Konur eru líka menn
Það er erfitt að setja sig í spor þeirra sem sátu heima við alþingiskosningarnar árið 1874, þær fyrstu eftir að alþingi fékk löggjafarvaldið á ný eftir mikla baráttu. Fjöldi landsmanna sat heima, einhverjir örugglega til að lýsa frati »á þetta allt saman« eins og þekkist í dag en flestir, nánast allir landsmenn, vegna þess að þeir áttu ekki annarra kosta völ. Þeim stóð ekki til boða að hafa áhrif á nýja löggjöf með því að velja fulltrúa sína á þjóðþingið, höfðu ekki kosningarétt. Ráðagóðar kerlingar, áhugasamar um þjóðmálin, biðu til 19. júní 1915 til að geta kosið og það gerðu þær í fyrsta sinn í kosningunum ári seinna, en þó bara þær sem voru orðnar 40 ára. Á sama tíma þurftu karlar sem höfðu kosningarétt bara að vera 25 ára. Jafnræði hvað aldur kynjanna varðaði náðist ekki fyrr en 1920.Það sem af er þessu ári hefur aldarafmælis kosningaréttar kvenna verið minnst með margvíslegum hætti og á afmælisdaginn sjálfan í næstu viku er efnt til sérstakra hátíðarhalda. Vissulega hallaði á konur við stjórnvöl landsins fram eftir síðustu öld. Það hallaði þó einnig á marga aðra, eiginlega alla. Karlar fengu almennt ekki kosningarétt fyrr en 1920 en eftir sátu bótaþegar af báðum kynjum sem fengu ekki kosningarétt fyrr en mörgum árum síðar. Lögræðissviptir fengu nýlega kosningarétt, til þess að gera.Um tvö hundruð árum áður en íslenskar konur fengu kosningarétt höfðu Bandaríkjamenn barist fyrir sjálfstæði sínu meðal annars með ákallinu um að engan skatt megi leggja á þjóð án aðkomu fulltrúa þjóðarinnar (»No taxation without representation«) og náðu skattlagningarvaldinu heim í hérað með sjálfstæðinu. Bandarískar konur bættu þessar hugmyndir enn frekar og bentu að sjálfsögðu á að þjóðin væri samansett af einstaklingum sem allir þyrftu að fá tækifæri til að hafa áhrif á til að mynda skattlagningu sem að þeim beinist. Þær höfðu ekki erindi sem erfiði með þessum málflutningi á þeim tíma og fengu ekki stjórnarskrárvarinn kosningarétt fyrr en árið 1920, sama ár og fullkomið jafnræði með kynjunum náðist hér á landi.Þótt ákallið um fulltrúalýðræðið við skattlagningu hafi ekki verið sett fram til verndar einstaklingunum, heldur í baráttu stjórnvalda vestan hafs við önnur stjórnvöld hinumegin við Atlantshafið, þá spratt það upp af lýðræðishugsjón. Lýðræðið er einskis virði ef frelsi einstaklingsins og réttur hans til að hafa áhrif á þær takmarkanir sem frelsi hans eru settar er fótum troðið.
>> Lýðræðið á enn langt í land í mörgum löndum, jafnvel nálægt okkur. Dæmdir menn missa kosningarétt sums staðar og hér á landi njóta 16-18 ára ungmenni ekki kosningaréttar þótt þau greiði skatta eins og þeir sem eldri eru. <<
Greinin birtist í Morgunblaðinu 14. júní 2015.