Til hvers að verða 100 ára?
Eftir áratuga baráttu fyrir því að fá æðsta dómsvaldið aftur til landsins nýttu Íslendingar fullveldið með Sambandslagasamningnum 1918 til þess að segja skilið við erlent dómsvald í innlendum málum. Þar með var horfið aftur til upphafsára Íslandsbyggðar þegar innlendir dómstólar voru fljótlega settir á laggirnar en dómaskipan þróaðist hratt á þjóðveldisöld frá árinu 930. Það var ekki fyrr en eftir að Íslendingar gengust Noregskonungi á hönd árið 1262 að dómsvaldið færðist smám saman úr landi með því að málum var áfrýjað utan, fyrst til konungs svo síðast til Hæstaréttar Danmerkur. Þessu fylgdi fjölgun dómstiga einnig hér á landi. Í byrjun 18. aldar voru dómstigin orðin fjögur og málsmeðferðartíminn eftir því. Úr því var leyst með því að fækka innlendu dómstólunum. Það var svo ekki fyrr en með lögum árið 1919 að Hæstiréttur var stofnaður. Hann tók svo til starfa 16. febrúar 1920. Dómstigin voru svo tvö allt til ársins 2018 þegar nýr áfrýjunardómstóll, Landsréttur, tók til starfa. Hlutverk Hæstaréttar hefur eftir það verið að fjalla um mál sem hafa verulegt almennt gildi eða varða sértaklega mikilvæga hagsmuni aðila. Á Íslandi geta dómstigin því verið þrjú í undantekningartilvikum en eru almennt tvö.
Fleiri dómstig?
Æ oftar heyrist hins vegar að menn ætli með sín dómsmál „alla leið“ og er þá oftast verið að vísa til Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) en stundum til EFTA-dómstólsins sem starfar á grunni EES-samningsins.MDE starfar á grunni Mannréttindasáttmála Evrópu sem Ísland fullgilti árið 1953 sem eitt aðildarríkja Evrópuráðsins. Sáttmálinn var þó ekki lögfestur hér á landi fyrr en árið 1994. Dómstólnum er eingöngu ætlað að leggja mat á það hvort aðildarríki hafi brotið gegn sáttmálunum en hnekkir ekki dómum íslensks dómstóls eða annars konar úrlausnum mála hér á landi. Einstaklingar hafa jú fengið bætur frá íslenska ríkinu eftir dóm MDE en hann haggar ekki sjálfkrafa niðurstöðu hins íslenska dóms sem MDE fjallaði um. Enda færi það í bága við stjórnarskrá. Í sumum tilvikum hefur dómur MDE leitt til sjálfsagðra lagabreytinga eða til breytinga á starfsháttum stjórnvalda. Þá hafa íslenskir dómstólar líka tekið mið af dómum MDE með jákvæðum hætti, t.d. með ítarlegri rökstuðningi fyrir niðurstöðu mála. Eins og á við um alls konar jákvæðar stefnur og strauma sem íslensk lagasetning hefur orðið fyrir áhrifum af þá hefur þátttaka Íslands í því milliríkjasamstarfi sem mannréttindasáttmálinn er án nokkurs vafa þannig almennt verið til góðs. Menn mega hins vegar ekki missa sjónar á því atriði einmitt að MDE er samstarf ríkja en ekki yfirþjóðlegt vald yfir aðildarríkjunum. Mannréttindasáttmálinn var enda leiddur hér í lög með þeim áskilnaði að „úrlausnir mannréttindanefndar Evrópu, mannréttindadómstóls Evrópu og ráðherranefndar Evrópuráðsins eru ekki bindandi að íslenskum landsrétti“, sbr. 2. gr. laganna.
Lýðræði og fullveldi
Þótt stjórnvöld líti til niðurstaðna þeirra erlendu stofnana sem Ísland á aðild að og eftir atvikum láta þær sig varða þá er það frumskylda stjórnvalda, ekki síst dómstóla, að standa vörð um fullveldi Íslands og sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar. Alþjóðasamningur um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sem Ísland leiddi í lög árið 1979, fjallar einmitt um þetta í 1. gr.; „Allar þjóðir hafa sjálfsákvörðunarrétt. Vegna þess réttar ákveða þær frjálst stjórnmálalegar aðstæður sínar og framfylgja frjálst efnahagslegri, félagslegri og menningarlegri þróun sinni.“ Ákvarðanir eða álit erlendra stofnana hagga þannig ekki lagasetningu og ákvörðunum stjórnvalda sem teknar eru á grunni lýðræðisins. Þetta er auðskilið ef menn ímynda sér t.d. að MDE tæki til við að túlka 1. gr. MSE um rétt til lífs í samræmi við stemningu á hverjum tíma, eins og honum er gjarnt, þannig að það tæki til ófæddra barna og íslensk lög þar að lútandi þannig í bága við sáttmálann. Það blasir við að íslenskum lögum sem Alþingi sem hefur sett eftir þinglega og lýðræðislega meðferð á þessu viðkvæma álitaefni verður ekki haggað með erlendu áliti og ekki þótt slíkt álit sé klætt í búning dómsniðurstöðu.
Varhugaverð þróun MDE
Samsetning MDE og málsmeðferðarreglur bera það með sér að ekki er um að ræða dómstól í eiginlegum skilningi og niðurstöðum hans var aldrei ætlað að hafa bindandi áhrif að landsrétti. Aðildarríkin eru 47, með afar fjölbreytta lagahefð og réttarkerfi en hvert með sinn dómarann við dómstólinn. Lýðræðishallinn var frá upphafi sláandi. Í hverju máli fyrir yfirdeildinni sitja 17 dómarar valdir af handahófi. Til samanburðar má nefna að Hæstiréttur Bandaríkjanna er skipaður 9 dómurum sem allir sitja í öllum málum. Útilokað er að MDE takist að gefa skýra mynd af eigin hugmyndum um réttarástand með svo fjölbreyttum og síbreytilegum hópi dómara. Fæstir dómaranna hafa jafnvel fullkomið vald á því tungumáli sem notað er við málflutning. Fleira má finna að forminu hjá MDE. Það samrýmist t.d. ekki hugmyndum réttarríkisins að sami dómarinn fjalli um mál bæði í undirrétti og yfirrétti. Þá er margra ára málsmeðferð ekki til þess fallin að tryggja réttindi kæranda sem mögulega hefur orðið fyrir alvarlegu mannréttindabroti. Þessa dagana bíða um 100 þúsund mál afgreiðslu MDE.Formgallar er þó ekki það sem helst dregur úr vægi dómstólsins. Efnislega hefur MDE síðustu áratugi þanið út valdheimildir sínar með því sem hann sjálfur kallar „lifandi lögskýringar“ en gagnrýnendur erlendis hafa kallað „aktívisma“. Þannig hefur MDE kosið að gefa sáttmálanum þá merkingu sem dómstóllinn telur við hæfi hverju sinni, alveg óháð skýrum texta sáttmálans. Væru niðurstöður MDE bindandi að landsrétti væri MDE að stíga varhugaverð skref inn í löggjafarstarf aðildarríkjanna og grafa þar með undan lýðræði ríkjanna.
Viljum standa vörð um mannréttindi
Flest þau réttindi sem MSE kveður á um voru í íslenskum rétti áður en MSE var lögleiddur. Þess vegna olli það engum straumhvörfum þegar sáttmálinn var leiddur í lög árið 1994. Enginn þarf að velkjast í vafa um að hér á landi er samstaða um öll þau mannréttindi sem MSE tekur til. Málefnaleg gagnrýni á starfsemi MDE og „lifandi“ túlkun hans á sáttmálanum er ekki á nokkurn hátt aðför að mannréttindum eða mannréttindabaráttu. Þeir sem bregðast við slíkri gagnrýni með hneykslan eða þöggun gera ekki annað en að renna stoðum undir réttmæti gagnrýninnar.Á 100 ára afmæli Hæstaréttar er fullt tilefni til að fagna þróun dómstóla hér á landi. Mikilvægar réttarbætur sem gerðar hafa verið á þessum árum eftir lýðræðislega umfjöllun löggjafans eru til vitnis um það að ferillinn er heilt yfir farsæll. Nauðsynleg íhaldssemi og festa hefur ekki komið í veg fyrir eðlilega þróun á starfsemi dómstólanna. Með flutningi Hæstaréttar frá Danmörku til Íslands varð sú grundvallarbreyting á dómum um íslensk málefni að þeir voru nú kveðnir upp af dómurum sem þurfa sjálfir að búa við dómana. Það væri nöturlegt ef á þessu afmælisári yrði breyting þar á.
Nauðsynleg íhaldssemi og festa hefur ekki komið í veg fyrir eðlilega þróun á starfsemi dómstólanna.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 20. febrúar 2020.Ljósmyndin er af heimasíðu Hæstaréttar og var tekin á 100 ára afmælishátíð Hæstaréttar í Þjóðleikhúsinu 16. febrúar sl.