Menu

Að leiða mál í jörð

31/05/2015 - Fréttir, Greinasafn

Það eru tveir kostir við dreifingu rafmagns hér á landi og hvorugur gallalaus. Rafmagnslínur í lofti rjúfa útsýni og geta á sumum svæðum eyðilagt upplifun manna af náttúrunni þótt vissulega geti háspennumöstur verið hin mestu listaverk. Jarðstrengir verða ekki lengri en um 70 km, að því er mér skilst, og lagning þeirra hefur vissulega jarðrask í för með sér, oft óafturkræft, sem ekki er boðlegt á viðkvæðum svæðum.

Álitaefni varðandi lagningu raflína voru til umræðu á alþingi í vikunni þegar ályktað var um stefnu stjórnvalda. Í henni er margs konar umhverfissjónarmiðum gefið vægi með því að sérstaklega er kveðið á um að jarðstrengir verði hafðir að leiðarljósi við tilteknar aðstæður. Alþingi ályktar einnig að við sérstakar aðstæður, t.d. á viðkvæmum svæðum af ýmsum toga, skuli meta í hverju tilviki fyrir sig hvort heppilegra sé að leggja jarðstrengi fremur en loftlínur í meginflutningskerfi raforku, jafnvel þótt það væri dýrari kostur. Jarðstrengir eru ávallt dýrari en loftlínur. Þess vegna felur þessi ályktun í sér mikilvæga stefnumörkun og mikinn stuðning alþingis við þá leið að leiða rafmagn í jörð þar sem það á við.

Samt sem áður tókst að mynda örlitla geðshræringu um málið við atkvæðagreiðslu og látið að því liggja að stórkostlegur ágreiningur væri með stjórn og stjórnarandstöðu í málinu. Alltaf þurfa vinstri menn að reyna að eigna sér ástina á umhverfinu. Ekkert er þó fjær sanni en að vinstri stefna, þjóðnýting og almannaeign, leiði til umhverfisverndar. Þvert á móti er vel skilgreindur eignarréttur hin besta náttúruvernd.

Þegar kostnaður við lagningu rafstrengja er metinn er sjálfsagt að taka með í reikninginn fleira en efniskostnað og framkvæmdakostnað. Hvers virði er til dæmis útsýnið? Svarið við þeirri lykilspurningu felst í eignarréttinum. Þannig hafa landeigendur staðið gegn röskun landsvæða, oft með umhverfissjónarmið að vopni. Ríkisvaldið hefur hins vegar látið sér fátt um finnast og kaffært slík sjónarmið með eignarnámi án þess þó nokkurn tímann að verðleggja útsýnið eða önnur óáþreifanleg náttúrugæði, því miður.

Náttúran á svo sannarlega sinn rétt og íbúar þessa lands eiga ekki annað skilið en að gætt sé að honum við allar framkvæmdir. Umhverfisvernd þarf hins vegar ekki á geðshræringu eða einstrengingi að halda. Þess vegna er ánægjulegt að nú liggi fyrir viðmið um hvenær jarðstrengur skuli valinn í stað loftlínu þótt það sé dýrara. Af þessum viðmiðum má svo ráða í hverja átt þróunin liggur í lausn á þessum lúxusvanda þjóðarinnar.

>>Það er gaman að eiga við lúxusvanda að etja. Það er gaman að eiga og gefur oft tilefni til hugleiðinga um prinsippin.<<

Greinin birtist í Morgunblaðinu 31. maí 2015.