Nokkur góð mál

skor1.jpg

Alþingi lauk starfsvetrinum á fimmtudaginn. Hamagangur framan af vetri, almennt málþóf og hálfgert upplausnarástand í nokkra daga í vor skýrir trúlega nokkuð minni „framleiðni“. Alls voru 79 lagafrumvörp samþykkt sem lög, nokkuð færri en undanfarin ár. Hin frumvörpin sem ekki náðu fram að ganga, alls 145, detta niður dauð nema þau verði afgreidd í lok þings í september. Þessi tölfræði gæti orðið einhverjum rekstrarmanninum áhyggjuefni. Væri alþingi fyrirtæki væri kannski gefin út afkomuviðvörun. En alþingi er ekki fyrirtæki. Löggjöf hefur ætíð áhrif á borgarana á einhvern hátt og það má ekki vera markmið í sjálfu sér að sem flest lög séu sett. Lög eiga að fela í sér einhverja réttarbót, á almennan mælikvarða, og þau þurfa að þjóna tilgangi sínum, virka í raun.Frelsið hefur ekki endilega líkurnar með sér þegar ný lög eru sett á alþingi. Þess vegna er ástæða til að halda því til haga þegar svo vel tekst til í störfum okkar þingmanna að svigrúm einstaklinga og fyrirtækja sé aukið. Um það voru nokkur dæmi á þinginu í vetur, til dæmis eftirfarandi mál.Tryggingagjald var lækkað um tæpa tíund. Tryggingagjaldið er tengt launagreiðslum fyrirtækja og hefur því veruleg áhrif á möguleika fyrirtækja til að ráða nýja starfsmenn og greiða þeim góð laun.Þrepum í tekjuskatti einstaklinga mun fækka um næstu áramót þegar milliþrepið fellur niður. Um áramótin var svo samþykkt að hjón geti að fullu nýtt rétt hvort annars til skattlagningar í neðra þrepi enda er það almenn regla að hjón séu samsköttuð. Þessi regla var ítrekuð með atkvæðagreiðslu í síðustu viku. Hefði þessi breyting ekki verið gerð hefðu heimili með sömu tekjur getað greitt mjög misháan tekjuskatt svo skeikað hefði allt að 780 þúsund krónum á ári. Þetta hefði bitnað sérstaklega á hjónum eða sambýlisfólki þar sem annar aðilinn getur ekki sótt vinnu af einhverjum ástæðum, til að mynda vegna veikinda í fjölskyldunni eða náms.Tollar voru afnumdir af öðru en landbúnaðarvörum. Tollar af fatnaði og skóm um áramótin og tollar af öðrum vörum næstu áramót. Auk samsköttunarreglunnar er þetta sú lagabreyting sem mér þykir vænst um á þessum vetri.Millidómstig var einnig lögbundið um daginn. Þar með er tryggð milliliðalaus sönnunarfærsla á tveimur dómstigum. Mikil grundvallarmannréttindi.Auk afgreiðslu lagafrumvarpa er fjölda fyrirspurna þingmanna svarað. Með fyrirspurnum er jarðvegurinn oft plægður fyrir lagabreytingar. Ég var ánægð að sjá að í nýjum búvörusamningi er ekki lengur gert ráð fyrir niðurgreiðslu til framræslu lands. Ég hafði einmitt lagt fram fyrirspurnir þar að lútandi á þessum þingvetri.

Frelsið hefur ekki endilega líkurnar með sér þegar ný lög eru sett á alþingi.

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 4. júní 2016. / saa@althingi.is

Previous
Previous

Viðbrögð við árás

Next
Next

Heilbrigðismálin á Þinghóli á Hringbraut