Tilkynning um framboð í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík

 aalthinginov12svhvcrop
Ég sit nú um stundir á alþingi í fjarveru Ólafar Nordal. En það er ekki helsta kveikjan að því ég hef ákveðið að gefa kost á mér í 3.-4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík sem fram fer 24. nóvember næstkomandi. Ákvörðun mín um þátttöku í prófkjörinu á sér lengri aðdraganda og er í samráði við marga mæta sjálfstæðismenn undanfarnar vikur.
Það er nauðsynlegt að í þingliði Sjálfstæðismanna á næsta kjörtímabili verði baráttuglaðir þingmenn, hvort sem flokkurinn verður í stjórn eða stjórnarandstöðu. Við þurfum að beita okkur af mikilli festu fyrir skattalækkunum. Vinda þarf ofan af skattahækkunum vinstri stjórnarinnar og lækka skatta svo myndarlega að heimili og fyrirtæki muni um það. Það má ekki gleymast í umræðu um skuldavanda heimilanna að næg atvinna og lágir skattar eru meginforsenda þess að venjuleg heimili geti aukið ráðstöfunartekjur sínar, greitt niður skuldir og haldið áfram að styrkja sig og þar með allt þjóðfélagið.
Ég hef sérstakar áhyggjur af því hvernig samspil skatta- og bótakerfisins bitnar á þeim sem vilja auka ráðstöfunartekjur sínar. Ég hef reynt að vekja athygli á því að undanförnu að allt að 75% af útseldri vinnu manna geta horfið í skatta og skerðingar. Þessu verður að breyta tafarlaust. Tapið er ekki aðeins þeirra sem lenda í slíkum jaðaráhrifum heldur einnig hinna sem verða af nýjum atvinnutækifærum og þar með alls þjóðfélagsins.
Ég vil jafnframt standa vörð um réttarríkið. Það er frumskylda ríkisvaldsins að tryggja frelsi og öryggi borgaranna.
Ef marka má skoðanakannanir í upphafi kosningavetrar er staða Sjálfstæðisflokksins ekki jafn góð og hún ætti að vera eftir tæp 4 ár í stjórnarandstöðu. Ég tel afar mikilvægt að Sjálfstæðisflokkurinn nái vopnum sínum, gangi óhikað til þjóðþrifaverka og segi það sem segja þarf um ríkisfjármálin, stöðu heimilanna og leiðirnar til aukins hagvaxtar.
Previous
Previous

Jóhönnulánin

Next
Next

Er venjuleg vinna dýrasta jaðarsportið?