Menu

Sjálfstæðiskonum gekk vel í þremur kjördæmum, síður í tveimur

11/09/2016 - Fréttir
Sjálfstæðiskonum gekk vel í þremur kjördæmum, síður í tveimur

Mér þykir ekki spennandi að ræða stjórnmál út frá kynferði fólks. Ég held að flestir geri skýran greinarmun á þeim sem þeir eiga samleið með annars vegar í kjörklefanum og hins vegar búningsklefanum. Fólk almennt kýs þá frambjóðendur sem það telur sig vera sammála, fremur en samkynja.

Síðustu tvær helgar hafa sjálfstæðismenn haldið almenn prófkjör fyrir 5 kjördæmi.

Í þremur þeirra, Reykjavíkurkjördæmunum tveimur og norðvesturkjördæmi, eru konur og karlar til jafns í efstu sætum. Engir nýir karlar náðu verulega góðum árangri í þessum kjördæmum en tvær ungar konur náðu frábærum árangri.

Í norðvesturkjördæmi fékk Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir sæti sem losnaði um við brotthvarf Einars K. Guðfinnssonar. Hún fékk sætið sem hún bað um. Ég tók ekki eftir að hún hafi sóst eftir stuðningi út á það að vera kona enda öllum ljóst að hún hefur margt til brunns að bera.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir er ungur og efnilegur stjórnmálamaður og hástökkvari prófkjörsins í Reykjavík. Hún náði sömuleiðis markmiði sínu um að skipa annað sæti á framboðslista flokksins við næstu þingkosningar. Hún náði þessum frábæra árangri án þess nokkru sinni að væla um stuðning út á kynferði sitt. Hún er líka ritari flokksins, embætti sem Guðlaugur Þór Þórðarson vék úr þegar hún gaf kost á sér til þess arna. Hvað vilja menn (lesist konur) meira?

Sjálf tók ég þátt í prófkjörinu í Reykjavík og hækkaði um tvö sæti frá því síðast. Ég hef setið á þingi í 13 mánuði en fór upp fyrir karl sem setið hefur í 13 ár á þingi fyrir flokkinn. Enginn hefur grátið hlutskipti hans opinberlega.

Það er hugsanlegt að eftir þingkosningar verði í fyrsta sinn fleiri konur en karlar á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í höfuðborginni.

Þá að suðurkjördæminu. Þar voru tvær konur í efstu sætunum eftir prófkjör fyrir fjórum árum. Enginn gerði athugasemd við það. Ekkert landssamband „harmaði“ niðurstöðuna. Ragnheiður Elín Árnadóttir, sem var oddviti listans síðast og þarsíðast, fellur nú niður listann en er áfram í líklegu þingsæti. Þeir sem halda því fram að þetta hafi gerst vegna þess að Ragnheiður Elín er kona hafa líklega ekki fylgst með umræðum um störf hennar sem ráðherra. Ráðherrann hefur einfaldlega átt á brattann að sækja, innan flokks og utan, vegna verka sinna sem mörg hafa því miður borið þess merki að vera upphitaðir og ólystugir afgangar sem vinstri stjórnin skildi eftir sig í ráðuneytinu. Náttúrupassinn, íblöndunarmálið, ívilnanir og niðurgreiðslur til ákveðinna fyrirtækja eru dæmi þar um. Það eru margir sjálfstæðismenn óánægðir með þessi mál enda öll í hróplegri andstöðu við grunnstefnu flokksins. „Ég ætla að fullyrða það hér og nú að þetta mál og þessi samningur hefði fengið nákvæmlega sömu afgreiðslu í tíð þriggja síðustu iðnaðarráðherra, þeirra Katrínar Júlíusdóttur, Oddnýjar Harðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar“ sagði ráðherrann í umræðum á alþingi um sérstakan ívilnunarsamning um mörg hundruð milljónir til handa tilteknu fyrirtæki og fékk með þessum ummælum marga Sjálfstæðismenn til að klóra sér í hausnum.

Það kemur mér frekar á óvart að Unnur Brá Konráðsdóttir, sem var í öðru sæti síðast, skuli ekki ná betri árangri en raun ber vitni, en hún er í baráttusæti listans eftir prófkjörið. Það ber hins vegar að hafa í huga að þetta er stórt kjördæmi og svæðisbundnar sveiflur geta haft mikil áhrif. Unnur Brá hefur ef til vill ekki nægilega skýra tengingu við neinn af stóru byggðakjörnunum. Tek þó fram að ég þekki ekki byggðapólitíkina í kjördæminu. Ég sé hins vegar engin merki um að hún hafi goldið fyrir að vera kona á sínum stjórnmálaferli enda fengið góða kosningu í tvígang.

Elín Hirst náði mjög góðum árangri í prófkjöri flokksins í suðvesturkjördæmi fyrir fjórum árum. Hún varð til að mynda fyrir ofan Óla Björn Kárason sem lengi hafði tekið virkan þátt í flokksstarfinu og látið að sér kveða í pólitískri umræðu. Elín var þá nýliði í stjórnmálaumræðunni en naut þess örugglega að vera þekkt andlit, kannski eins og Páll Magnússon núna. Elín hefur verið á þingi ásamt Ragnheiði Ríkharðsdóttur. Ragnheiður gaf því miður ekki kost á sér til endurkjörs. Bryndís Haraldsdóttir bæjarfulltrúi kemur ný inn á þing í suðvesturkjördæmi eftir prófkjörið þar. Hvað er hægt að segja við þessu? Önnur þingkonan hættir einfaldlega og hin missir sæti sitt til annarrar konu.

Í sumar gengu miklar sögur um að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir fyrrum varaformaður flokksins myndi gefa kost á sér í prófkjöri flokksins í suðvesturkjördæminu. Hafði það neikvæð áhrif á einhverjar konur sem voru að hugsa sér til hreyfings? Ég vona ekki.

Þegar á allt er litið fæ ég ekki séð að með sanngirni sé hægt að halda því fram að konum hafi verið úthýst í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins á grundvelli kynferðis.

Um aðferðir við að velja á lista skrifaði ég grein í Morgunblaðið um helgina. Hana má finna hér.