafa í nokkra áratugi gegnt lykilhlutverki við fullnustu refsinga. Þannig hafa fangelsismálayfirvöld átt gott samstarf við áfangaheimilið Vernd um vistun fanga sem eru að ljúka afplánun. Vægi Verndar mun ekki minnka nú þegar sjónum er í ríkara mæli beint að fullnustu dóma utan fangelsis.Það er þó ekki raunhæft að vænta þess að allir fangar eigi þess kost að afplána meirihluta dóms utan fangelsis. Þeir sem eftir sitja inni eru hins vegar jafnvel í brýnni þörf fyrir „farsæla betrun“ en hinir. Það er rétt að stefna að því að búa enn betur að þeim.
Tilgangur refsinga er margþættur. Einn þáttur lýtur að betrun fanga. Refsingu er líka ætlað að sporna gegn áframhaldandi brotum hins dæmda.
Greinin birtist áður í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 13. mars 2017 – saa@althingi.is