Í upphafi skal endinn skoða

iupphafiskyldiendinn.jpg

Ég uppgötvaði um áramótin að mér hafði láðst að láta nýjan launagreiðanda gera ráð fyrir viðbótarlífeyrissparnaði í séreignarsjóð. Ég hef alltaf lagt fyrir tiltekinn hluta launa minna með þeim hætti og þannig fengið framlag frá launagreiðanda sem nemur 2% af launum. Í upphafi skrifaði ég undir samning við einhvern séreignarsjóðinn, tilkynnti þáverandi launagreiðanda þá ákvörðun og hef lítið haft af málinu að segja eftir það. Ég varð því svolítið hvekkt þegar ég uppgötvaði að greiðslur í sjóðinn höfðu fallið niður í nokkra mánuði. Auðvitað var andvaraleysi mínu um að kenna en ég velti þó fyrir mér hví athygli mín hafi ekki verið vakin á þessu. Lína frá launadeild hefði nægt: „Sigríður mín, ertu ekki að greiða í viðbótarlífeyrissjóð?“ Kvikna ekki rauð ljós í launadeild ef einhver er ekki að greiða séreignarsjóð? Nei. Það kom mér á óvart að heyra að fráleitt allir á vinnustaðnum greiða viðbótarframlag í lífeyrissjóð. Nokkur hluti starfsmannanna hefur þannig kosið að afþakka 2% launahækkun um hver mánaðamót!Þetta hefði ekki átt að koma mér á óvart í ljósi umræðu um lífeyrismál og kjör eldri borgara. Mér hefur þótt örla á því að það komi mönnum á óvart við lok starfsævinnar hver lífeyrir þeirra er. Þá er ríkt hjá sumum að vilja líta svo á að menn eigi sjálfstæðan rétt til ellilífeyris frá TR, án tillits til tekna þeirra að öðru leyti; „Ég hef alltaf greitt skattana mína og á því rétt á þessum bótum TR“. Svona rétt eins og heilsuhraustir menn hafi rétt á því að leggjast helgi og helgi inn á spítala. Mörgum þykir afar ósanngjarnt að bætur TR séu að verulegu leyti tekjutengdar. Það er jafnframt harðlega gagnrýnt að þeir sem eiga langa starfsævi að baki og hafa ætíð greitt í lífeyrissjóð hafi litlu meira ráðstöfunarfé en þeir sem eingöngu reiða sig á almannabótakerfið.Það nær hins vegar ekki nokkurri átt að fólk með góðar eða jafnvel háar greiðslur úr lífeyrissjóði fái háar bætur frá skattgreiðendum. Sívaxandi hluti þeirra sem nú kemst á ellilífeyrisaldur hefur greitt í lífeyrissjóð alla sína starfsævi og fáar þjóðir hafa lagt jafn mikið fyrir og Íslendingar. Nú eru í lífeyrissjóðum landsmanna eignir sem jafngilda allri landsframleiðslunni í 18 mánuði. Ísland nýtur verulegs forskots á aðrar Norðurlandaþjóðir hvað þetta varðar.Markmiðið með lífeyrissjóðakerfinu er að hver og einn hafi forræði á sínum kjörum að lokinni starfsævi, bæði með samtryggingarsjóðum og séreignarsöfnun en ekki með bótum frá ríkinu. Við munum færast jafnt og þétt nær þessu marki. Þá eykst rýmið til að bæta hag þeirra sem af ýmsum ástæðum hafa lítt eða aldrei greitt í lífeyrissjóð.

Fáar þjóðir hafa lagt jafn mikið fyrir í lífeyrissjóði og Íslendingar. Af þjóðum OECD hafa aðeins Hollendingar lagt fyrir stærri hlut af landsframleiðslu en við við.

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 31. janúar 2016. Mynd DJTaylor/Shutterstock.

Previous
Previous

Að loknu starfsmannaviðtali

Next
Next

Hefndarklám er refsivert