Spjall um 3OP
Ég spjallaði við morgunhanana á Bylgjunni í morgun um orkupakkann (3OP) svokallaða, meinta ólgu innan Sjálfstæðisflokksins vegna hans og hugmyndir um að setja málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Viðtalið má finna hér. Textinn með ljósmyndinni hér til hliðar er orðum aukinn en látum það vera.Við ræddum ekki efnisatriði orkupakkans sérstaklega í þessum þætti. Um þingsályktunartillögu utanríkisráðherra og frumvörpin tvö frá iðnaðarmálaráðherra hefur nefnilega mikið verið rætt og frá ýmsum sjónarhornum í allan vetur og fram á sumar. Áhugasamir ættu allir að vera búnir að kynna sér þessi skjöl sem eru aðgengileg hér í hlekkjunum hér að ofan.Ég tók hins vegar skýrt fram að mér hefur þótt bara alveg ágæt sú umræða sem fram hefur farið um orkupakkann og það þótt ég treysti mér til þess að fullyrða að hún hefur á köflum verið byggð á misskilningi og af og til einkennst af fullmikilli tortryggni til allra og jafnvel ömmu þeirra líka. Vil ég nú samt ekki draga úr mikilvægi tortryggni í pólitískri umræðu, að minnsta kosti ekki á góðri stundu.Þær áhyggjur af málinu sem ég skynja eru fullkomlega eðililegar að því leyti að ég vona að við flest viljum standa vörð um fullveldi landsins og fullkomin yfirráð okkar Íslendinga yfir náttúruaðulindum sem hér finnast. Þá þykist ég skynja líka óþol manna fyrir sjálfkrafa innleiðingum evrópskra reglna sem margar, ekki allar, eiga svo sannanlega lítið erindi inn í okkar regluverk. Fátt ef nokkuð er í 3OP sem skiptir Ísland máli. Auðvitað fagna starfsmenn Orkustofnunar auknu sjálfstæði, auknu fé til rekstursins og tækifærum til þátttöku á samráðsvettvangi erlendis. Innleiðing 3OP er engin forsenda fyrir því að breytingar í þessa átt verði á stjórnsýslu Orkustofnunar, telji menn þetta gæfulega þróun á stjórnsýslu eftirlitsins hér heima fyrir. Það sama á við um margar af þeim ágætu breytingum sem við höfum gert á raforkumálum undanfarin áratug. Þær hefðu við trúlega gert án EES samningsins. Við sem höfum barist fyrir afnámi ríkiseinokunar á öllum sviðum hefðum án efa nýtt okkur þá þróun sem varð í löndunum í kringum okkur í þá átt, rétt eins og við afnámum einkarétt ríkisins til fjölmiðlunar löngu fyrir þátttöku okkar í EES.Og hví þá að innleiða 3OP? Svarið er einfalt og margoft komið fram. Af því að við erum skuldbundin til þess samkvæmt 4. viðauka EES samningsins og við höfum ekki fengið undanþágu frá öllum pakkanum heldur bara sumum reglum hans.Þótt ég telji að það hefði verið rétt að fá undanþágu frá 3OP þá hef ég ekki miklar áhyggjur af því þótt hann verði innleiddur. Efnislega kallar hann ekki á þá miklu tortryggni sem áður er nefnd (en aftur, ég vil þó ekki hvetja til algers andvaraleysis). Miklu frekar tel ég efni til þess að einbeita sér að öðrum reglum ESB sem við höfum innleitt á grundvelli 4. viðauka EES (orkukaflinn) og ekki síst, að þeim reglum sem fyrir liggur að verður lagt fyrir okkur að innleiða með áframhaldandi þróun á orkureglum ESB. Þar á meðal eru reglur sem byggja á tilskipun um endurnýjanlega orkugjafa, nr. 2018/2001 og miða að því að hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í heildarorkunotkun verði a.m.k. 32% árið 2030. Þær reglur munu að litlu leyti eiga við hér landi, í landi þar sem þetta hlutfall er nú þegar um 80%.Svo eru það þeir sem hræðast að við verðum dæmd til þess að tengjast raforkukerfi erlendis. Ég hef líka skilning á þeim ótta. Ég nefndi það í morgun að við því er ekkert svar sem raunverulega er byggjandi á, annað en það að fullveldisréttur Íslands verður að grípa þau tilvik þegar erlendir aðilar (dómstólar eða stofnanir) reyna að að knýja fram ákvarðanir hér á landi sem fara gegn stjórnskipan Íslands og skýrum lagavilja. Það er íslenskra dómstóla að standa vörð um þann fullveldisrétt.Hitt er svo annað, að við hefðum í upphafi EES samningsins mögulega átt að undanþiggja orkumálin frá samningnum, eins og við gerðum með sjávarútveginn. Það var ekki gert af ýmsum ástæðum og örugglega mörgum málefnalegum. Það er hins vegar hvenær sem er hægt að óska eftir viðræðum við ESB um að undanskilja orkumál alfarið frá EES samninginum. Það yrði alveg sjálfstæð ákvörðun íslenskra stjórnvalda og Alþingis. Innleiðing 3OP dregur ekki úr þeim möguleika.Um þjóðaratkvæðagreiðslur almennt hef ég þetta að segja. Stjórnarskráin fjallar um feril þeirra. Það er hætt við að þjóðaratkvæðagreiðslur af öðrum toga verði aldrei annað en skoðanakannanir.