Ég er Cecil

ljon460px.jpg

Bandarískur tannlæknir lék illa af sér fyrr í sumar þegar hann drap konung dýranna í þjóðgarði í Simbabve, bara að gamni sínu. Hann virðist hafa mútað starfsmönnum garðsins og leiðsögumönnum með um 7 milljónum króna til þess að lokka ljónið Cecil, sérlega fallegt dýr og eftirlæti allra sem til þekktu, út úr sínu verndaða umhverfi til þess eins að drepa það og með afar lúalegum hætti.Markmið tannlæknisins var að verðlauna sjálfan sig með uppstoppuðu hræi dýrsins á vegg í stássstofu sinni. Menn nefna þetta „verðlaunaveiðar“. Andstyggilegt fyrirbæri í sjálfu sér að mínu mati, en að allri geðshræringu minni slepptri þó ekki með öllu gagnslaust.Tannlæknirinn alræmdi er einn af þúsundum frístundaveiðimanna sem sækja í verðlaunaveiðar í villtri náttúru Afríku. Ljón, fílar og nashyrningar eru vinsælar bráðir. Þá eru sum dýr veidd í lækningaskyni, til skrauts eða til verndar annarri náttúru. Veiðarnar hafa átt sinn þátt í því að gengið var mjög nærri sumum dýrategundum.Hvítu nashyrningarnir voru nærri útdauðir um næstsíðustu aldamót, einungis um 20 dýr eftir í Suður-Afríku. Nú er hvíti nashyrningurinn algengasta afbrigðið af nashyrningum, stofninn talinn vera um 20 þúsund dýr. Ástæðuna má rekja til verndarátaks sem meðal annars fól í sér myndun eignarréttar á dýrunum. Þjóðgarðar seldu dýr til landeigenda sem sáu viðskiptatækifæri í fjölgun dýranna. Með því að selja takmarkaðan aðgang að veiðum náðu þeir að stýra verðlaunaveiðum og gera sér mat úr þeim. Um leið náðu þeir stjórn á neikvæðum afleiðingum offjölgunar dýranna á aðrar tegundir og landbúnað. Hugtakið veiðiþjófnaður varð loks til. Sú hætta sem helst steðjar að hvítu nashyrningunum nú er síhækkandi verð á hornum þeirra sem er afleiðing af viðskiptabanni sem lagt var á undir lok síðustu aldar. Vegna viðskiptabannsins hafa reglur um verðlaunaveiðar víða verið hertar, sem hefur leitt af sér auknar ólöglegar veiðar.Þar með tapast mikilvæg yfirsýn og stjórn á veiðunum. Það kann að hljóma einkennilega en veiðar eru oft mikilvægar við vernd villtra dýra. Það er ólíklegt að jafn vel væri hugsað um íslenskar laxveiðiár ef ekki væru tekjur af stangveiðum.Í kjölfar drápsins á hinum fallega Cecil hefur komið upp sú krafa að ríki banni innflutning á verðlaunadýrum. Fátt kæmi sér verr fyrir villtu dýrin í Afríku. Viðbrögðin við drápinu á Cecil sýna að eignarrétturinn virkar þegar kemur að verndun þeirra. Cecil var í eigu tiltekins þjóðgarðs. Hann var ekki löglegt skotmark heldur var hann garðinum verðmætur.Leiðsögumenn brugðust skyldum sínum og eiga yfir höfði sér refsingu að lögum. Þannig á það að vera.

>>Verndun villtrar náttúru tekst best þegar eignarrétturinn liggur skýr fyrir og hjá þeim sem næst búa. Verðlaunaveiðar eru ein leið til þess að vernda hið villta líf.<<

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 2. ágúst 2015.   Mynd: PHOTOCREO Michal Bednarek/Shutterstock

Previous
Previous

Bann við guðlasti mögulega enn í lögum

Next
Next

Tækifæri fyrir hjúkrunarfræðinga