Samningsstaða launamanna
Menn spyrja gjarnan um persónulegahagi hver annars við fyrstu kynni.Fæstir telja slíkt hnýsni heldur frekar viðleitni til þess að kynnast viðkomandi. Þess háttar áhugi er jafnvel sjálfsögð kurteisi. Ég spyr börn sem koma inn á heimilið að því hverra manna þau séu. Gagnvart ókunnugum fullorðnum sessunaut í samkvæmi kann að eiga betur við að spyrja við hvað viðkomandi starfi. Oft leiðir það til áhugaverðrar umræðu. Skyldi vera samdráttur í greininni eða er leitun að hæfu starfsfólki? Hvaða menntunar krefst starfið? Er greinin samkeppnishæf hvað laun varðar? O.s.frv.En það hefur aldrei hvarflað að mér að spyrja nokkurn, hvorki kunningja eða nákominn, hvað hann hafi í laun. Sama hversu vel við næðum saman, nýi kunninginn við veisluborðið og ég, í spjalli um störf hans þá er næsta víst að spurning um persónulegar tekjur myndi um leið setja punkt aftan við þann kunningsskap. Af hverju? Jú, af því að langflestir, óháð tekjum, telja launin sín vera sitt einkamál. Fyrir því eru margvíslegar ástæður.Ein ástæðan er sú að samningsstaða launamanns á vinnumarkaði ræðst meðal annars af launakröfu hans. Maður sem þessa dagana upplýsir um tekjur fjölmargra Íslendinga í árlegri útgáfu sem hann ritstýrir, óumbeðinn og í óþökk fólksins sem þar er tínt til, hefur að sögn 559 þúsund krónur í tekjur á mánuði. Snúi hann frá villu síns vegar og láti af þeim fautaskap sem verslunarmannahelgarútgáfa þessi er og falist eftir sambærilegu starfi en við geðslegri útgáfu, hví skyldi nokkur útgefandi með snefil af rekstrarviti bjóða þessum ágæta ritstjóra hærri laun en 559 þúsund krónur? Ja, kannski 600 þúsund ef ritstjórinn heldur því trúverðugt fram að hann hafi hætt sorpblaðamennskunni vegna launanna.Það kann að vera ólíklegt að þessi ritstjóri standi í þeim sporum sem hér er lýst. Þetta eru hins vegar raunverulegar aðstæður sem fólk lendir í allt árið um kring, yfirleitt óafvitandi, vegna birtingar álagningarskránna og misnákvæmrar vinnslu blaðamanna á upplýsingum úr henni. Þá hefur fyrirtæki eitt gert álagningarskrána að sérstakri tekjulind sinni með því að selja fyrirtækum allar upplýsingar úr skránni ásamt útreikningum. Launagreiðendur geta þannig keypt útreikning áætlaðra tekna allra launamanna. Fátt vegur meira að samningsstöðu launamanna á vinnumarkaði.Skyldi verkalýðshreyfingunni og því hálaunafólki sem þar starfar vera það algerlega um megn að standa vörð um hagsmuni launamanna að þessu leyti og rétt launamanna til trúnaðar um tekjur sínar? Hvað þarf til að koma til að verkalýðshreyfingin láti málið sig varða? Formlegt erindi þar að lútandi frá félagsmanni?
>>Birting álagningarskrárveikir stöðu venjulegs launafólks.<<
Greinin birtist í Morgunblaðinu 4. ágúst 2013.