Matur í bensíntakinn
Nýlega sýndi Ríkissjónvarpið þýsku heimildarmyndina Maís-tálsýnin (Der Mais-Wahn). Í myndinni er sagt frá því hve maís skiptir margt fólk miklu máli – jafnvel í hvert mál. Fyrir ótrúlega marga er maís lífsspursmál. Talið er að milljarður manna treysti að verulegu leyti á næringu úr maís.Á síðustu áratugum hafa stjórnvöld á Vesturlöndum hins vegar tekið ákvörðun um að beina þessari mikilvægu næringu og fleiri matjurtum í nýjan farveg. Miklum fjármunum, bæði beinum ríkisstyrkjum og skattaívilnunum, er nú varið í að breyta matjurtum á borð við maís í eldsneyti á bílana okkar eða jafnvel í gas til raforkuframleiðslu.Eins og kom fram í þýsku heimildarmyndinni er stórum hluta af maísuppskeru Bandaríkjanna nú breytt í etanól (vínanda) sem blandað er í bensínið. Flest ríki Vesturlanda hafa leitt í lög kvaðir sem þvinga seljendur eldsneytis til að blanda slíku matareldsneyti í hefðbundið eldsneyti. Þar á meðal Ísland, eftir forskrift frá Evrópusambandinu.Fram kom í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn minni á alþingi um þetta efni á síðasta kjörtímabili að íslenska ríkið leggur einnig um 1,2 milljarða króna á ári í styrki til innflutnings á matareldsneyti af þessu tagi. Gróflega má svo gera ráð fyrir að matareldsneytið (etanólið) sem flutt er árlega til Íslands sé framleitt úr fæðu sem gæti mettað 100 þúsund manneskjur á ári. Þær voru grátlegar lýsingar margra barna móðurinnar í Kenýa sem kom fram í þættinum á því hvernig þessi stefna stjórnvalda, m.a. íslenskra, hefur haft áhrif á lífsmöguleika fjölskyldu hennar. Verðið á þessari fábreyttu en lífsnauðsynlegu fæðu í hennar heimshluta er hærra en hún ræður við. Með því að festa það í lög að nota matjurtir sem orkugjafa eykst eftirspurnin eftir þeim, sérstaklega maís. Það leiðir til hærra verðs en ella og hefur neikvæð áhrif á möguleika milljóna manna til að nærast.Vert er að hafa í huga að matareldsneytið inniheldur þriðjungi minni orku en venjulegt bensín og því leiðir notkun þess til aukins eldsneytisinnflutnings og ferðum bíleigenda á bensínstöðvar fjölgar.Þessi notkun matareldsneytis er því bæði óhagkvæm og hefur óæskileg áhrif á framboð og verð á fæðu. Skyldi hún samt ekki vera góð fyrir umhverfið? Um það er deilt. Það getur þó vart verið gott fyrir umhverfið að land sé ræst fram og skógar ruddir til að rækta plöntur sem svo er breytt í eldsneyti. Enda er það eftiráskýring að matareldsneyti sé gott fyrir umhverfið. Kvaðirnar um notkun þess komu upphaflega til vegna þrýstings frá bændum sem vildu auka eftirspurn eftir afurðum sínum.
Verðið á þessari fábreyttu en lífsnauðsynlegu fæðu í hennar heimshluta er hærra en hún ræður við. Með því að festa það í lög að nota matjurtir sem orkugjafa eykst eftirspurnin eftir þeim, sérstaklega maís. Það leiðir til hærra verðs en ella.
Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 7. maí 2017./Mynd Shutterstock/Hurst Photo.