Bann við guðlasti mögulega enn í lögum

kirkja2.jpg

Ákvæði hegningarlaga um bann við guðlasti var afnumið á alþingi í sumar. Ákvæðið hljóðaði svo: Hver, sem opinberlega dregur dár að eða smánar trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags, sem er hér á landi, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 3 mánuðum. Mál skal ekki höfða, nema að fyrirlagi saksóknara.Þetta ákvæði þótti orðið „á skjön við ríkjandi viðhorf til mannréttinda hér á landi“; eins og það var orðað í lagafrumvarpinu sem þingmaður Pírata lagði fram. Í umræðum um málið var á það bent að ákvæðið stangaðist á við tjáningarfrelsi manna. Þessu var ég sammála og greiddi atkvæði með því að fella niður bannið við guðlasti. Hins vegar tók ég eftir áhugaverðum tvískinnungi í málflutningi þeirra sem ákafastir voru að fella niður guðlastsbannið.Eftir stendur nefnilega óraskað í hegningarlögum ákvæði 233. gr. um bann við því að hæðast að og smána fólk með ummælum vegna tiltekinna þátta í þeirra fari. Ákvæðið 233. gr. er svohljóðandi: Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.Því hefur verið haldið fram 233. gr. sé ætlað að stemma stigu við hvers kyns hatursorðræðu. Á alþingi kom fram sú skoðun að grundvallarmunur væri á þessu ákvæði og því sem laut að banni við guðlasti. Ekki var það þó rökstutt nánar eða útskýrt í hverju sá grundvallarmunur fólst. Af hverju kom það ekki til skoðunar að afnema líka 233. gr. hegningarlaga? Tvennt tel ég umhugsunarvert í þessu sambandi.Annars vegar það að mörkin á milli guðslasts og þess sem áfram er bannað eru óljós. Er blaðagrein sem lýsir guðhræddu og kirkjuræknu fólki sem barnalegum einfeldningum leyfilegt guðlast eða ólögmæt hatursorðræða? Er teikning sem sýnir íslenska múslima biðja til guðs síns með rassinn upp í loft og fingurinn einnig en framan í samkynhneigða boð- leg mynd að lögum eða ekki? Hvort er hér verið að hæðast að trúarkenningunni eða fylgisspektinni og fylgjendunum? Hitt er svo það, sem meira máli skiptir að mínu mati, að þegar menn hafa, góðu heilli, viðurkennt tjáningarfrelsið er einkennilegt að ætla að takmarka það með þeim hætti sem 233. gr. gerir. Það er létt verk og löðurmannlegt að vera umburðarlyndur í garð skoðana sem hreyfa ekki við manni. Tjáningarfrelsið nær hins vegar líka til þeirra sem hafa andstyggilegar skoðanir.

>>Það er einkennilegt ef barátta fyrir tjáningarfrelsi á að takmarkast við guðlast.<<

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 16. ágúst 2015.

Previous
Previous

Sáttin um sjávarútveginn

Next
Next

Ég er Cecil