Afnám tolla er besta þróunaraðstoðin

Í ræðu sem Valgerður Sverrisdótttir utanríkisráðherra flutti á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í lok september kynnti hún aukin framlög íslenska ríkisins til þróunarmála. Hér í Fréttablaðinu hefur farið fram fjörug umræða að undanförnu um gagnsemi slíkrar þróunaraðstoðar.Rannsóknastofnun um samfélags- og efnahagsmál (RSE) hefur tekið eftirtektarvert frumkvæði í þeirri umræðu. Það sýnir nauðsyn og mikilvægi þess að hafa slíkar sjálfstæðar stofnanir óháðar fjárveitingavaldi ríkisins, stjórnmálaflokkum og hagsmunasamtökum.Vesturlönd setja mjög mikla fjármuni í þróunaraðstoð þótt kallað sé eftir meiru eins og til flestra annarra málaflokka. Það er sjálfstæð umræða hvort og þá hve mikið gagn eða ógang slík fjárframlög gera. Það blasir þó við að slík framlög frá einni ríkisstjórn til annarrar hljóta að hafa sömu agnúa og önnur ríkisafskipti, ekki síst ef stjórnvöld í viðtökulandinu lúta ekki reglum og aðhaldi lýðræðisins. Það er því miður hlutskipti margra íbúa þróunarlanda að búa við ólýðræðislegt stjórnarfar og er það oft stór hluti af skýringunni á bágum hag landsmanna.Við eigum hins vegar einnig kost á því að rétta þróunarlöndunum hjálparhönd án þess að það kosti okkur bein fjárútlát. Raunar bendir flest til þess að við myndum líka hafa hag af því.Íslenska ríkið leggur tolla á vörur sem koma frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Það beinir með öðrum orðum fólki frá því að kaupa vörur frá þróunarlöndunum og raunar einnig iðnvæddum löndum eins og Bandaríkjunum og Japan. Þetta þýðir að hvorki íslenskir neytendur né framleiðendur í þróunarlöndunum njóta þess ávinnings sem hindrunarlaus viðskipti milli þeirra gætu gefið. Íslensk barnafjölskylda sem kaupir leikföng stendur frammi fyrir því að kaupa evrópsk leikföng sem bera engan toll eða til dæmis suður-amerísk sem bera 10% toll.Borðlampi sem kemur utan EES svæðisins ber 10% toll og 15% vörugjald en evrópskur lampi einungis vörugjaldið, sem er auðvitað ærið. Hinn hái virðisaukaskattur sem leggst ofan á í öllum tilvikum ýkir verðmuninn svo enn frekar.Það nær ekki nokkurri átt að framleiðslu þróunarlandanna sé haldið frá mörkuðum Vesturlanda með þessum hætti.

Greinin birtist í Umræðunni í Fréttablaðinu 15. október 2006.

Previous
Previous

Hundraðshlutinn sem hvarf

Next
Next

Eldri borgarar, atvinnuþátttaka og heimilishald