Borgarlínan og loftslagið

Mynd af borgarlinan.is.

Mynd af borgarlinan.is.

Þessi misserin er margt réttlætt með missannfærandi hætti með því að það sé gert í þágu loftslagsins. Ekki síst skattar, gjöld, boð og bönn og ýmis önnur ærin verkefni ríkis og sveitarfélaga.

Hugmyndir um borgarlínu eru þar engin undantekning.

Í nýlegri skýrslu um borgarlínuna sem finna má á borgarlinan.is kemur fram að samdráttur í losun gróðurhúsalofttegnduna sé eitt af markmiðum samgöngusáttmálans svonefnda.

„Borgarlínunni er ætlað mikilvægt hlutverk við að ná fram þessu markmiði.“

En hvaða losun á borgarlínan að minnka? Losun frá rafbílum sem nú ryðja sér til rúms?

Bílar eru þegar með lítinn hlut losunar

Losun frá vegasamgöngum (einkabílar, bíleigubílar, rútur, strætó, flutningabílar) er um 7% af heildarlosun Íslands (um 1 milljón tonna á ári af um 14 milljón tonna losun fyrir utan millilandaflug). Einkabílar á höfuðborgarsvæðinu bera ábyrgð á hluta af þessum 7%.

Með borgarlínunni er stefnt að því að lítill hluti bíleigenda á höfuðborgarsvæðinu yfirgefi bílana sína og hoppi um borð í borgarlínuna. Því markmiði ætla borgaryfirvöld meðal annars að ná með því að tefja sem mest fyrir annarri vélknúinni umferð í borginni.

Lítill eða enginn ávinningur

Þegar litið er til lítils hlutar bíla í heildarlosun og hve lítill hluti bíleigenda á að færa sig yfir í borgarlínuna blasir því við að borgarlínan mun að öðru óbreyttu hafa hverfandi áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda árið 2030. Jafnvel þótt björtustu spár um notkun hennar rætist. Í besta falli væri það brot úr prósenti og borgarlínan þar með ein dýrasta loftslagsaðgerð sögunnar.

Ég segi að öðru óbreyttu af góðri ástæðu. Nú eru komnir á markað bílar sem hafa ekki í för með sér útblástur í akstri. Ef bílafloti okkar Íslendinga færist allur í þá átt, hver verður þá ávinningurinn af borgarlínunni í loftslagsmálum þegar borgarlínan verður borin saman við bíla án útblásturs?

Eða minni en enginn?

Verði nýting borgarlínunnar hins vegar lítil mun hún leiða til aukinnar losunar gróðurhúsalofttegunda. Í skýrslunni kemur nefnilega fram (sjá mynd A.18 bls. 47) að borgarlínan verði ekki kolefnishlutlaus, sama hver orkugjafinn verður, enda fylgja henni miklar framkvæmdir og innkaup á risavögnum. Eins og samsvarandi verðmiði hennar ber glöggt vitni.

Previous
Previous

Lokað fyrir lýðræðið?

Next
Next

Eytt út í loftið?