Vilja banna pálmaolíuna sem þau skylduðu okkur að nota á bílana

shutterstock_1098811376.jpg

Nokkrir þingmenn vinstri flokkanna hafa lagt fram þingsályktunartillögu um bann við notkun pálmaolíu á bíla. Þetta kemur á óvart því aðeins eru sex ár síðan ríkisstjórn vinstri flokkanna leiddi það í lög að allt eldsneyti skyldi blandað „endurnýjanlegu eldsneyti“ sem einkum er unnið úr pálmum og matjurtum á borð við repju, soja og maís. Tveimur árum áður hafði vinstri stjórnin lögfest stórkostlegar skattaívilnanir til örvunar innflutnings á slíku matjurtaeldsneyti. Þessi skylda og skattaívilnanir standa því miður enn og valda því að yfir milljarður króna rennur árlega úr ríkissjóði til erlendra framleiðenda á eldsneyti úr pálmaolíu, repju, hveiti, soja og maís, sbr. svar fjármálaráðherra til mín um þetta atriði.Nú segir hins vegar í greinargerð þingmannanna um eldsneytið sem þeirra eigin flokkar skylduðu landsmenn til að nota:„Lönd eins og Indónesía og Malasía, sem framleiða langmest af pálmaolíu, hafa nú þegar fellt stóran hluta af regnskógum sínum, m.a. fyrir fjöldaframleiðslu á pálmaolíu, sem er ódýrasta jurtaolían á markaði. Eftirspurn eftir henni hefur aukist verulega undanfarna áratugi og til þess að anna henni er regnskógur ruddur í stórum stíl. Í dag er langstærstur hluti pálmaolíu á markaði ósjálfbær og valdur að eyðingu regnskóga. Talið er að hið minnsta 15 milljónir hektara af regnskógi sé nú þegar búið að fella fyrir framleiðslu á pálmaolíu, aðallega í Indónesíu og Malasíu. Slíkt landflæmi jafnast á við eitt og hálft Ísland að stærð.“Og áfram halda ófagrar lýsingar þingmanna vinstri flokkanna á afleiðingum þess að nota pálmaolíuna sem vinstri stjórnin skyldaði menn til að nota:„Regnskógar eru gríðarlega stórar kolefnisgeymslur og sumir regnskógar, einkum í Suðaustur-Asíu, vaxa í kolefnisríkum mýrum. Þegar skógarnir eru ruddir og brenndir aukast áhrif loftslagsbreytinga því bæði losnar kolefni út í andrúmsloftið þegar skógurinn sjálfur er brenndur og einnig þegar mýrin er ræst fram. Að auki kviknar oft í þessum mýrum og árið 2015, sem var mjög þurrt ár, var mikill hluti Suðaustur-Asíu hulinn menguðu mistri sem rekja mátti að miklu leyti til skógarelda í Indónesíu vegna pálmaolíuframleiðslu. Við það að breyta regnskógum í plantekrur eru í raun búin til nær líflaus landsvæði þar sem dýr eins og órangútanar eiga sér enga von. Talið er að ef haldið verður áfram að eyðileggja regnskóga Indónesíu á sama hraða gætu órangútanar orðið útdauðir í náttúrunni innan örfárra áratuga. Að auki hefur Amnesty International nýlega komið upp um hræðilegan aðbúnað fólks og barna sem vinnur á pálmaolíuplantekrum þar sem börnum er þrælað út og konur veikjast við að úða skordýraeitri á skógarbotninn.“En var ekki ætlunin að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda með notkun á „endurnýjanlegu eldsneyti“ eins og pálmaolíu? Jú það var vissulega yfirvarpið hjá vinstri stjórninni á sínum tíma. Nú segja þingmenn vinstri flokkanna hins vegar um þetta eldsneyti:„Reiknað hefur verið út að lífeldsneyti frá jurtaolíu, sem er um 70% af lífeldsneytismarkaði í Evrópu, losi 80% meira af gróðurhúsalofttegundum en jarðefnaeldsneytið sem verið er að skipta út. Pálmaolía trónir þar hæst og er þrisvar sinnum verri en jarðefnaeldsneyti, en næst á eftir kemur sojaolía sem er tvisvar sinnum verri.“Ég hef af og til mælt gegn þessum fráleitu lögum og skattaílvilnunum vinstri stjórnarinnar og lagði fram frumvarp árið 2015 um að aflétta þessari íblöndunarskyldu til ársins 2020 svo menn fengju ráðrúm til að skoða málið ofan í kjölinn áður en svo miklum fjármunum væri kastað á glæ.Nú hafa þingmenn Samfylkingar og VG sem sagt skoðað málið og komist að þeirri niðurstöðu að lög hreinu vinstri stjórnarinnar um endurnýjanlegt eldsneyti sem áttu að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda hafi þvert á móti aukið losunina, valdið stórkostlegri loftmengun í Asíu, auk þess að stuðla að eyðingu regnskóga, ógna líffræðilegri fjölbreytni og ýta undir vinnuþrælkun og illa meðferð á konum og börnum.

Previous
Previous

Fréttir frá fjarlægu landi

Next
Next

Fóðra valdið