Sjálfstætt á markaði í almannaþágu?

Lagafrumvarpið um Ríkisútvarpið, sem nú bíður afgreiðslu alþingis, er fyrir ýmsar sakir merkilegt. Í fyrsta sinn er sett fram efnislega tillaga að opinberu hlutafélagi en fyrirbærið ohf. var lögfræðilega kynnt til sögunnar með breytingu á lögum um hlutafélög fyrr á þessu ári. Þá er í frumvarpinu sett fram nánari útlistun en er í núgildandi lögum á því hvað felist í útvarpsþjónustu í almannaþágu en það mun vera meginhlutverk RÚV. Um leið gerir frumvarpið þó einnig ráð fyrir nokkuð víðtækri starfsemi RÚV þess utan.Hvað er í almannaþágu?Öryggishlutverk RÚV var í hávegum haft á árum áður í umræðu um kosti og galla þess að ríkið fari með hlutverk í útvarpsútsendingum. Oftar en ekki voru það einu rök fylgismanna ríkisrekstrarins, að þjóðin þyrfti að geta treyst á að fá fréttir af náttúruhamförum innanlands um leið og þær ríða yfir. Einstaka maður vísaði til menningarhlutverks RÚV sem menn töldu þá vera í eðli sínu þannig að einkaaðilar gætu ekki rækt það með sama hætti.Nú er svo komið að í áðurnefndu frumvarpi er öryggisþjónusta RÚV nefnd í 11. sæti, af 13, í upptalningu um hlutverk RÚV ohf. Ekki það að listi þessi sé endilega settur fram í röð eftir mikilvægi. Það blasir hins vegar við að áhugi manna um þessar mundir snýr að ýmsu öðru en öryggismálum. Meira að segja menningararfleiðin, saga þjóðarinnar og hin íslenska tunga virðist í aukahlutverki í frumvarpinu miðað við rekstur fasteigna, tæknibúnaðar og fjölda hljóðvarps- og sjónvarpsrása. Þess utan veitir frumvarpið RÚV sérstaklega heimild til þess að stunda starfsemi á sviði sem alls ekki telst útvarpsþjónusta í almannaþágu.Með skilgreiningu á hlutverki RÚV mætir mönnum að sjálfsögðu sá vandi að það er illmögulegt að segja til um hvað er í almannaþágu. Almenningur er nefnilega ekki einsleitur hópur og erfitt að gera öllum til geðs með því einu og sama. Því er farin sú leið að leitast við að bjóða upp á eitthvað fyrir alla. En það er einmitt það sem einkaaðilar í útvarpsrekstri hafa verið að gera, með alveg jafn misjöfnum árangri og RÚV hingað til. Munurinn er hins vegar sá að einkaaðilar taka afleiðingum mistaka sinna en skattgreiðendur gjalda fyrir mistök RÚV. Nýtt frumvarp um RÚV ohf. minnkar ekki skuldbindingar skattgreiðenda en gerir nýjum aðilum sem vilja hasla sér völl á fjölmiðlamarkaði erfitt fyrir.Aukið sjálfstæði í þágu hverra?Nokkuð er lagt upp úr því að verið sé að auka sjálfstæði RÚV með frumvarpinu, með því að ráðning útvarpsstjóra verði framvegis í höndum stjórnar RÚV, sem valinn er af alþingi, en ekki menntamálaráðherra eins og nú er. Þá muni stjórn RÚV ekki hlutast til um dagskrárgerð eins og nú er heldur verður útvarpsstjóra fengið sjálfdæmi um hvernig hlutverki RÚV verði sinnt. Með þessu á RÚV að verða einhvers konar sjálfstæð eining, óháð eigendum sínum. Nokkurs konar ríki í ríkinu. Eigendurnir munu ekki hafa neitt um reksturinn að segja að öðru leyti en því að fjármagna hann hvort sem þeim líkar betur eða verr.Fyrirbærið RÚV ríkisstofnun og það breytist ekki við það eitt að hnýta skammstöfuninni ohf. aftan við nafnið. Starfsemin er rekin fyrir fé almennings, nýtur lagalegrar verndar  ríkisins umfram önnur fyrirtæki i landinu og hefur öll önnur einkenni ríkisstofnunar. Vilji menn breyta þessu, sem vissulega er full ástæða til, verða menn að gera það á borði en ekki bara í orði. Á meðan að menn safna kjarki til þess arna er mikilvægt að halda ríkisrekstrinum í lágmarki.Greinin birtist í Blaðinu 22. nóvember 2006. 

Previous
Previous

Vín og mat ríkisins

Next
Next

Auglýsingabann í prófkjörum