Landsréttur tekur til starfa
Ný lög um dómstóla tóku gildi 1. janúar. Fyrsti starfsdagur Landsréttar er í dag. Hugmyndin að stofnun nýs milldómstigs á rætur að rekja nokkra áratugi aftur í tímann. Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á skipan dómsvaldsins á þeim tíma þótt ekki hafi orðið af stofnun millidómstigs fyrr en nú. Mikilverðust var sú breyting er fólst í aðskilnaði dómsvalds og framkvæmdavalds sem varð árið 1992 þegar dómsvald var tekið úr höndum bæjarfógeta og sýslumanna og stofnaðir voru átta héraðsdómstólar. Breytingin sem nú verður á skipan dómsvalds með tilkomu Landsréttar hefur sama tilgang og breytingin árið 1992, þann að tryggja enn frekar réttláta meðferð dómsmála.Helstu breytingarLandsréttur er nýr áfrýjunardómstóll. Hæstiréttur mun áfram starfa sem æðsti dómstóll landsins en langflestum dómsmálum mun ljúka fyrir Landsrétti. Helsti munur á störfum Hæstaréttar og Landsréttar er sá að fyrir Landsrétti eiga aðilar þess kost að framkvæma munnlega sönnunarfærslur þyki það nauðsynlegt og fá þannig endurmat áfrýjunardómstólsins á niðurstöðu héraðsdóms um sönnunargildi framburða aðila máls og vitna.Með nýjum lögum eru aukið við og skýrt frekar hlutverk nefndar um dómarastörf. Nefndin hefur þegar sett nýjar reglur um aukastörf dómara og eignarhlut dómara í atvinnufyrirtækjum. Ég hef áður boðað frumvarp til laga um hagsmunaskráningu dómara og hyggst leggja það fyrir Alþingi innan tíðar.Þá er í nýju lögunum kveðið á um nýtt fyrirkomulag við tímabundna setningu dómara vegna leyfa skipaðra dómara. Meginreglan er nú sú að fyrst beri að leita til fyrrverandi dómara ef setja þarf dómara tímabundið við Hæstarétt eða Landsrétt. Hæstiréttur hefur þannig ekki lengur algert sjálfdæmi um val á dómurum til tímabundinna starfa.Fyrirkomulag við skipan dómaraFyrirkomulag við skipan dómara er að öðru leyti óbreytt frá því sem verið hefur frá árinu 2010. Þá var nefnd sem lengi hafði verið falið að fjalla um hæfni umsækjenda um héraðsdómaraembætti veitt aukið vægi með því að gera ráðherra skylt að bera undir Alþingi tillögu sína um skipan dómara ef ráðherra vildi víkja frá áliti nefndarinnar. Um leið var nefndinni einnig falið að fjalla um umsækjendur um embætti við Hæstarétt en fram að þeim tíma hafði Hæstiréttur sjálfur veitt umsögn um þá.Það hefur verið margvíslegur bragur á umsögnum nefndarinnar frá árinu 2010. Stundum hefur nefndin metið fleiri en einn umsækjanda meðal hæfustu umsækjenda um eitt embætti. Oftar hefur nefndin þó komist að þeirri niðurstöðu að einn umsækjandi sé umfram aðra hæfur til að gegna auglýstu embætti. Frá 2010 hefur um tíu sinnum verið skipað í embætti dómara auk tímabundinna setninga. Ráðherra hafði aldrei vikið frá ályktun dómnefndar. Ekki fyrr en á síðasta ári við skipan 15 dómara við Landsrétt.Vilji löggjafansÞað er ljóst af greinargerð með lagabreytingunni 2010 að vangaveltur voru uppi um að fela dómnefnd í raun alfarið að skipa dómara, t.d. með því að gera ráðherra undantekningarlaust skylt að fara eftir áliti nefndarinnar. Hins vegar var sérstaklega vikið að því sjónarmiði að ábyrgðin á útnefningu dómara þurfi að vera hjá þeim sem beint eða óbeint sækir umboð sitt til þjóðarinnar. Með því að fela ráðherra að útnefna dómara er tryggt að valdið liggur hjá stjórnvaldi sem ber ábyrgð gagnvart þinginu. Og með valnefnd sem að hluta er skipuð af dómstólum má finna hæfilegt jafnvægi milli dómstóla og framkvæmdavalds og þar með einnig löggjafans. Niðurstaðan við lagabreytinguna árið 2010 var í samræmi við þetta. Það var og er enn að mínu mati ótvíræður vilji löggjafans að hafa hönd í bagga með skipan dómara hér á landi.Sjálfstæði dómstólaSjálfstæði dómstólanna er stundum nefnt í þessu sambandi og mikilvægt er að dómendur séu sjálfstæðir í störfum sínum. Það er hins vegar vert að hafa í huga að sjálfstæði dómstólanna lýtur ekki eingöngu að sjálfstæði gagnvart framkvæmda- og löggjafarvaldi heldur öllum öðrum einnig. Dómari á að vera óbundinn af öllu nema lögunum. Þessu tengdar eru reglur um skráningu aukastarfa dómara og hagsmunaskráningu. Þá er einnig mikilvægt að dómarar séu óháðir hver gagnvart öðrum.Ég get tekið undir með þeim sem vilja lágmarka áhrif stjórnmálamanna. Það verður þó ekki fram hjá því litið að kjörnir fulltrúar hafa óhjákvæmilegu hlutverki að gegna í lýðræðislegu þjóðfélagi, meðal annars gagnvart dómstólum. Fullkominn aðskilnaður milli kjörinna fulltrúa og dómstóla samræmist varla hugmyndum um þrígreiningu ríkisvaldsins. Enginn einn þáttur ríkisvaldsins má vera svo ótengdur öðrum að hann verði beinlínis ríki í ríkinu. Engin grein ríkisvaldsins á að geta lotið bara sjálfri sér.Skipan LandsréttarÞað var ánægjulegt að fá tækifæri til þess að koma að skipun 15 dómara við Landsrétt sl. vor eftir góðan undirbúning forvera minna í embætti að stofnun réttarins. Ég gerði mér grein fyrir því áður en embættin voru auglýst að það kynni að vera vandkvæðum bundið að skipa svo marga dómara í einu. Það var ekki sjálfgefið að í okkar litla samfélagi væru til taks á sama tíma svo margir lögfræðingar þannig hæfir að bragur væri að fyrir nýjan áfrýjunardómstól. Einnig var mér ljóst að vel gat farið svo að styr gæti staðið um skipunina.Það var mér því til mikillar ánægju að sjá langan lista hæfra umsækjenda sem flestir hefðu sæmt Landsrétti prýðilega. Að sama skapi kom það mér á óvart að hæfnisnefndin komst að þeirri niðurstöðu að nákvæmlega 15 umsækjendur væru hæfastir í embættin 15. Ég taldi að fleiri umsækjendur væru engu síðri en þessir 15. Ég er ekki fyrsti ráðherrann sem stendur frammi fyrir þeim möguleika að víkja frá niðurstöðu nefndarinnar. Ólíkt fyrirrennurum mínum hafði ég hins vegar lagaskyldu til þess að bera upp tillögu mína um skipan dómara við Alþingi, hvort sem hún væri í samræmi við álit dómnefndarinnar eða ekki. Löggjafinn hafði nefnilega sett árið 2016 sérstakt ákvæði um skipan dómara við Landsrétt í fyrsta sinn og þannig tryggt að Alþingi hefði lokaorðið um þá skipun. Það var skynsamlegt og eðlilegt. Í því ljósi kannaði ég viðhorf Alþingis til umsagnar dómnefndarinnar og ræddi m.a. við forystumenn flokkanna. Eins og ég lýsti í sumar var mér ljóst eftir þessi samtöl að tillaga mín til Alþingis sem byggði alfarið á umsögn nefndarinnar myndi ekki hljóta brautargengi á Alþingi. Meðal þeirra sjónarmiða sem fram komu í samtölunum lutu að hlut kynjanna í hinum nýja rétti. Ég gerði aðra tillögu til Alþingis og var hún samþykkt. Það er síðan ánægjulegt til þess að líta að aldrei áður hefur jafnmikilvæg stofnun verið sett á laggirnar með jöfnum hlut beggja kynja. Það er vonandi tímanna tákn.Nú liggur hins vegar fyrir dómur Hæstaréttar þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að ég hafi ekki rannsakað mál nægilega áður en ég tók þá ákvörðun sem Alþingi síðar staðfesti. Ég uni þeim dómi ágætlega þótt ég sé honum ósammála. Rannsóknarregla stjórnsýslulaga er afar matskennd. Hvenær er mál nægilega rannsakað? Ég hef lýst því hvernig ég muni hafa forgöngu um endurskoðun á verklagi við skipan dómara í ljósi dómsins. Þá mun ég hefja samtal við löggjafann um fyrirkomulag þessara mála enda varðar dómur Hæstaréttar ekki síður valdheimildir Alþingis en ráðherra. Að öðru leyti var aðalkröfu stefnenda í þessu dómsmáli, um ógildingu skipunar dómara við Landsrétt, vísað frá dómi. Tillaga mín um skipan dómara við Landsrétt, sem Alþingi samþykkti, stendur þannig óhögguð.Landsrétti óskað heillaVið þessi tímamót í íslenskri réttarsögu óska ég Landsrétti allra heilla. Það verða ekki allir alltaf sáttir við niðurstöðu Landsréttar, eðli dómsmála býður ekki upp á slíkt, en ef dómurinn dæmir einungis eftir lögum getur enginn kvartað yfir dómstólnum.Nýjum dómurum við Landsrétt óska ég gæfu í vandasömu starfi. Öllum umsækjendum um embættin þakka ég fyrir áhugann á störfum innan réttarkerfisins og óska þeim farsældar.
Það var ánægjulegt að fá tækifæri til þess að koma að skipun 15 dómara við Landsrétt sl. vor.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 2. janúar 2018.