Ráðstefna European Students for Liberty
Ég sótti hressandi ráðstefnu á vegum Evrópusamtaka frjálslyndra stúdenta um síðustu helgi í Háskóla Íslands. Um var að ræða fjölmenna ráðstefnu íslenskra og erlendra stúdenta. Á vef Rannsóknaseturs um nýsköpun og hagvöxt segir frá ráðstefnunni með þessum orðum:
Prófessor Ragnar Árnason, formaður rannsóknaráðs RNH, hélt fyrirlestur um eignarrétt og frjálsan markað, prófessor Hannes H. Gissurarson hélt móttöku heima hjá sér fyrir erlendu gestina á ráðstefnunni og Gísli Hauksson, formaður stjórnar RNH, skipulagði móttöku fyrir alla ráðstefnugesti, sem var á vegum Gamma eignastýringarfélags, og fengu ráðstefnugestir þar að kynnast framsæknu fyrirtæki í örum vexti. Þátttaka RNH var liður í samstarfsverkefni við AECR, Evrópusamtök íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“. Aðrir ræðumenn á ráðstefnunni voru Ásgeir Ingvarsson viðskiptafréttamaður, sem talaði um áhrif innflytjenda á tekjudreifingu, Sigríður Andersen þingmaður, um samband stjórnmálabaráttu og hugmyndabaráttu,Roderick T. Long, heimspekiprófessor í Auburn háskóla, um „vinstri-frjálshyggju“ eða bandalag róttækra vinstri manna og frjálshyggjumanna, sem litu hvorir tveggja ríkið og ýmsar aðrar stofnanir með tortryggni, og Heiðar Guðjónsson fjárfestir, um skuldasöfnun ríkisins, sem einkaréttur þess á útgáfu peninga auðveldaði. Þótt ráðstefnugestir væru síður en svo sammála um allt, fannst þeim undantekningarlaust, að margar frumlegar og djarfar hugmyndir hefðu verið settar fram á fundinum.
Meginstefið í erindi mínu var að hugmyndabarátta þurfi að fara fram á ýmsum vettvangi. Ég nefndi það sem mér hefur oft þótt frjálshyggjumenn lítt spenntir fyrir stjórnmálaþátttöku, eðli máls samkvæmt kynnu margir þeirra að segja. Þeir sem tala fyrir minni ríkisafskiptum og gegn þjóðfélagsverkfræði eiga trúlega erfiðara með að gerast að nokkru leyti hluti af vandanum eins og segja má að stjórnmálamenn í raun séu. Hér veldur þó hver á heldur og nefndi ég hvort sem (frjálshyggju)mönnum líkar betur eða verr þá skipta stjórnmál máli í daglegu lífi manna og ekki verður dregið úr ríkisafskiptum nema á vettvangi stjórnmálanna. Þótt gaman geti verið að sitja heima hjá sér og ræða við vini sína um strauma og stefnur í frjálshyggjunni og fjargviðrast út í nýjasta útspil stjórnmálamanna í ríkisrekstri (og þau spilast út á hverjum degi nánast) þá skiptir líka máli að reyna að hafa áhrif á löggjöf með beinum hætti sé þess nokkur kostur.Skipuleggjendur ráðstefnunnar eiga þakkir skildar fyrir framtakið.Myndefni: www.sonsoflibertas.com