Hundrað ára meinsemd
Á heimasíðu með upplýsingum um vínverslanir er talið að netverslanir með áfengi „hér á landi“ séu 21 talsins. Þær eru auðvitað miklu mun fleiri því Íslendingar hafa í áraraðir keypt áfengi eins og aðrar vörur á netinu hvaðanæva, jafnvel beint frá býli í Frakklandi.
Þessi nýi verslunarmáti skilur einokunarverslun ríkisins með áfengi eftir í rykinu. Netsölurnar hafa hrundið einokun ríkisins á markaðinum.
Eftir situr löggjöfin ein og afskipt.
Um er að ræða annars vegar heildarlög um áfengi, áfengislög nr. 75/1998, og hins vegar sérlög um verslun með áfengi og tóbak, nr. 86/2011, þar sem kveðið er á um einkarétt ÁTVR á smásölu áfengis.
Áfengislögin heyra undir dómsmálaráðherra en lögin um ÁTVR heyra undir fjármálaráðherra.
Sumarið 2022 samþykkti Alþingi að frumkvæði dómsmálaráðherra nýtt ákvæði í áfengislögin sem heimilar framleiðendum áfengis að selja áfengi í smásölu á framleiðslustað. Ákvæðið er reyndar torskilið bæði að efni og formi en er augljóslega ætlað draga úr einokun ÁTVR. Sérlögum um ÁTVR var breytt lítillega af þessu tilefni og stendur nú þannig eftir að eitt rekst á annars horn. Gildisvið laganna nær nú aðeins til áfengissölu ríkisins en þó þannig að ríkið hefur samkvæmt sömu lögum enn einkaleyfi á smásölunni.
Það þarf ekki að deila um það að ríkið hefur ekki lengur einkaleyfi á smásölu áfengis. Um það vitnar áðurnefnd breyting á áfengislöggjöfinni. Mest munar þó um þróun síðustu ára. Neytendur láta ekki lengur bjóða sér ríkisrekna áfengisverslun. Löggjafanum ber skylda til að bregðast við þessari þróun.
Eigið fé ÁTVR er um 7 milljarðar. Samdráttur hefur verið í rekstrinum undanfarin ár og má vera ljóst að svo verði áfram. Ekki er óvarlegt að ætla að hratt verði gengið á þetta eigið fé af þeim sökum. Við höfum sögu af sambærilegu ríkisfyrirtæki sem við ættum að læra af. Pósturinn, síðar Íslandspóstur, lenti í svipaðri tilvistarkreppu þegar ný tækni og einkaaðilar bönkuðu upp á á markaðinum. Stjórnmálamenn hafa ekki ennþá borið gæfu til þess draga ríkið út úr póstútburði. (Hafa þó meira að segja Bretar hafa einkavætt konunglega póstinn fyrir löngu.) Skattgreiðendur hafa á undanförnum árum þurft að leggja til milljarða í reksturinn. Það er mikið til þess vinnandi að ÁTVR verði skattgreiðendum ekki sama áþján og Íslandspóstur hefur verið.
Sumir segja ÁTVR „barns síns tíma“. Ég er ósammála því. Einokunarverslunin hefur aldrei verið til góðs. ÁTVR hefur verið meinsemd í íslenskri verslun og nú í yfir 100 ár. Nú er mál að linni.
Stöð 2 ræddi þetta við mig í gær.