Eldri borgarar, atvinnuþátttaka og heimilishald
Helsti gallinn á velferðarkerfum ríkis og sveitarfélaga er oft hve ósveigjanleg þau eru. Þessi stirðleiki stafar meðal annars af því að eitt verður yfir alla að ganga þegar deilt er úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Í opinberum kerfum er oft lítið hægt að taka tillit mismunandi þarfa og aðstæðna ólíkra einstaklinga. Það er hins vegar viðvarandi verkefni stjórnmálamanna að laga slík kerfi að breyttum aðstæðum í þjóðfélaginu almennt. Á undanförnum árum hafa sífellt fleiri gert athugasemdir við tekjutengingu lífeyris. Skattskyldar tekjur aðrar en greiðslur frá Tryggingastofnun, húsaleigubætur og fjárhagsleg aðstoð sveitarfélaga geta skert lífeyri ef einstaklingur fer yfir viss tekjumörk. Grunnlífeyrir byrjar að skerðast ef atvinnutekjur einstaklings fara yfir ákveðin mörk og fellur alveg niður þegar ákveðnum tekjum er náð.Það hefur því oft á tíðum verið lítið upp úr því að hafa fyrir menn sem bæta við sig vinnu þegar þeir tapa öllum grunnlífeyrinum af þeim sökum og þurfa því til viðbótar að greiða tekjuskatt af laununum. Lækkun tekjuskatts ríkisins á undanförnum árum hefur þó gert þann þátt skárri en áður þrátt fyrir að útsvarshækkanir R-listans hafi unnið þar á móti Reykvíkingum. Þessu hafa margir eldri borgarar staðið frammi fyrir. Þeir vilja taka þátt í atvinnulífinu, ýmist hluta úr degi, með því að taka nokkrar helgar- og kvöldvaktir eða einfaldlega með fullu starfi við sitt hæfi. Svo mikið er víst að atvinnulífið óskar eftir þessum reynslumiklu og áreiðanlegu starfskröftum.Hinn 19. júlí í sumar skilaði nefnd á vegum forsætisráðherra tillögum til úrbóta í þessum efnum. Í nefndinni sátu fulltrúar eldri borgara auk fulltrúa ríkistjórnarinnar. Það er ánægjulegt að í þessum tillögum, sem ríkisstjórnin hefur samþykkt fyrir sitt leyti, er reynt að einfalda og skýra kerfið með fækkun bótaflokka. Þá er dregið verulega úr skerðingu bóta vegna tekna og kerfið gert sveigjanlegra en áður með þeim hætti að fresti menn töku lífeyris, til dæmis vegna atvinnu, fram yfir 67 ára aldur þá hækka lífeyrisgreiðslur þegar taka lífeyris hefst um allt að 30%. Dæmi um minni tekjutengingu er lækkun skerðingar vegna tekna úr 45% í 38,35% við útreikning á tekjutryggingu.Í tillögunum er jafnframt lagt til að heimaþjónusta verði stóraukin. Afnám eignarskatta á síðasta ári var mikilvægt skref í þá átt að auðvelda eldra fólki að reka eigið húsnæði. Eignarskattar komu sér afar illa fyrir tekjulága einstaklinga í eigin húsnæði, ekki síst þá sem lokið hafa starfsævi sinni og eiga enga möguleika á að afla viðbótartekna. Aukin áhersla á heimaþjónustu mun einnig stuðla að því að eldri borgarar geti sem allra lengst notið lífsins á sínum eigin heimilum.Það er til marks um að stjórnmálamenn standi vaktina þegar velferðarkerfið tekur breytingum með þessum hætti og eldri borgunum er bæði auðveldað að stunda áfram atvinnu að vild og létt undir með því að þeir haldi eigin heimili.Það ber að halda áfram á þessari braut.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. október 2006