Nafnbreyting

Fjórðungi bregður til nafns.

„En í þessari grein í mannanafnalögum er undanþáguákvæði sem heimilar Þjóðskrá að samþykkja kenninafnsbreytingu sem fellur ekki undir ofangreint og þar er hvert og eitt tilvik metið. Það þurfa að vera mjög sterk rök fyrir slíkri beiðni.“ Þetta er haft eftir deildarstjóra Þjóðskrár í Vísi í dag.

Í 16. gr. laga um mannanöfn er undantekning frá þeirri meginreglu að menn breyti ekki kenninafni sínu. Þannig er fullorðnum heimilt að taka upp nýtt kenninafn ef telja verður að gildar ástæður mæli með því.

Hér vaknar auðvitað upp spurningin um hverjar slíkar ástæður geti verið. Athugasemdir með lagaákvæðinu veita nokkra vísbendingu um það. Þar er lagt til að ákvæðið verði túlkað þröngt. Það þýðir að færri en fleiri tilvik falli hér undir og að nokkuð þurfi til að koma svo undanþágan verði veitt. En vissulega geta málefnalegar ástæður legið að baki ósk um breytt kenninafn. Í athugasemdum er það t.d. sérstaklega tiltekið að sé

kenninafn mjög fátítt kann að standa svo á að það sé sérstaklega tengt þekktum afbrotamanni í hugum almennings og er þá auðsæilega gild ástæða til að heimila þeim sem það ber kenninafnsbreytingu.

Hér liggja augljóslega að baki hagsmunir manns sem ber sama kenninafn og þekktur glæpamaður. Undanþágunni er ætlað að vernda hinn saklausa borgara af samsömun við glæpamanninn. Ekki öfugt. Það hefur fráleitt verið ætlun löggjafans að vernda glæpamenn frá eigin kenninafni eða auðvelda þeim að fela brotaferil sinn á bak við nýtt nafn.

Í máli dæmds glæpamanns sem nú er til umfjöllunar í fjölmiðlum kemur á óvart að Þjóðskrá skuli vísa í þetta undanþáguákvæði mannanafnalaga og telur sig ekki geta rökstutt höfnun á beiðni glæpamannsins um breytingu á kenninafni. Auk formsins er breytingin að efni til öll hin fráleitasta með því að  vera til þess fallinn að líkja eftir nafni og kenninafni forseta Íslands, honum augljóslega til ama.

Það er að mínu mati sjálfsagt að velta því fyrir sér hvort það eigi yfirhöfuð að vera jafnauðvelt að breyta nafni og kenninafni og það er hér á landi. Víða eru mun strangri reglur um þetta. Sá sem fer með löggilt starfsréttindi, t.d. læknir, lögmaður og endurskoðendi, er sums staðar meinað að breyta eftirnafni sínu eftir útgefin réttindi. Fyrir því standa málefnaleg og praktísk rök sem m.a. lúta að möguleikum viðskiptavina og ákæruvalds til að sækja viðkomandi til saka vegna brota í starfi.

Í mínum huga er undanþáguákvæði mannanafnalaganna skýrt. Fallist menn ekki á það af einhverjum ástæðum er augljóst að dómsmálaráðherra þarf að hafa frumkvæði að endurskoðun laga um mannanöfn að þessu leyti. Það getur ekki verið svo að dæmdir menn skipti um nafn eða kenninafn áður en þeir hafa lokið afplánun og jafnvel ekki síðar.

Previous
Previous

Skattmat bifreiða út í loftið

Next
Next

Úrskurðað um rétt jarðeiganda