Tómlæti á landamærum
Engum dylst að stjórnvöld standa nú á gati þegar kemur að móttöku fólks sem hingað leitar í von um alþjóðlega vernd (hælisleitendur). Stefnu um skipulega móttöku flóttamanna í samstarfi við sveitarfélög og alþjóðastofnanir hefur verið kastað fyrir róða. Eftir standa handahófskenndar ákvarðanir stjórnvalda og skuldbindingar sem strax frá upphafi liggur fyrir að trauðla er hægt að standa við nema með ærnum kostnaði. Engin framtíðarsýn liggur fyrir. Ekkert mat á efnahagslegum áhrifum óhefts aðgengis erlendra ríkisborgara að íslenskri félags- og heilbrigðisþjónustu. Forystumenn ríkisstjórnarinnar vísa sumir á Alþingi þegar þetta úrræðaleysi ber á góma. En er það að öllu leyti sanngjarnt?
Ábyrgð ríkisstjórnar og ráðherra
Árið 2016 hófst mikill skrípaleikur hér á kostnað skattgreiðenda með hælisumsóknum Albana og Makedóna. Sem ráðherra þessa málaflokks 2017-2019 lagði ég fram frumvörp til breytingar á lögum um útlendinga sem öll voru samþykkt á Alþingi. Þessar lagabreytingar ásamt reglugerðum skiptu sköpum í því að taka fyrir það stjórnleysi sem einkenndi þessi mál þá. Umsóknum frá Albaníu og Makedóníu fækkaði um 90%. Við mátti búast að ekki væru allir þingmenn sáttir við þessar breytingar. Þverpólitísk sátt hefði hins vegar verið, eins og i öðrum málum, biðleikur sem dregið hefði dilk á eftir sér. Þægilegt fyrir ráðherra en fullkomlega óábyrgt.
Í þessum málaflokki er hins vegar ekki nægjanlegt að lög og reglur formi fína ferla þegar í óefni er komið. Vandinn liggur í þeirri holskeflu fólks sem knýr hér dyra og fær sjálfkrafa aðgang að velferðarþjónustu þegar af þeirri einu ástæðu að það bankar upp á.
Þegar grannt er skoðað má ráða að áritunarfrelsi sumra ríkja utan EES inn á Schengen svæðið styður við fólksflutninga í gegnum verndarkerfið. Þar veldur ýmist misskilningur ferðamannanna á eðli áritunarfrelsis eða hreinn ásetningur til þess að misnota það frelsi. Á slíku þurfa stjórnvöld að taka, með afnámi áritunarfrelsis ef ekki vill betur.
Tíminn illa nýttur
Árið 2018 komu 14 manns frá Venesúela og veitti Útlendingastofnun sjö vernd. Þetta var hverfandi fjöldi í samanburði við umsóknir ríkisborgara annarra landa á þeim tíma. Seinni hluta ársins 2019 varð veruleg breyting á þegar 149 umsóknir bárust frá júlí til september það ár. Frá 2019 hefur þannig legið fyrir að í óefni stefndi. Ekkert virðist hafa verið aðhafst til að stemma stigu við þróuninni. Stuttu síðar var landinu nánast lokað í nafni sóttvarna. Þrátt fyrir lítil umsvif á vettvangi stjórnsýslu og stjórnmála næstu tvö árin á eftir var sá tími ekki heldur notaður til þess að grípa til aðgerða vegna fólksfjöldans frá Venesúela sem hafði ekki alveg stöðvast á tímanum þótt landið væri lokað flestum öðrum í lögmætri för.
Það sem af er þessu ári og á síðasta ári eru hælisleitendur frá Venesúela yfir 2.200. Þeir skáka jafnvel Úkraínumönnum það sem af er þessu ári sem fá þó hér dvalar- og atvinnuleyfi nánast skilyrðislaust.
Ríkisborgarar Venesúela þurfa ekki vegabréfsáritun inn á Schengen svæðið og koma því þangað inn sem ferðamenn í 90 daga, einkum til Spánar þar sem þeir sækja um alþjóðlega vernd. Þeim er þar í nær öllum tilvikum hafnað en fá í staðinn dvalarleyfi til eins árs. Spánn er langstærsta móttökuríki Venesúelabúa og tók á móti 15.836 hælisleitendum í fyrra. Ítalía tók á móti 1.841 flóttamanni. Ísland skipar sér í hóp með þessum stórþjóðum, meðal þeirra þriggja landa sem tóku á móti flestum frá Venesúela í fyrra.
Á þessu ári hefur Svíþjóð látið sig varða áritunarfrelsið sem Venesúela nýtur. Sænsk stjórnvöld, sem fóru með formennsku í ESB þar til í júní, hafa kallað eftir breytingum þar á vegna þess sem þau kalla „alvarlega misnotkun“ á kerfinu. Svíþjóð tók á móti 100 umsóknum um vernd frá ríkisborgurum Venesúela árið 2022. Ísland 1483.
Það er vel vitað hvað veldur þessum fjölda frá Venesúela en stjórnvöld skila auðu í umræðunni um þennan fáránleika.
Sambandsleysi ríkisstjórnar við kjósendur
Fyrir utan samninga félagsmálaráðherra við nánast gjaldþrota sveitarfélög um þjónustu við brot af þeim hælisleitendum sem hér eru staddir, hvað nákvæmlega sér ríkisstjórnin fyrir sér í þessum efnum næstu misserin? Fyrirheit um flóttamannabúðar leysa ekki vandann heldur mögulega þvert á móti geta flóttamannabúðir virkað sem segull á þá sem hafa einsett sér að misnota alþjóðlega sátt um aðstoð við stríðshrjáða.
Framlagning daufra lagabreytinga undanfarin ár var ekki af hálfu Alþingis heldur ráðherra. Andstaðan við jafnvel útþynnt frumvörp ráðherra var af hálfu þingmanna ríkisstjórnarflokkanna. Andstaða stjórnarandstæðinga skiptir litlu máli. Aðgerðarleysi til þriggja ára í málefnum Venesúela er af hálfu ríkisstjórnar en ekki Alþingis. Komi hún ekki nauðsynlegum málum í gegnum Alþingi í krafti síns þingmeirihluta er við hana sjálfa að sakast.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 3. ágúst 2023.