Ánægjulegur snúningur í loftslagsmálum
Fyrir þingkosningar síðasta haust kvaddi sér hljóðs hópur áhugamanna um umhverfismál undir nafninu París 1,5. Eitt helsta framlag hópsins var að gefa stjórnmálaflokkunum einkunn í loftslagsmálum.Þáverandi stjórnarflokkar, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, sem nýlokið höfðu fullgildingu Parísarsáttmálann fyrir Íslands hönd fengu 0,7 og 0,4 í einkunn. VG og Samfylking stóðust hins vegar prófið með 5,4 og 6,4. Það voru þó vinstri flokkarnir sem settu milljarða af skattfé almennings í málmbræðsluna á Bakka, beindu fólki yfir í meira mengandi bíla með breytingum á sköttum á eldsneyti, lögðu á lagaboð um íblöndun með dýru og orkusnauðu eldsneyti úr matjurtum og stóðu svo að olíuleyfunum á Drekasvæðinu.Svo fjarstæðukennd var þessi einkunnagjöf að vinstri flokkarnir fengu meira að segja hæstu mögulegu einkunn (20 af 20 stigum í þeim þætti) hjá París 1,5 hópnum fyrir að segjast vera á móti Drekasamningunum sem þeir gerðu sjálfir við olíufyrirtækin!Ég gerði athugasemd við þennan óvandaða málflutning á sínum tíma og sagði að svona aðferðir kæmu óorði á mikilvægt starf þeirra sem vilja vernda náttúruna. Ég vék einnig að þeim umhverfismálum sem ráðherrar og þingmenn Sjálfstæðisflokksins höfðu haft forgöngu um á kjörtímabilinu. Meðal annars að hlut framræsts lands í heildarlosun hér á landi en um það hafði ég fjallað innan þings sem utan, meðal annars með fyrirspurnum til þáverandi umhverfisráðherra sem leiddu í ljós að um 70% af árlegri losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi eru frá framræstu landi en til samanburðar er um 3% árlegrar losunar frá sjávarútvegi og 4% frá fólksbílum.Til viðbótar við minni losun gróðurhúsalofttegunda fylgir endurheimt votlendis einnig betra jafnvægi í vatnsbúskap landsins og ríkari flóra og fána.Í svari París 1,5 til mín síðasta haust sagði um áherslur mínar á votlendismálin:
Þessi einhliða nálgun varðandi votlendið er í raun bara útúrsnúningur sem á lítið skylt við lausnir til framtíðar – það þarf að taka á þessu máli frá mörgum hliðum og vissulega líka framræstingu mýra sem átti sér stað fyrir 1990.
Ég rak því upp stór augu þegar á horfði á hinn ágæta þátt Græðum landið á ÍNN 4. september síðastliðinn því þar var kominn forsvarsmaður París 1,5 og viðurkenndi að um 70% af losuninni hér á landi væri frá framræstu landi og þar væru langmestu sóknarfærin hér á landi. „Þarna nærðu hvað mestum árangri á skemmstum tíma“ sagði talsmaður hópsins sem fyrir ári sagði áherslu okkar sjálfstæðismanna á endurheimt votlendis vera „útúrsnúning“.Og á Facebook síðu París 1,5 sagði einnig 3. ágúst sl.:
...enn er framræst í stórum stíl, ekkert fjármagn og öflugur áróður hagsmunaaðila um gagnsleysi endurheimtar hefur borið árangur. 70% af losun gróðurhúsalofttegunda Íslands kemur úr framræstu votlendi en nær ekkert er unnið í þeim málum. Vonandi breytist eitthvað fljótlega því að á Íslandi er gríðarlega mikið af framræstu landi sem auðvelt væri að endurheimta.
Það er rétt að halda því til haga að í nýjum búvörusamningi sem samþykktur var á síðasta kjörtímabili var í fyrsta sinn ekkert kveðið á um styrki til framræslu lands.Það sem upp úr stendur er hins vegar þetta: Umhverfissamtökin París 1,5 sem fyrir ári reyndu að gera lítið úr endurheimt votlendis og kölluðu hana „bara útúrsnúning“ og eiga „lítið skylt við lausnir til framtíðar“ segja nú að „áróður hagsmunaaðila um gagnsleysi endurheimtar“ hafi þvælst fyrir málinu.París 1,5 hópurinn er sjálfur svo sannarlega einn þessara aðila sem höfðu uppi áróður um gagnsleysi endurheimtar votlendis og þvældist sjálfur fyrir því að þetta mál fengi verðskuldaða athygli.Það er fagnaðarefni að hópurinn hafi nú skipt um skoðun og viðurkennt að með endurheimt votlendis megi ná mestum árangri á skemmstum tíma.