Baráttugleði
Við Íslendingar létum ýmislegt eftir okkur á undanförnum árum sem við hefðum betur látið ógert. Margt af því var gert fyrir það sem leit út fyrir að vera ódýrt erlent lánsfé en hefur með falli krónunnar breyst í skuldafen. Upp úr þessu feni er erfitt er að komast þegar tekjur eru í íslenskum krónum eða jafnvel ekki til staðar. Þessi erlenda skuldsetning sligar ekki bara heimili og fyrirtæki heldur hefur hún komið sveitarfélögum eins og Hafnarfjarðarbæ á kaldan klaka. Kostnaði af ýmsum öðrum verkefnum hins opinbera var einfaldlega vísað inn í framtíðina. Tónlistarhúsið er dæmi um óábyrga hegðun af því taginu en þar voru skattgreiðendur gerðir áskrifendur að stórkallalegum byggingaframkvæmdum í 35 ár. Áskriftin átti að kosta 600 milljónir króna á ári.
Öllu eytt sem kemur inn
Ríkissjóður situr nú uppi með 150 milljarða króna rekstarhalla vegna þess að menn létu allt eftir sér. Þessi nýju útgjöld voru fjármögnuð með tekjum af neyslusköttum sem allir máttu vita að fyrr en síðar myndu dragast saman. Útgjöld ríkisins á föstu verðlagi hafa aukist um 40% frá upphafi síðasta kjörtímabils. Í krónum talið er það um það bil hallinn sem talið er að verði á ríkissjóði á þessu ári eða 150 milljarðar. Það er rannsóknarefni hvernig tókst að auka útgjöldin um 150 milljarða á undanförnum fimm árum. Á þessu tíma var hlutfallslega lítið álag á velferðarkerfinu því hér var hvorki atvinnuleysi né óhagstæð aldursdreifing þjóðarinnar.
Skattlækkanir gegn útgjöldum
Fyrsta lexían af þessari miklu útgjaldaaukning sýnir að það skorti aðhald frá tekjuhlið ríkissjóðs. Það hefði þurft að lækka skatta hraðar og meira en gert var til að koma í veg fyrir þessa sjálfvirku útgjaldaaukningu. Hið opinbera heldur áfram að tútna út ef fóðurskammturinn er ekki minnkaður. Í öðru lagi ættu menn að læra það af þessu að mikilvægt er hafa borð fyrir báru í fjármálum. Mjög fáir fara í gegnum lífið án þess að tekjur dragist verulega saman um hríð eða eignir rýrni í verði. Þriðji lærdómur sem draga má af þessu er að menn verða að velja og hafna. Ríkið er tálsýnin mikla um að allir geti fengið allt á kostnað annarra. Þótt tekjur aukist tímabundið eru þær ekki næg ástæða til að stofna til nýrra útgjalda. Það er ekki sjálfsagt að allar nýjar tekjur fari jafnharðan út sem kostnaður við ný og aukin verkefni hins opinbera.
Meiri baráttugleði
Vinstri flokkarnir stefna að því leynt og ljóst að halda stjórnarsamstarfi sínu áfram eftir kosningar. Hvort sem þeim verður að þeirri ósk sinni eður ei er ljóst að sjálfstæðismenn þurfa á baráttuglöðum þingmönnum að halda á alþingi á næsta kjörtímabili. Ég hvet sjálfstæðismenn um land allt til að taka mið af því við val á framboðslista flokksins í prófkjörum víða um land um næstu helgi.
Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 12. mars 2009.