Sérstakur og leitin að ástæðum bankahrunsins

Karl Garðarsson þingmaður Framsóknarflokksins kaus að gera sýknudóma í málum sérstaks saksóknara gegn nokkrum einstaklingum að umtalsefni á alþingi á þriðjudaginn.

Fyrst veik Karl að embætti sérstaks saksóknara:„Embætti sérstaks saksóknara var komið á fót til að rannsaka grun um refsiverða háttsemi sem tengist bankahruninu á Íslandi árið 2008, hvort sem hún tengist starfsemi fjármálafyrirtækja, annarra lögaðila eða einstaklinga. Núna fimm árum og tæpum 6 milljörðum kr. síðar, sem er kostnaðurinn við embættið, er árangurinn helst til rýr.“Fyrir hvern er það „helst til rýr“ árangur að sýknað hafi verið í ýmsum málum frá sérstökum saksóknara? Er það ekki miklu fremur ánægjuefni fyrir hvert þjóðfélag ef menn hafa haldið sig innan ramma laganna að mati dómstóla?Auðvitað hafa ýmsir í rúm sex ár reynt að telja fólki trú um að skýringar á falli íslensku bankanna muni koma fram með lögreglurannsóknum og að einn góðan veðurdag bendi sérstakur saksóknari á gæjana sem stálu neglunni úr þjóðarskútunni.Þegar litið er til þess að hvarvetna á Vesturlöndum varð fjöldi banka ýmist gjaldþrota eða bjargað með fjármunum skattgreiðenda á árunum 2007 til 2009 er það hins vegar undarleg ósk að það sannist sérstaklega á starfsmenn íslensku bankanna að þeir hafi haft rangt við. Annað sé „heldur rýr“ árangur.Kannski ættu menn heldur að reyna að venjast þeirri tilhugsun að bankar geti lagt upp laupana rétt eins og öll önnur fyrirtæki. Og að gjaldþrot banka þurfi ekki endilega að bera að með saknæmum hætti.Karl bætti svo við:„Var það regluverk og sú lagaumgjörð sem bankamenn unnu eftir svo götótt að sakfelling í þessum stóru málum var nánast ómöguleg? Erum við að setja sérstakan saksóknara og starfsmenn hann í nánast vonlausa stöðu þegar kemur að rannsókn mála? Þurfum við að líta í eigin barm?“Hér var regluverk Evrópusambandsins um fjármálamarkaði í gildi vegna aðildar Íslands að EES löngu fyrir bankahrun. Í aðlögun Íslands við ESB á síðasta kjörtímabili kom frá hjá framkvæmdastjórn sambandins að löggjöf hér á landi um fjármál væri „highly aligned“ við löggjöf sambandsins. Ef löggjöf var „götótt“ hér var hún það um alla Evrópu.En um allt þetta getur Karl spurt flokksbræður sína sem fóru samfellt með ráðuneyti bankamála frá 1995 til 2007.
Það lítur út fyrir að lögin séu ekki gölluð heldur heldur miklu frekar hugmyndir sumra um saknæmi.

Previous
Previous

Hvað með tóbakið?

Next
Next

Úrtölumenn allra þjóða