Vogun vinnur, vogun tapar
Það er enginn pólitískur ágreiningur um að á næstu misserum verður að leita samkomulags við kröfuhafa þrotabúa gömlu bankanna um að þeir taki eignir sínar hérlendis, svokallaðar krónueignir, út með þeim hætti að þeir skipti út íslenskum krónum sínum fyrir erlendan gjaldeyri með verulegum afslætti á erlenda gjaldeyrinum. Ástæðan fyrir slíkum viðræðum er að ekki er til nægur gjaldeyrir til þess að greiða þessum kröfuhöfum í þeim gjaldeyri sem þeir vilja og markmiðið með slíku samkomulagi er að minnka þrýsting á krónuna sem er forsenda þess að gjaldeyrishöftum verði aflétt.En er hægt að binda vonir við að þetta samkomulag leysi skuldavanda heimilanna í bráð? Að það verði til einhvers konar hagnaður hjá ríkinu sem verði beinlínis dreift innan skamms til þeirra heimila sem skulda húsnæðislán?Þetta þarf að hafa í huga:• Það eru fleiri en vondir „hrægammasjóðir“ kröfuhafar í þrotabúunum. Erlendu kröfuhafarnir eru ekki allir handhafar krafna sem keyptar voru „á slikk“. Hagsmunir kröfuhafanna af samningum kunna því að vera mismunandi.• Skilaboð okkar til kröfuhafanna hafa verið þau að okkur liggi ekki á semja við þá. Gjaldeyrishöftin hafa nýlega verið gerð ótímabundin. Kröfuhafar vita að við munum ekki ana að neinu og þeir mega gera ráð fyrir að samningum verði ekki lokið næstu misserin. Við þurfum líka gera ráð fyrir því.• Sumir frambjóðendur til alþingis tala um væntanlegan „hagnað“ í þessu sambandi en engar tölur eru nefndar.• Ríkissjóður skuldar nú um 1.500 milljarða króna og greiðir 90 milljarða á ári í vaxtakostnað. Ef hann fær 300 milljarða frá kröfuhöfunum, svo dæmi sé tekið, minnka skuldirnar í 1.200 milljarða króna og vaxtakostnaður minnkar einnig.• Menn geta spurt sig hver og einn þegar þeir ná að minnka yfirdráttinn sinn úr 150 þúsund krónum í 120 þúsund hvort þeir eigi þá 30 þúsund krónur til frjálsrar ráðstöfunar.• Þótt hér hafi verið nefndir 300 milljarðar í dæmaskyni hefur enginn í dag hugmynd um hver „hagnaður“ ríkisins gæti orðið af þessum samningum eða hvernig hann verður til. Eitt er að fá í hendur beinharða peninga frá kröfuhöfunum, eftir að hafa gert þeim að selja íslensku eignirnar, annað er ef ríkinu er ætlað að sitja uppi með íslenskar eignir kröfuhafanna.• Íslenskar eignir kröfuhafanna felast aðallega í íslensku bönkunum. Með mjög óábyrgum hætti hafa sumir frambjóðendur til alþingis talað um að ríkið eigi að leysa til sín bankana á einhvers konar „undirverði“, sem aldrei er skilgreint nánar, og selja með „hagnaði“, sem ekki heldur er skýrður nánar hver mögulega gæti verið.• Eru menn tilbúnir að láta ríkissjóð bera áhættuna af því að kaupa bankana á „undirverði“ í von um að fá hærra verð fyrir þá síðar?• Hvert er virði íslensku bankanna í dag? Á hverju byggist það mat? Hver er tilbúinn að kaupa íslensku bankana? Sumir frambjóðendur hafa nefnt lífeyrissjóðina í þessu sambandi, og það þótt þeir hafi um daginn áréttað að þeir séu ekki að skoða kaup á bönkunum.Þótt einhverjir peningar frá þrotabúunum komi inn í kassann er ríkið enn stórskuldugt og vaxtabyrðin óbærileg. Ef við nýtum ekki tækifærið sem mögulega gefst í samningum við kröfuhafa til þess að lækka skuldir ríkisins og til að skapa skilyrði til hagsældar fyrir alla erum við að senda börnunum okkar risareikning sem þau geta ekki staðið undir.Greinin birtist í Morgunblaðinu 8. apríl 2013.