Óhóf í skattheimtu viðurkennt

Á síðustu mínútum Alþingis voru samþykkt lög um sértækar aðgerðir í þágu byggingar kísilverksmiðju á Bakka í Þingeyjarsýslu. Að byggingunni og rekstrinum standa erlendir fjárfestar. Hugmyndir um þessa verksmiðju hafa verið lengi á teikniborðinu og stjórnmálamenn af svæðinu hafa talað eins og þetta einstaka verkefni skipti sköpum í atvinnulífinu þar. Vissulega getur erlend fjárfesting sem þessi haft jákvæð áhrif á atvinnulíf á viðkomandi svæði og jafnvel á efnahagslíf alls landsins. Ef hins vegar sértækar aðgerðir í skattamálum og verulegur beinn opinber fjárstuðningur eru forsenda verkefnisins, eins og virðist vera í þessu dæmi, þurfa menn að skoða dæmið í víðara samhengi.Með samþykkt laganna um Bakka viðurkenndu stjórnarflokkarnir að skattastefna þeirra, sem þeir hafa ekki hikað við að bjóða íslenskum einstaklingum og fyrirtækjum upp á, er dragbítur á uppbyggingu í atvinnulífi og endurreisn efnahagslífsins. Með lögunum er einu fyrirtæki gefinn verulegur afsláttur af öllum þeim sköttum sem ríkisstjórnin kaus að hækka á þessu kjörtímabili. Svo mjög var hinni umhverfisþenkjandi velferðarstjórn í mun að laða að hina erlendu fjárfestingu að jafnvel umhverfisskattarnir sem hún fann upp á kjörtímabilinu máttu ekki þvælast fyrir. Þá kveða lögin á um heimild til handa ráðherra til þess að gefa fyrirtækinu tæpar 300 milljónir króna í starfsmenntasjóð.Sértækar aðgerðir eins og skattaafslátturinn við Bakka hefur því miður ekki í för með sér almenna uppbyggingu í atvinnulífinu. Þvert á móti eru sértækar undanþágur sem þessar til þess fallnar að festa í sessi rangláta og óarðbæra skattastefnu. Hvernig eiga önnur fyrirtæki á þessu svæði að geta keppt við þessa forgjöf? Eða önnur verkefni af svipuðum toga, t.d. álver í Helguvík? Þau geta það auðvitað ekki og þess vegna gat ég ekki greitt þessum lögum atkvæði mitt á Alþingi aðfaranótt skírdags. Aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins gerðu það margir með þeim fyrirvara að sú skattalækkun sem Bakkaverkefnið mun njóta ætti að verða að almennri reglu. Þá bentu þingmenn Sjálfstæðisflokksins á ójafnræðið sem í því felst að veita svo miklu fé í starfsmenntun eins fyrirtækis í stað þess að leggja það fé í þá starfþróunarsjóði sem eru þegar til staðar fyrir allt atvinnulífið á svæðinu.Sjálfstæðisflokkurinn er eini flokkurinn sem heitir skattalækkunum á næsta kjörtímabili. Hóflegir og sanngjarnir skattar eru eitt meginmarkmið sjálfstæðismanna. Tími sértækra aðgerða og sérlausna í skattamálum á að vera löngu liðinn. Allir landsmenn eiga rétt á sanngjörnum og hófstilltum sköttum. Ekki aðeins tiltekin fyrirtæki í tilteknu kjördæmi korteri fyrir kosningar.Greinin birtist í Morgunblaðinu 2. apríl 2013.

Previous
Previous

Hentistefna Evrópusambandsins

Next
Next

Enski boltinn