Flatskattslöndum fjölgar

Smáríkin Eistland og Hong Kong virðast í fljótu bragði eiga fátt sameiginlegt. Þegar nánar er að gáð kemur þó í ljós að ríkin keppa um efsta sæti á lista yfir frjálsustu hagkerfi heims sem Heritage rannsóknarstofnunin gefur út árlega. Nokkur atriði valda því að Eistland er í 4. sæti listans en Hong Kong trónir á toppnum. Það er hins vegar ekki skattastefna ríkjanna sem skilur þau að. Á því sviði fá Eistland og Hong Kong sömu einkunn. Stofnunin skilgreinir skattastefnu sem einn af tíu mikilvægustu þáttum hvers hagkerfis. Ísland er örlítið neðar á listanum og er reyndar á meðal frjálsustu þjóða heims. Ísland fær hins vegar verri einkunn en Eistland og Hong Kong í skattamálum.Önnur lönd á fullri ferð Það er óþarfi að taka lista eins frelsislistann of hátíðlegan og sumir kynnu að líta á hann eingöngu til gamans. Til lengri tíma litið má þó greina ákveðna þróun hjá einstökum ríkjum og vissulega er ánægjulegt að sjá að Ísland hefur færst ofar á listann síðustu ár. Skynsamleg efnahagsstjórn undanfarinn áratug hefur án efa verið forsenda þessarar þróunar. Aukið frelsi á fjármálamarkaði hefur verið eitt af leiðarljósum þeirrar stjórnar. Veruleg lækkun tekjuskatts fyrirtækja ásamt nokkurri lækkun tekjuskatts einstaklinga hefur haft það í för með sér að Íslendingum má skipa meðal þeirra þjóða sem hafa áttað sig á því að háir skattar eru ekki forsenda tekjuöflunar ríkisins. Mörg önnur lönd hafa einnig farið þessa leið og lagt áherslu á uppbyggingu fjármálamarkaða með skýrum en einföldu reglum og lágum skatthlutföllum. Hér á norðurslóðum hafa Eystrasaltsríkin látið hvað mest til sín taka í þessum efnum með flatskattastefnu sinni sem þau eru stöðugt að þróa. Æ fleiri ríki taka mið að flötum skatti við endurskoðun eigin skattastefnu.15% skattar Með hliðsjón af þessari sívaxandi samkeppni ríkja í skattamálum beinir Verslunarráð Íslands sjónum sínum um þessar mundir að skatthlutföllum. Í skýrslu sem ráðið leggur fram á Viðskipaþingi á þriðjudaginn í næstu viku er ítarlega fjallað um kosti þess að einfalda skattkerfið þannig að flestir skattar verði 15%. Sérstaklega er þar átt við tekjuskatt einstaklinga og fyrirtækja, virðisaukaskatt og vörugjöld á bifreiðar. Það væri til mikils að vinna ef um leið tækist að fækka þeim undanþágum og sérreglum sem víða má finna í skattkerfinu. Það myndi ekki bara einfalda kerfið, og gera þegar af þeirri ástæðu Ísland að áhugaverðari kosti fyrir höfuðstöðvar íslenskra og erlendra fyrirtækja, heldur væri líka með því dregið úr jaðarsköttunum svokölluðu. Þá má líta á það sem sérstakt keppikefli að draga úr neyslustýringunni sem fylgir flóknu skattkerfi.Ýmis áhrif neyslustýringarFáum er betur treystandi en manni sjálfum til þess vita hvað maður vill og hvað manni er fyrir bestu. Samt er það svo að hið opinbera notar skattkerfið óspart til þess að velja mönnum lífstíl. Hin misháu þrep virðisaukaskattsins er dæmi um það. Neytendur standa daglega frammi fyrir vali á milli vöru með 14% virðisaukaskatti og vöru sem lagður er á 24,5% skattur. Einhver kynni að telja það hæpið þar sem um nokkuð ólíkar vörur sé að ræða í þessum flokkum. Hvað skyldi hins vegar tískudrósin segja við því þegar hún gerir upp á milli tímarits um tísku annars vegar (14%) og nýjustu tísku úr kjólabúðinni hins vegar (24,5%)? Auk ójafnræðis sem margþrepa skattkerfi eins og virðisaukaskattskerfið hefur í för með sér, skapar það einnig hættu á mistökum í kerfinu og kallar því á meira eftirlit en ella. Mörkin milli þrepanna eru gjarnan svo óljós að sumar vörur lenda milli skips og bryggju. Þá er skattframkvæmd sérlega flókin þegar um ræðir blandaða starfsemi, kaup og sölu á vörum og þjónustu af báðum skattþrepum, samanber veitingahús. Það eru meðal annars atriði sem þessi sem gera það að verkum að Verslunarráð Íslands varpar fram þeirri hugmynd að hafa bara eitt þrep virðisaukaskatts, 15%, og um leið fækka endurgreiðslumöguleikum og undanþágum. Með sama hætti rökstyður ráðið eitt þrep vörugjalda á bifreiðar en sá frumskógur sem bílgreinin býr við í dag en þéttari er svo að orð fái lýst í stuttum pistli sem þessum. Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 4. febrúar 2005. 

Previous
Previous

Mikilvægar skattalækkanir