Réttarríkið á rangri leið
Lengi má teygja lopann úr Landsrétti. Fyrr í sumar bárust fréttir af því að íslensk stjórnvöld hafi viðurkennt brot með því að dómarar sem ég skipaði við Landsrétt með samþykki Alþingis hafi dæmt í sakamálum. Um ferlið við skipun dómaranna hef ég fjallað ítarlega á ýmsum vettvangi, m.a. hér á heimasíðu minni, t.d. hér og hér. Ég hef líka fjallað ítarlega, t.d. hér, um þann málarekstur sakfellds manns fyrir Mannréttindadómstól Evrópu sem hefur nú leitt til þess að íslensk stjórnvöld hafa ákveðið, umfram alla skyldu, að borga dæmdum glæpamönnum bætur eins og fréttir hermdu. Sá málarekstur var i hnotskurn með eftirfarandi hætti:
Maður var handtekinn fyrir að aka undir áhrifum vímuefna. Hann játaði brot sitt skýlaust fyrir héraðsdómi en áfrýjaði dómnum engu að síður til Landsréttar til þess að freista þess að fá ákvörðun héraðsdóms um refsinguna breytt. Í Landsrétti dæmdu þrír dómara í máli mannsins. Einn þeirra var meðal dómara sem ég skipaði þrátt fyrir að svokölluð nefnd um hæfni umsækjenda um dómaraembætti hafði komist að þeirri kostulegu niðurstöðu með hjálp reiknistokksins Excel að þótt þeir væru hæfir til að gegna dómarastörfum þá væru þeir ekki meðal hæfustu umsækjenda þrátt fyrir að vera hoknir af reynslu af dómarastörfum og reynslumeiri en margir þeirra sem töflureiknir nefndarinnar taldi hæfasta. (Reyndar kunni nefndin ekki nægilega á þennan reiknistokk og gerði mistök við útreikning heildareinkunnar.) Sakborningnum var dæmd refsing sem hann vildi ekki una og óskaði eftir því að Hæstiréttur fjallaði um málið m.a. með tilliti til þess að ósanngjarnt væri að þessi tiltekni dómari væri í dómarahópnum sem ákvað refsinguna. Hæstiréttur kvað upp dóm um að sakborningur hefði fengið réttláta dómsmeðferð, dómararnir væru löglegir og réttmætir í sínum embættum og að dómur Landsréttur stæði óraskaður. Hinn dæmdi sakamaður leitaði til Mannréttindadómstóls Evrópu sem í mars 2019 taldi að brotið hefði verið á manninum en hafnaði þó kröfu hans um skaðabætur en dæmdi honum málskostnað sem eðli máls samkvæmt eru laun lögmanns hans.
Gengu nú fleiri dæmdir menn á lagið í Strassborg með það að markmiði, að því er virðist, að fá MDE til þess að stilla upp við vegg nýjum endurupptökudómstól Íslands sem hefur það hlutverk að dæma hvort mál skuli endurupptekin. MDE lá ekki á liði sínu í þeim efnum en naut dyggilegrar aðstoðar íslenskra stjórnvalda sem allt í einu viðurkenndu nú að hinir sakfelldu hefði ekki notið réttlátrar málsmeðferðar, þvert á niðurstöðu Hæstaréttar. Ríkisstjórn VG gerði gott betur og samdi við þessa sakfelldu menn, m.a. ofbeldismenn sem sumir játuðu skýlaust brot sín, um að greiða fyrir þá alla fjórtán þóknun lögmanns þeirra. Sigurvegarinn í málarekstri þessum öllum hlýtur að vera þessi lögmaður sem fékk greiddar hátt í 600 þúsund krónur fyrir hvern sakamann. Alla jafna þurfa lögmenn að láta sér nægja eitt prófmál sem kann að verða fordæmisgefandi fyrir aðra. Hér þótti ríkisstjórn VG í hæsta máta eðlilegt að semja um greiðslu málskostnaðar fyrir alla sem fóru í víking til Strassborgar.
Í viðtölum við fjölmiðla, t.d. RÚV, sem leituðu til mín um álit á þessum bótagreiðslum nefndi ég að með þessu væri réttarríkið afskræmt.
„Það er kannski tvennt sem mér finnst blasa við í þessu máli. Annars vegar að Hæstiréttur er augljóslega ekki æðsti dómstóll landsins, heldur hefur dómsvaldið verið flutt úr landi. Hins vegar að með þessum samningum að þá finnst mér blasa við að hér er verið að skrumskæla réttarríkið.”
Hæstiréttur hafði kveðið upp úr um það að dómarar sem ég skipaði með samþykki alþingis væru löglegir og réttmætir í embættum sínum. Dómarar við Landsrétt og Hæstarétt hafa beint og óbeint komist að þeirri niðurstöðu að þessir sakborningar hafi fengið réttláta málsmeðferð. Allt að einu lýsir forsætisráðherra því yfir að sakborningar hafi fengið ósanngjarna málsmeðferð og skattgreiðendur eru látnir borga lögmanni þeirra hátt í 10 milljónir króna.
Og þessum málum er fráleitt lokið. Og þó. Lögmaður sakamannanna sagði að umbjóðendur hans þúna „að taka ákvörðun um hvort þeir vilji krefjast endurupptöku sinna mála á þessum grundvelli“. Erindi þessara sakamanna var sem sagt ekki brýnna en svo að þeir höfðu ekki tekið ákvörðun um að fara þá leið sem þeir þó voru að bera undir MDE með ærnum lögmannskostnaði. Krefjist þeir ekki endurupptöku sýnist ferðin til Strassborg hafa verið í þeim tilgangi einum að herja út úr ríkinu lögmannskostnað. Og það tókst.
Ég rifja þetta upp nú í kjölfar þess ferlis sem nú stendur yfir í Strassborg vegna skipunar nýs íslensks dómara við MDE. Það ferli hefur ekki gengið vandræðalaust fyrir sig. Um það fjalla ég í grein í Morgunblaðinu dag.