Eignarréttur jarðeigenda skertur

Það er auðvitað ekki vanda­mál í sjálfu sér að marg­ir eigi sam­an jörð kjósi þeir svo. Vand­inn felst í form­inu en ekki efn­inu.

Umræða um jarðir á Íslandi hef­ur und­an­far­in ár að mestu leyti lotið að eign­ar­haldi út­lend­inga. Á sama tíma hef­ur fjölgað mjög í hópi ís­lenskra jarðeig­enda, að minnsta kosti í hópi þeirra sem eiga hlut­deild í jörð. Svo mjög hef­ur þeim fjölgað að stjórn­völd telja það nú sér­stakt vanda­mál. Á síðasta ári var því samþykkt breyt­ing á jarðalög­um, nr. 81/​2004, sem ætlað er að stemma stigu við þess­um meinta vanda.

Jarðir í sam­eign

Því geta vissu­lega fylgt alls kyns vand­kvæði að eiga verðmæti í sam­eign með öðrum. Þetta þekkja all­ir sem hafa átt íbúð í fjöleign­ar­húsi. Fjöleign­ar­húsa­lög­in frá ár­inu 1994 hafa hins veg­ar stuðlað að nokkuð snurðulaus­um sam­skipt­um sam­eig­enda og í versta falli, þegar ágrein­ing­ur kem­ur upp, veitt mál­um í skil­virk­an far­veg.

Um jarðir í sér­stakri sam­eign hafa gilt regl­ur sem að mestu hafa verið óskráðar og að sumu leyti ekki alltaf skýr­ar. Helst koma upp álita­efni þegar ráðstafa þarf jörð í óskiptri sam­eign eða ráðast þarf í nauðsyn­leg­ar eða virðis­auk­andi fram­kvæmd­ir á henni. Þegar sam­eig­end­ur eru orðnir nokkr­ir tug­ir, jafn­vel yfir hundrað, ligg­ur í aug­um uppi að erfitt get­ur verið að ná til hvers og eins til þess að fá samþykki fyr­ir þeim ráðstöf­un­um sem krefjast samþykki allra eins og óskráðar regl­ur kveða á um ef ráðstöf­un telst veru­leg. Í ljósi óljósra reglna get­ur dreift eign­ar­hald þannig hamlað eðli­legri þróun og nýt­ingu jarðar­inn­ar. Það er löngu tíma­bært að lög­gjaf­inn láti sig þetta varða en eft­ir­láti ekki dóm­stól­um að móta regl­ur að þessu leyti.

Skýr­ari regl­ur

Með frum­varpi því sem lagt var fram á síðasta ári var ein­mitt ætl­un­in að mæta að ein­hverju leyti því úrræðal­eysi sem marg­ir eig­end­ur jarða í sér­stakri sam­eign standa frammi fyr­ir gagn­vart sam­eig­end­um sín­um. Þannig voru skráðar nokkr­ar regl­ur sem áður hafa verið tald­ar gilda en voru óskráðar. Einnig voru sett fram ákvæði sem ætlað er taka af vafa sem uppi var, t.d. um þýðingu fund­ar­sókn­ar sam­eig­enda þegar til­tekn­ar ákv­arðanir eru tekn­ar. Þessi ákvæði eru til þess fall­in að bæta rétt­ar­stöðu sam­eig­enda al­mennt og hlúa þannig að um­gjörð jarða í sam­eign.

For­kaups­rétt­ur sam­eig­enda

Með laga­breyt­ing­unni var hins veg­ar kynnt til sög­unn­ar ný­mæli sem ekki er hægt að taka und­ir að þjóni hags­mun­um hvorki sam­eig­enda né um­hirðu jarða í óskiptri sam­eign. Bætt var við ákvæði um for­kaups­rétt sam­eig­enda að föl­um eign­ar­hlut­um. Það ákvæði eitt og sér hefði átt að vekja þing­menn til um­hugs­un­ar um eign­ar­rétt og þá skerðingu á hon­um sem þarna var lögð til. Það þarf nefni­lega mjög mikla sam­fé­lags­lega hags­muni til þess að vega þannig að eign­ar­rétti manna. Eng­an rök­stuðning um slíkt er að finna í gögn­um tengd­um frum­varp­inu. Þvert á móti gerðist það í meðför­um þings­ins að for­kaups­rétt­ur þessi var víkkaður út þannig að hann á núna við, ekki bara við al­menna sölu á hlut­um, held­ur líka þegar aðila­skipti verða á eign­ar­hlut­um vegna erfða.

Ómögu­leiki

Litl­ir eign­ar­hlut­ir í jörðum þynn­ast mjög hratt út eðli máls sam­kvæmt þegar þeir ganga til barna og barna­barna. Þegar svo við bæt­ist að sum­ir sem þannig eign­ast hlut í jörð kæra sig koll­ótta um eign­ar­hlut­inn verður oft erfitt að taka ákv­arðanir um jörðina.

Að upp­fylla kvöð um for­kaups­rétt gagn­vart fjölda ein­stak­linga er hins veg­ar jafn erfitt og að ná sam­an með þeim um ákvörðun. Í þeim til­vik­um er ljúka þarf skipt­um á dán­ar­bú­um er það hrein­lega ómögu­legt á þeim tíma sem mönn­um gefst til skipta. Þetta hef­ur leitt til þess að meðal jarðeig­enda fjölg­ar nú þeim í þing­lýs­inga­bók­um sem eru látn­ir. Erfitt get­ur reynst að fá þá til að láta sig varða mál­efni jarðar­inn­ar. Vand­inn sem laga­breyt­ing­in átti að mæta hef­ur þannig auk­ist til muna.

Það er auðvitað ekki vanda­mál í sjálfu sér að marg­ir eigi sam­an jörð kjósi þeir svo. Vand­inn felst í form­inu en ekki efn­inu. Í stað þess að höggva í eign­ar­haldið eins og gert var með laga­breyt­ing­unni fyr­ir ári væri nær að færa rétt­ar­regl­ur á þann veg að þær tryggi skil­virkni slíkr­ar sam­eign­ar. Nýj­asta breyt­ing­in á jarðalög­um ger­ir það ekki, nema síður sé.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. nóvember 2023.

Previous
Previous

Uppreist æra í Eftirmálum

Next
Next

Tómlæti á landamærum