Bankasalan

22,5% hlutur var seldur 22. mars 2022 fyrir 52,7 milljarða króna.

Ég var gestur Egils Helgasonar í Silfri Ríkissjónvarpsins í morgun. Þar bar ýmislegt á góma, m.a.: Silfurstorminn sem Anna Sigrún Baldursdóttir kallar okkar kynslóð, Íslandsbankasöluna, verðbólguna og lítt áberandi sveitarstjórnarmál. Um söluna á fjórðungshlut í Íslandsbanka hef ég þetta að segja:

Salan fór fram með þeim hætti sem kynnt hafði verið og öllum mátti vera ljóst hverjar reglurnar væru. Það er svo annað mál að síðar kom í ljós að fólk sem átti að vera öllum hnútum kunnugt (þingmenn og ráðherrar) segist nú ekki hafa skilið reglurnar. Þar er ekki við aðra að sakast en þá sjálfa.

Misskilnings virðist gæta í almennri umræðu um ýmis hugtök tengd sölunni og markmiðið með henni. „Hæfum fjárfestum“ er ruglað saman við „kjölfestufjárfesta“, kaupendur ranglega sagðir hafa verið „valdir“ og markmiðið um dreift eignarhald og um leið hæsta verð gert tortryggilegt án þess þó að nokkur þeirra sem mest hafa gagnrýnt söluna hafi bent á hvert annað markmiðið hefði átt að vera. Gífuryrðin um spillingu og klúður er það sem stendur upp úr í málflutningi gagnrýnenda og geðshræringin hefur verið slík að ekki er nokkur leið að greina hver afstaða þeirra er til málsins, önnur en sú að allt hefði átt að gera öðruvísi en gert var. Tal um að manni sem keypti 0,02% hlut í þessum ríkisbanka (1/5000 af bankanum!) hafi verið „seldur bankinn“ er trúlega besta dæmið um hversu lítið skynbragð gagnrýnendur bera á hlutabréfamarkaðinn og fyrirtækjarekstur almennt.

Kannski má þó greina eitt klúður í eftirleiknum. Það að ráðherrar allir, þingmenn og embættismenn hafi ekki strax leiðrétt rangfærslur í fjölmiðlum og svarað gagnrýni. Eftir meira en mánuð mættu þingmenn svo í fjárlaganefnd alveg jafn ólesnir og þeir segjast hafa verið fyrir söluna. Fundir nefndarinnar í vikunni gengu fram af mörgum áhorfendum, hvað framgöngu þingmanna og fundarstjórn varðaði. Gestir fundanna, fulltrúar bankasýslu og fjármálaráðherra, báru þá fundi uppi með skilmerkilegum svörum og jafnvel útskýringum á flóknum þáttum þessa máls á mannamáli. Það hefði mögulega mátt forða þingmönnum frá skammarlegri hegðun hefðu þessar skýringar bara verið settar fram á fyrsta degi umræðunnar.

Svo mætti nefna tvennt í þessu samhengi:

  • VG og Framsóknarflokkur skutu niður leið sem fjármálaráðherra viðraði um að senda hluti af hlutum í bankanum beint til almennings. Staðreyndin er nefnilega sú að Framsókn vill peninga í ríkissjóð til að spila með og VG vill bara alls ekki að almenningur eigi hluti í banka. Þetta er þeirra pólitík. Enn og aftur verður Sjálfstæðisflokkurinn undir með sín mál í þessu ríkisstjórnarsamstarfi.

  • Í vikunni lagði Samfylkingin til kinnroðalaust að félagasamtökin Transparency Iceland, sem eru málpípa Samfylkingarinnar og Pírata, verði framvegis kostuð af skattgreiðendum. Lagt er til að samtökin fái 15 milljónir á ári á fjárlögum til að framkvæmdastjóri þeirra fái eina milljón á mánuði til að hrópa „spilling“ á hvern þann sjálfstæðismann sem verður á vegi hans.

Previous
Previous

Réttarríkið á rangri leið

Next
Next

Ólögmætar og gagnslausar