Miklu lofað - en hverju?
Þegar heilbrigðismál eru rædd opinberlega eru oftar en ekki til umræðu einungis afmarkaðir þættir eins og skortur á tiltekinni þjónustu, fjárhagsvandi heilbrigðisstofnana eða hátt lyfjaverð svo dæmi séu nefnd. Þess vegna var hressandi að sækja í vikunni fund Frumtaka, samtaka lyfjaframleiðenda, sem bar yfirskriftina „Hver er réttur minn til heilbrigðisþjónustu?“ Þar var þessi grundvallarspurning rædd út frá lögfræðilegri hlið, siðferðislegri og praktískri.Spurningunni sjálfri svara menn gjarnan með vísan til löggjafarinnar, til dæmis núgildandi laga um réttindi sjúklinga sem kveða skýrt á um það að sjúklingur eigi rétt á „fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma er völ á að veita“ og „bestu þekkingu sem völ er á“. Það er ekki litlu lofað. Ætli þeir sem samþykktu þessa skilyrðislausu skilmála hefðu gert það hefðu þeir sjálfir persónulega verið í ábyrgðum fyrir efndunum? Ég er ekki viss um að læknar, ekki einu sinni þeir allra kokhraustustu, myndu gefa skuldbindandi loforð á þessa vegu hefðu þeir fjárhagslega hagsmuna að gæta.Þegar stjórnmálamenn ákveða að einhverjum skuli veitt þjónusta þá kostar það peninga. Þessa peninga á ríkið ekki sjálft heldur eru þeir eign skattgreiðenda. Þetta fé er takmarkað og þegar af þeirri ástæðu getur ríkið ekki skuldbundið sig til þess að bjóða upp á hvers kyns heilbrigðisþjónustu. Þetta vilja sumir ekki horfast í augu við og gera stöðugt kröfu á ríkið, ekki bara um að það beri kostnað af þjónustunni heldur veiti hana einnig.Á nefndri ráðstefnu kom fram að nokkru leyti réttmæt gagnrýni á sjúkratryggingakerfið sem slíkt. Það er ómögulegt að svara því með afgerandi hætti í hverju tryggingin sem almenningur hefur í hinu opinbera kerfi felst. Litlar takmarkanir virðast vera fyrir hendi og ljóst að allir njóta sömu tryggingarverndar án tillits til áhættu. Pabbi minn er þannig tryggður fyrir tannlækningum barna og ég er tryggð fyrir stækkun í blöðruhálskirtli. Það segir sig sjálft að hvorugt okkar myndi verja fé í þessar tryggingar ef við hefðum eitthvað um það að segja. Þá eru kröfur manna til heilbrigðis afar mismunandi. Það sem einum þykir lífsins nauðsyn eða í það minnsta aukin lífsgæði þykir öðrum húmbúkk og myndi frekar kjósa að eiga milljón krónur í vasanum en að borga fyrir aðgerð til draga úr heilsubrestinum. Þetta á að minnsta kosti við um minniháttar kvilla. Í kerfi þar sem ekki er tekið tillit til þessara ólíku þarfa einstaklinganna verður alltaf um sóun að ræða á fjármunum. Möguleikar manna á bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á aukast ekki við það.
Í kerfi þar sem ekki er tekið tillit til þessara ólíku þarfa einstaklinganna verður alltaf um gríðarlega sóun að ræða á fjármunum.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 10. október 2015.