Lækkum skatta og fækkum þeim

Skattar geta skipt sköpum. Ekki aðeins fyrir ríki og sveitarfélög heldur einnig einstaklinga, fjölskyldur og fyrirtæki. Lengi sást mörgum yfir að hagsmunir ríkissjóðs og skattgreiðenda geta farið saman. Það er hvorugum í hag að skattar séu háir.LækkumReynsla manna víða um lönd, bæði nú og fyrr, sýnir svo ekki verður um villst að það er bæði ríkinu og skattgreiðendum hagfellt að lækka skatta. Eftir lækkun á tekjuskatti fyrirtækja úr 50 í 18% jukust tekjur ríkisins af skattinum. Eftir að tekjuskattur fyrirtækja lækkaði og tekjuskattur einstaklinga tók að lækka í tíð ríkisstjórna Davíðs Oddssonar fjölgaði störfum, laun hækkuðu sem aldrei fyrr og tekjur ríkisins hækkuðu einnig. Í alþjóðlegri samkeppni skiptir það enn meira máli en áður að skattar hreki ekki fólk og fyrirtæki úr landi. Flest lönd hafa nokkuð til síns ágætis en öll leggja þau skatta á íbúa sína. Þessa skatta er orðið auðvelt að bera saman milli landa. Margvísleg starfsemi er orðin svo hreyfanleg að mjög auðvelt er að flytja hana heimshorna á milli. Það er því mikill kostur að koma vel út úr samanburði á sköttum. Þetta ætti ekki að þurfa að minna Íslendinga á, sem búa í landi sem var meðal annars numið af þeirri ástæðu að ríki Noregskonungs kom illa út í alþjóðlegum skattasamanburði.Fækkum Það er ekki aðeins mikilvægt að skattar séu lágir. Þeir þurfa einnig að vera einfaldir, fáir og sýnilegir. Innflutningi frá löndum utan EES er til dæmis mismunað með því að leggja á hann tolla sem vörur frá EES-löndunum bera ekki. Vörugjöldin og virðisaukaskatturinn leggjast svo með afar misjöfnum hætti á vörur og þjónustu sem keppa beint og óbeint um hylli neytenda. Það þarf að taka til í þessum ranni. Fyrsta skrefið er að fella niður alla tolla. Tollar skila ríkissjóði litlum tekjum en með mikilli fyrirhöfn, kostnaði og ama, bæði fyrir ríkissjóðinn og þá sem þurfa að standa skil á gjöldunum.TækifæriðGóð afkoma ríkissjóðs undanfarin ár ber með sér að það var rétt ákvörðun að lækka skatta á fyrirtæki og einstaklinga. Hins vegar er einnig ljóst að það þarf að halda áfram að lækka skattana, ekki síst til að koma í veg fyrir að miklar tekjur ríkissjóðs verði til þess að útgjöldin aukist til jafns. Góð afkoma ríkissjóðs má ekki verða til þess að ráðdeildin gleymist. Fyrst og fremst þarf að lækka tekjuskatt einstaklinga til að koma í veg fyrir að skattbyrði aukist um leið og menn bæta hag sinn örlítið. Fyrsta skrefið í þá átt er að ríkið lækki tekjuskatt sinn af einstaklingum niður í það sama og það leggur á fyrirtæki eða í 18%. Það er raunhæft markmið fyrir næsta kjörtímabil. Þá yrði tekjuskattur einstaklinga um 30% að útsvari til sveitarfélaga meðtöldu.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 5. október 2006.

Previous
Previous

Eldri borgarar, atvinnuþátttaka og heimilishald

Next
Next

Enn ein þrasnefndin á kostnað almennings