Mikilvægar skattalækkanir

Árið 1991 hafði síðasta vinstristjórnin sem setið hefur í landinu hækkað eignarskatt í allt að 2,95%. Þessi mikla skattlagning þýddi í raun að allar eigur manna voru gerðar upptækar á nokkrum áratugum. Til að tryggja að menn yfirgæfu ekki þennan heim of hlaðnir veraldlegum byrðum var svo lagður allt að 45% erfðafjárskattur á það sem ríkið hafði ekki þegar hirt af fólki. Þótt vaskur hópur einstaklinga úr Sjálfstæðisflokknum reyndi að vekja athygli almennings og stjórnvalda á því hvernig þessi skattlagning bitnaði á eldri borgurum datt fáum í hug á þeim árum að eignarskattur einstaklinga yrði afnuminn og erfðafjárskattur lækkaður niður í 5%. Þessi barátta varð þó til þess menn áttuðu sig á því að eignarskattur lagðist ekki aðeins „stóreignamenn" heldur líka fólk með lágar tekjur sem hafði unnið hörðum höndum að því koma þaki yfir höfuðið.Lægri skattar skila hærri tekjumLækkun á tekjuskatti fyrirtækja úr 50% niður í 18% um miðjan síðasta áratug skapaði svo fordæmi sem verður seint ofmetið. Sú lækkun var sýnikennsla fyrir stjórnmálamenn um skaðsemi hárra og flókinna skatta því hún leiddi í ljós að háir skattar skila ríkinu ekki endilega hærri tekjum en lágir skattar. Jafnframt sáu menn að skattar voru ekki aðeins hamlandi vegna þess að þeir væru háir heldur einnig vegna þess að þeir væru margir og flóknir. Þetta hjálpaði til þess að eignarskatturinn fór að lækka í áföngum. Síðust áfangarnir voru árið 2002 þegar eignarskatturinn einstaklinga lækkaði úr 1,2 til 1,45% % í 0,6% og árið 2004 var síðasta árið sem skatturinn var lagður á og um þessar mundir fara því síðustu greiðslur á honum fram.Aldraðir hafa borið skattbyrðinaÞegar skoðaður er aldur og tekjur þeirra sem greiddu eignaskattinn árið 2003 sést að 44% þeirra voru eldri en 60 ára. Þar af voru 24% 70 ára og eldri. Í þessum stóra hópi aldraðra var meirihluti með tekjur undir 1,5 milljónum króna á ári. Þannig voru yfir 10 þúsund greiðendur í hópi 70 ára og eldri að greiða eignarskatt af tekjum undir 1,5 milljón króna á ári. Það þarf ekki að hafa mörg orð um þýðingu þess fyrir þennan hóp að þurfa ekki að greiða eignarskattinn framvegis. Ef eignarskatturinn bitnaði sérstaklega á einhverjum hópi var það á fólki með lágar tekjur sem vildi búa í húsnæðinu sem það hafði komið yfir sig á langri starfsævi.Eignaskatturinn var því sömu annmörkum háður og aðrir skattar sem taka eiga á „stóreignamönnum„ og leggjast eiga á „breiðu bökin" að hann var engu að síður greiddur af öllum almenningi og ekki síst fólki sem látið hafði af störfum og hafði lágar tekjur.Skattalækkanir eru kærkomnarLækkun og afnám eignarskattsins hefur hins vegar ekki hlotið þá athygli sem hún verðskuldar því skattalækkanir eru oft vanþakklátt verk. Skattalækkanir koma öllum til góða, allir eru nokkru bættari, en það er oft ekki mjög sýnilegt. Þegar nýjar opinberar stofnanir taka til starfa mæta fjölmiðlar á staðinn og taka myndir af dýrðinni, klippt er á borða og klingt í glösum. Þá er yfirleitt líka búið að gera því rækileg skil í fjölmiðlum þegar fyrsta skóflustungan var tekin. Enginn skálar í fjölmiðlum þegar skattar lækka; enginn klippti á borða þegar eignarskatturinn var klipptur af og enginn tók skóflustungu þegar erfðafjárskatturinn var kveðinn niður.Þess vegna er mikilvægt að við almennir borgarar höldum því á lofti sem vel er gert í skattamálum.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 14. október 2005.

Previous
Previous

Samfylking um hærri skatta

Next
Next

Flatskattslöndum fjölgar