Rafrænar þinglýsingar

Fasteign er gjarnan verðmætasta eign borgaranna.

Á vef Stjórnarráðs Íslands í gær birtist frétt um að fyrsta afsali vegna fasteignakaupa hafi verið þinglýst rafrænt. Þetta eru ánægjuleg tímamót.

Nú þegar menn hafa vanist rafrænum viðskiptum af ýmsu tagi væri freistandi að telja rafrænar þinglýsingar jafn sjálfsagðar og að minnsta kosti ekki tæknilega flóknari aðgerð en að borga fyrir brauðið í bakaríinu með úrinu sínu. Þinglýsingar eru hins vegar margslungin fyrirbæri og réttaráhrif þinglýsinga geta varað um aldir. Þinglýsingum er ætlað að skrá eignarréttindi manna, ekki bara beinar eignarheimildir að fasteignum heldur líka óbeinar eins veðréttindi og önnur kröfuréttindi. Þessi réttindi hafa verið skráð og vistuð á pappír um allt land. Þegar tölvutæknin bauð upp á rafrænar skráningar gengu nýjar skráningar fyrir. Eldri réttindi og kvaðir hafa svo smám saman ratað inn í hinn rafræna heim með átaki starfsmanna sýslumannsembættanna.

Það er ekki rétt sem fram kemur frétt á vefsíðu stjórnarráðsins að verkefni um rafrænar þinglýsingar hafi verið í þróun frá árinu 2019. Málið á rætur að rekja til að minnsta kosti ársins 2010 þegar lagt var mat á fýsileika þess að gera þinglýsingar rafrænar. Innanríkisráðherra skipaði vinnuhóp árið 2015 til að leggja mat á lagabreytingar sem væru nauðsynlegar til að koma á rafrænum þinglýsingum. Stuttu eftir að ég tók við embætti dómsmálaráðherra í byrjun ársins 2017 taldi ég einboðið að hefja þegar undirbúning að nauðsynlegum lagabreytingum. Frumvarpið lagði ég svo fram haustið 2018 og var það samþykkt undir lok árs.

Sá áfangi sem hefur náðst í dag varðar aðeins hluta eignarréttinda manna, þ.e. afsal fyrir eign. Eftir standa þinglýsingar mikilsverðra réttinda eins og kaupsamninga og veðleyfa. Ég er ekki í vafa um þess verði ekki langt að bíða að þinglýsing þeirra réttindi fari að rúlla rafrænt. Fyrir utan fjárhagslegan ávinning af breyttu fyrirkomulagi er ég sannfærð um að til lengri tíma litið megi vænta þess að skráning eignarheimilda verði gagnsærri þeim sem hagsmuni hafa af henni.  

Previous
Previous

Kosningar leiða til kosninga á Spáni

Next
Next

Svíum farnaðist betur en flestum í faraldrinum