Menu

Hjálp, hlutur í banka seldur án aðkomu Framsóknarflokksins

20/04/2017 - Fréttir
Hjálp, hlutur í banka seldur án aðkomu Framsóknarflokksins

Í vikunni seldi einkafyrirtæki 29% hlut í Arion banka til nokkurra erlendra fjármálafyrirtækja. Seljandinn er einnig að verulegu leyti í eigu sömu erlendu aðila. Kaupendurnir hyggjast sækja um leyfi Fjármálaeftirlitsins til að fara með virkan eignarhlut í bankanum.

Íslenska ríkið átti enga aðkomu að þessum viðskiptum, var hvorki kaupandi né seljandi enda ekki eigandi að þessum hlut í Arionbanka og hefur vonandi engan sérstakan áhuga á að bæta fjórða ríkisbankanum í safn sitt. Fyrir á íslenska ríkið Landsbankann, Íbúðalánasjóð og Íslandsbanka.

Það óvenjulega við þessi viðskipti einkaaðila með hlut í banka er að söluandvirðið, tæpir 50 milljarðar króna, rennur allt í ríkissjóð Íslands. Ríkissjóður hefur að mér sýnist fljótt á litið aldrei fengið svo háa fjárhæð í sinn hlut við bankasölu, jafnvel ekki þegar seldir voru hlutir í bönkum sem voru þó í eigu hans sjálfs!

En svo gaus reiðin upp.

Og hverjir urðu svona reiðir? Kannski erlendu seljendurnir sem fengu ekki krónu fyrir hlutinn sem þeir seldu? Nei, það voru ýmsir landar mínir sem áttu enga aðild að þessum viðskiptum en töldu sig og aðra Íslendinga hlunnfarna með einhverjum hætti, og það þótt allir fjármunirnir sem skiptu um hendur í þessum viðskiptum muni renna í ríkissjóð Íslendinga. Og það þótt enginn sé skyldaður í viðskipti við þennan banka. Þeir sem kunna að vera ósáttir við eignarhaldið geta einfaldlega leitað annað.

Meðal hinna reiðu voru nokkrir þingmenn sem höfðu þó komið að og samþykkt þau lög sem um þessi mál gilda, bæði almenn lög sem gilda um eignarhald banda og eftirlit með þeim og sérstök lög sem lögðu grunn að því að hægt væri að aflétta höftunum að mestu leyti og vörðuðu því leiðina í þessum viðskiptum með hlutinn í Arion banka.

Mesta undrun mína vakti að sjá fyrrverandi ráðherra Framsóknarflokksins lýsa efasemdum um þessi mál sem þeir áttu sjálfir svo ríkan þátt í með lagasetningu á síðasta kjörtímabili. En ef til villl höfðu hinir ágætu Framsóknarmenn væntingar um að engir kaupendur fyndust að bankanum, hann endaði þar með á einhvern hátt í fangi ríkisins og yrði síðar meir liður í „endurskipulagningu“ Framsóknarflokksins á fjármálakerfinu.

Þrátt fyrir þá óvenjulegu stöðu að beina aðkomu Framsóknarflokksins skorti við þessa bankasölu mun umræddur banki vonandi lifa áfram eigendum sínum, starfsmönnum og viðskiptavinum til gagns. En auðvitað er ekki á vísan að róa í bankarekstri, alveg sama hver eigandinn er, eins og undanfarinn áratugur hefur kennt mönnum á nokkuð sársaukafullan hátt á Vesturlöndum.

Hverjir urðu svona reiðir? Kannski erlendu seljendurnir sem fengu ekki krónu fyrir hlutinn sem þeir seldu?

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 26. mars 2017.