Þessi ríkisstjórn

ríkisstj-photo.jpg

Það má segja margt um nýja ríkisstjórn. Hún samanstendur af þremur flokkum sem er sjaldgæft hér á landi. Hún hefur eins nauman meirihluta á þingi og hægt er. Það er einnig fátítt. Skipan ráðherra kom sumum á óvart, öðrum ekki. Sjaldan ef nokkurn tímann hefur höfuðborgarsvæðið, þar sem þorri landsmanna býr, „átt“ fleiri ráðherra. Konur eru fjórar, karlar sjö. Ráðherrar eru á aldrinum 29 til 61 árs. Á lýðveldistímanum hefur ekki áður verið mynduð stjórn með tveimur flokkum sem eiga sér ekki langar rætur í stjórnmálasögu landsins. Aldrei áður hefur verið mynduð ríkisstjórn sem stór hluti landsmanna telur „hreina hægri stjórn“.Ekkert af þessu skiptir þó raunverulegu máli. Það sem skiptir máli er að stjórninni takist að starfa í þágu allra landsmanna, hvar sem þeir búa og hvar sem þeir eru staddir á lífsleiðinni. Mikilvægur þáttur í þessu er að ríkisstjórnin gæti jafnræðis í öllum störfum sínum. Jafnræði fyrir lögum og almennt gagnvart stjórnvöldum er einn af hornsteinum frelsis í lýðræðislegu þjóðfélagi.Eins og ég hef áður gert þá má gjarnan líta á skattheimtuna í þessu samhengi. Þannig er skattlagningu ekki aðeins stillt í hóf með því að skatthlutföll séu lág, þótt það sé að sjálfsögðu nauðsynleg forsenda. Til að skattar séu hóflegir þarf einnig að vera jafnræði með skattgreiðendum, þeir greiði sambærilega skatta af sambærilegum tekjum, neyslu eða starfsemi. Til að skattheimta teljist sanngjörn þarf að lokum að gefa skattgreiðendum eðlilegt svigrúm til að laga sig að íþyngjandi breytingum. Stundum vegast á þessi tvö síðarnefndu sjónarmið um jafnræði og svigrúm. En að lokum skal jafnræðið verða ráðandi.Mér hefur verið falið að fara með dómsmál í ríkisstjórninni. Hvergi er mikilvægara að menn njóti jafnræðis en þegar þeir skjóta málum sínum fyrir dóm. Jafnræðið er þó lítils virði ef málsmeðferðin er ekki hafin yfir alla sanngjarna og eðlilega gagnrýni. Fyrirkomulag dómsmála hefur tekið miklum grundvallarbreytingum síðustu tvo áratugi. Flestar ef ekki allar til hins betra. Nokkuð hefur þó enn vantað upp á málsmeðferðina til dæmis með því að endurskoðun héraðsdóma fyrir Hæstarétti hefur ekki falið í sér endurskoðun á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar í sakamálum. Það er ekki í samræmi við mikilvæga meginreglu réttarfars um milliliðalausa sönnunarfærslu fyrir dómi. Á síðasta kjörtímabili voru loksins samþykkt ný lög sem ráða bót á þessu með nýjum áfrýjunardómstól sem á að taka til starfa 1. janúar 2018. Það verður eitt fjölmargra umbótamála nýrrar ríkisstjórnar að koma nýjum dómstól á laggirnar.

Það sem skiptir máli er að stjórninni takist að starfa í þágu allra landsmanna, hvar sem þeir búa og hvar sem þeir eru staddir á lífsleiðinni.

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 15. janúar 2017 - saa@althingi.is.

Previous
Previous

Fleira en fé í húfi í Icesave

Next
Next

Að fóta sig í hagsæld