Ríkisstjórn bannar rannsóknir
Vinstri græningjar í Evrópu hafa lengi rekið áróður gegn orkuvinnslu í álfunni. Jafnvel vatnsaflsvirkjanir Íslendinga hafa verið gerðar tortryggilegar í augum almennings þótt þær framleiði þá orku sem kallað er mest eftir. Endurnýjanlega orku sem losar ekki gróðurhúsaloftegundina sem leitast er við að minnka. Áróður gegn virkjunum og jafnvel flutningi orku frá þeim virkjunum sem þegar eru til staðar hefur borið nokkurn árangur hér á landi.
Áróðurinn hefur þó borið miklu meiri árangur í Evrópu síðustu áratugi. Þar hefur verið dregið úr vinnslu kjarnorku, olíu og gass án þess að önnur vinnsla hafi komið í staðinn. Ekki af því að menn hafi ekki viljað nýta annars konar orku, eins og sólar- og vindorku, heldur vegna þess að slík orka annar ekki orkuþörf álfunnar. Þess vegna hefur orkuþörfinni verið mætt með olíu og gasi frá Rússlandi. Því hefur lengi verið haldið fram að Rússar hafi stutt evrópska græningja í baráttunni gegn orkuvinnslu Evrópulanda.
Evrópa er því orðin háð Rússum um orku. Það er afleit staða, nú þegar ríður á að veita Úkraínu stuðning gagnvart yfirgangi Rússa. Leiðtogar Evrópuríkja sem vilja losna úr þessu sjálfskaparvíti boða nú gasvinnslu á ný og hætta við eða fresta boðuðum lokunum kola- og kjarnorkuvera.
Á Íslandi kveður hins vegar við annan tón. Ríkisstjórnin lætur sér ekki nægja yfirlýsingar um að ætla ekki að veita leyfi til olíu- eða gasvinnslu á landgrunni Íslands. Á þessum þingvetri hyggst umhverfisráðherra freista þess öðru sinni að fá samþykkt frumvarp sem bannar einnig rannsóknir í efnahagslögsögunni.
Eitt er að vilja ekki nýta tilteknar auðlindir. Annað er að leggjast gegn rannsóknum sem gætu leitt í ljós alls konar aðra þætti en þá sem rannsóknirnar beinast að í upphafi. Mögulega aðrar auðlindir. Margar merkilegar uppgötvanir í mannkynssögunni eru einmitt afrakstur vísindarannsókna sem í upphafi beindust að afmörkuðu sviði en leiddu menn inn á aðrar og óvæntar brautir.
Ríkisstjórn, sem heldur á lofti hugtökum á borð við nýsköpun og frumkvöðlastarfi í tíma og ótíma, en vill um leið banna rannsóknir á botni hafsins, sem við eigum allt okkar undir, er ekki mjög trúverðug. Afstaða vinstri græningjanna í ríkisstjórninni kemur ekki á óvart. En hvers vegna vilja ráðherrar Sjálfstæðisflokks, umhverfisráðherra og ráðherra vísindanna, banna rannsóknir á landgrunni Íslands?
„Á þessum þingvetri hyggst umhverfisráðherra freista þess öðru sinni að fá samþykkt frumvarp sem bannar rannsóknir í efnahagslögsögunni.“
Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. september 2022.